[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Viðhorf manns til alls sem maður horfir á skerpist og breytist þegar maður teiknar eftir lifandi fyrirmynd, það er stanslaus áskorun en fátt kennir manni meira,“ segir myndlistarkonan Kristín Gunnlaugsdóttir sem fær til sín módel sem koma...

„Viðhorf manns til alls sem maður horfir á skerpist og breytist þegar maður teiknar eftir lifandi fyrirmynd, það er stanslaus áskorun en fátt kennir manni meira,“ segir myndlistarkonan Kristín Gunnlaugsdóttir sem fær til sín módel sem koma og sitja fyrir hjá henni á nýju vinnustofunni. Mannslíkaminn er rauði þráðurinn í þeim verkum sem hún vinnur að núna.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Ég er að vinna að teikningum með mannslíkamann núna, þar sem ég styðst við lifandi fyrirmyndir, bæði karla og konur. Fólk er í hversdaglegum og látlausum stellingum og líka óvenjulegum sem er þó lýsandi fyrir það sjálft. Þetta er heillandi viðfangsefni. Þó ég hafi teiknað módel frá unga aldri, reyndar með hléum, þá hef ég alltaf skáldað eða teiknað eftir tilfinningu í verkum mínum, frekar en að líkja beint eftir. Núna hef ég lifandi fyrirmyndir og nálgunin verður annars eðlis og nær manneskjunni, ekki bara hugmynd eða tilfinning um hana.

Það þarf að myndast einhver þráður milli þess sem kemur frá mér í teikningunni og svo þess sem situr fyrir. Það þarf að myndast einhver spenna eða eitthvað sem heillar og það getur verið óútreiknanlegt hvað það er, en það er eitthvað sem kallar. Fólk er yfirleitt heillandi, meira en það gerir sér grein fyrir, ekki síst þegar það talar ekki. Það nægir bara að vera. Svo er það línan, hún sér um sig sjálf og myndar eigið líf, hún er það sem allt snýst um.

Þegar best gengur hefur línan og teikningin beinlínis áhrif bæði á þann sem gerir verkið og þann sem síðar horfir á það. Fátt veit ég magnaðra en einfaldar línur af manneskju, góð teikning segir allt. Ég finn sjálf breytingar á hjartslætti bæði þegar ég teikna og sé góða teikningu af sálarlífi manneskju, það kemur sláttur inn á allt kerfið hjá manni. Það er merkilegt hvað málverkið nýtur mikillar virðingar miðað við að málverk getur aldrei nálgast léttleika einfaldrar teikningar,“ segir Kristín Gunnlaugsdóttir myndlistarkona sem vinnur nú að nýjum verkum á nýrri vinnustofu sem hún lét byggja heima hjá sér.

„Þetta er draumur sem rættist. Hér er komin hlýleg og falleg vinnustofu þar sem allt er einfalt, þægilegt og klæðskerasniðið að mínum þörfum. Ég stækkaði og bætti gömlu vinnustofuna sem var hér fyrir um helming, en hún var orðin feyskin og fúin. Einnig bættist við lofthæðina. Þetta gjörbreytir aðstöðunni og einfaldar lífið mikið. Gamla vinnustofan var orðin allt of lítil, sérstaklega þegar ég var að vinna stóru verkin mín, ég þurfti að leigja sérstaklega vinnustofu til að sinna þeim. En svo var ég heppin og ákvað að ráðast í þessa stóru framkvæmd, það var annaðhvort núna eða fresta því enn og aftur um óákveðinn tíma. Þetta var langþráður draumur sem rættist og ég er auðvitað mjög ánægð með árangurinn. Andrýmið er meira og gefandi og hér get ég gert margt í einu.“

Getur verið einmanalegt

Þegar Kristín er spurð að því hvernig henni gangi að aga sig með vinnustofu sem er á heimilinu, segir hún allan gang á því.

„Ég get verið talsvert eirðarlaus, en vinn helst þegar börnin eru í skólanum. Kannski er það mitt kvenlega eðli að gera margt í einu, vinna og sinna heimilinu og það getur verið alveg frábært. Mér finnst ég hafa marga í vinnu, bakaraofninn, þvottavélina, þurrkarann, tölvuna. Þau standa sig ágætlega en það þarf að standa yfir ryksugunni, eldavélinni og laga til í reflexinum. Að sjálfsögðu hefur það verið mikil vinna að lifa af myndlistinni og koma sér upp vinnuaðstöðu heima með tvö börn. En ég hef verið heppin og náð að vinna ágætlega úr tækifærum sem hafa boðist. Óvissan um afkomu er oft erfið í þessari vinnu en mér finnst það skipta öllu að vinna við það sem mér finnst skemmtilegast. Gæti ekki hugsað mér að hafa það öðruvísi og finnst sjálfsagt og eftirsóknarvert að láta vinnu, heimili og lífsstíl vera eina flæðandi heild. Það gefur ákveðið frelsi. Núna er mikið af sýningum framundan og fókusinn skerpist við það. Það er allt undir manni sjálfum komið hvernig og hvort maður nýtir tímann en það hentar mér vel að vinna heima. Ég er ein af þessum þar sem vinnan er hvíld, sé áhuginn á verkefninu fyrir hendi, hvort sem það er að vinna á vinnustofunni eða vinna að heimilinu. Kvöldin geta reynst mér drjúg og þá kemur sér vel að vinnustofan er áföst heimilinu. Ég nýt þess að vinna í ljósaskiptunum, líka þegar dimmt er úti og jafnvel við litla lýsingu um hánótt. Mér hefur fundist að verktakar eins og ég, sem eru sívinnandi, átti sig ekki alltaf best á hvar skilin eru milli vinnu og ekki vinnu. Stundum breytist marengstertan í myndverk,“ segir Kristín og bætir við að starf myndlistarmannsins geti verið einmanalegt og mikilvægt sé að einangrast ekki.

„Það er nauðsynlegt að vera í tengslum við fólk sem er að vinna í greininni og líka að gefa færi á sér og miðla. Og hrósa hvert öðru.“

Á vinnustofunni hefur Kristín komið sér upp afar hentugum trönum, en Jón Axel myndlistarmaður á heiðurinn af þeirri hugmynd og hún mælir með henni á vinnustofum listamanna þar sem unnin eru myndverk. Ódýr og einföld lausn á einum vegg þar sem hægt er að hafa mörg verk í gangi í einu.

Sýning í Köben framundan

Kristín sýndi vatnslitamyndir af mannslíkamanum þegar hún opnaði vinnustofuna í nóvember og hún segist verða með svipaða sýningu í litlu herbergi í Skúmaskoti í mars.

„Í augnablikinu er ég að vinna með nokkuð margt í einu og í ólík efni, vatnsliti, pappír, glimmer, olíu og kol. Mér fellur best að teikna og fylgja línunni eins og henni líður þann daginn, því einfaldara því betra. Núna hef ég eigin módel sem koma og sitja fyrir hjá mér, sem er magnað og ég teikna mikið og vatnslita. En mikið fer nú í arininn. Viðhorf manns til alls sem maður horfir á skerpist og breytist þegar maður teiknar eftir lifandi fyrirmynd, það er stanslaus áskorun en fátt kennir manni meira. Mannslíkaminn er því rauði þráðurinn, en best er að leyfa verkunum að tala í bili,“ segir hún en verk hennar um kynvitund og tabú hafa vakið mikla athygli.

Á næsta ári mun Kristín ásamt Margréti Jónsdóttur leirlistakonu sýna í Norðurbryggju og sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn.