[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar byrjuninni sleppir tekur miðtaflið við og þá vandast oft málið. Miðtöflin eru nú einu sinni erfiðasti þáttur skákarinnar og þar skilur á milli feigs og ófeigs.

Þegar byrjuninni sleppir tekur miðtaflið við og þá vandast oft málið. Miðtöflin eru nú einu sinni erfiðasti þáttur skákarinnar og þar skilur á milli feigs og ófeigs. Þegar miðtaflstækni ber á góma verður manni stundum hugsað til vinar okkar Boris Spasskí. Á bestu árum hans frá 1964 – ´70 skaraði hann fram úr öðrum á því sviði. Þetta kom berlega í ljós í einvígunum sem hann háði og vann flest með yfirburðum. Fyrir hverja keppni gerði hann sér far um að kryfja persónuleika andstæðinga sinna og hjálparhella hans, Igor Bondarevskí, hafði sitthvað til málanna að leggja. Þegar Spasskí tefldi við Tal í lokaeinvígi áskorendakeppninnar 1965 var dagskipun Igors þessa ávallt hin sama: engin þvinguð afbrigði gegn Mischa Tal. Spasskí vann 7:4.

Í „einvígi aldarinnar“ 1972 var Bondarevskí ekki lengur í liði Spasskís, gamlir púkar sem heimsmeistarinn þáverandi hafði stundum verið að kljást við settust aftur á öxl hans og því fór sem fór. En leikbrögðin gleymast ekki; skákir Spasskí eru allar skráðar í gagnagrunna. Þar geta menn áreiðanlega geta fundið einhverja snjalla millileiki svo vísað sé til fyrirsagnar þessarar greinar. Ég var að fylgjast með Akureyringnum Símoni Þórhallsyni tefla í fjórðu umferð Norðurlandamóts ungmenna í bænum Kosta í Svíþjóð og leiðirnar virtust ekki greiðar í miðtafli þegar Símon datt niður á lausnina:

NM ungmenna 2016; 4. umferð:

Símon Þórhallsson - Johan Hardlei ( Danmörk )

Bogo-indverskv vörn

1. d4 e6 2. c4 Bb4+ 3.Bd2 Bxd2+ 4. Dxd2 f5 5. g3 Rf6 6. Rc3 0-0 7. Bg2 d5 8. Rf3 c6 9. Re5 Rbd7 10. Rxd7 Bxd7 11. 0-0 De7 12. f3 b5 13. b3 Hae8 14. Hfe1 e5 15. dxe5 Dxe5 16. cxd5 b4 17. Ra4 Rxd5 18. e4 fxe4 19. fxe4 Rf6 20. Dxb4 Dh5

Um byrjun þessarar skákar þarf ekki að hafa mörg orð. Skákmennirnir virtust undir áhrifum þess þanka að ekki væri gott að taka á c4. Það hefði svartur samt átt að gera strax í 12. leik. En hvernig á hvítur nú að verjast mótspili svarts á kómgsvæng, - Bh3 og – Rg4 liggur í loftinu og 21. Dc5 má svara með 21. ... He5 o. s.frv. Millileikur er svarið!

21. Dc4+! Kh8?

Nauðsynlegt ar 21. ... Be6.

22. Dc5!

Í því liggur munurinn að hrókurinn á f8 er valdaus eftir 22. .... He5.

22. ... Dh6 23. e5 Rg4 24. h3 Rf2 25. Hf1!

Gernýtir sér valdleysið á f8. Svartur er varnarlaus.

25. ... Bxh3 26. Hxf2 Hxf2 27. Dxf2 Bxg2 28. Kxg2 Hd8 29. He1 Kg8 30. e6 Hf8 31. De3 Dh5 32. e7

– og svartur gafst upp.

Símon átti góða möguleika á þvi að ná efsta sæti í fimmtu umferð en missti vinningsstöðu niður í tap. Að lokum fékk hann bronsið í sínum flokki.

Óskar Víkingur Davíðsson varð Norðurlandameistari í yngsta aldursflokknum, E-flokki, sem skipaður var keppendum 10 ára og yngri.

Íslensku þátttakendurnir virtust um tíma eiga möguleika á gulli í öllum fimm aldursflokkunum. Í landakeppninni, sem mælir samanlagðan árangur sex þátttökuþjóðanna, náði Ísland 2 ½ vinnings forskoti um mitt mót en óhagstæð úrslit í nokkrum lykilskákum á lokasprettinum ollu því að Danir skriðu fram úr.

Róbert Luu sem tefldi í E-flokki eins og Óskar Víkingur krækti sér í silfurverðlaun og D-flokknum varð Vignir Vatnar Stefánsson að láta sér bronsið lynda en fékk þó 4 ½ vinning af sex mögulegum og hækkaði um 30 elo-stig í leiðinni.