Þorbjörg Ragna Þórðardóttir fæddist 13. júlí 1954 í Reykjavík. Hún lést á Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi 15. febrúar 2016.

Foreldrar hennar voru Þórður Ingvi Sigurðsson prentari, f. 29. janúar 1930, d. 3. ágúst 1998, og Ingibjörg Guðlaugsdóttir húsmóðir, f. 6. júlí 1935, d. 2. mars 1976.

Ragna ólst upp í Reykjavík og Hafnarfirði og átti tíu systkini, þrjár alsystur og sjö hálfsystkini. Alsystur: Birna Elín, f. 1952, Guðlaug Katrín, f. 1956, og Ágústa Sigríður, f. 1960. Hálfsystkin, sammæðra: Sigríður Steina, f. 1951, Kristjana, f. 1963, Guðlaugur Davíð, f. 1965, d. 2006, og Þorsteinn Magnús, f. 1971. Hálfsystkin, samfeðra: Eva, f. 1966, Guðmundur, f. 1967, og Pétur, f. 1969.

Þann 9. apríl 1970 eignaðist hún Ingibjörgu Maríu Reynisdóttur. Barnsfaðir: Reynir Línberg Marteinsson, f. 12. október 1949. Ingibjörg María á tvö börn Þau eru: Sigurbjörg Laufey, f. 27. janúar 1999, og Jóhannes Hólmar, f. 4. nóvember 2000. Faðir þeirra er Sigurpáll Hólmar Jóhannesson, f. 11. apríl 1974.

Þann 2. september 1972 kvæntist Ragna Ævari Sigfússyni, f. 26. ágúst 1953, d. 10. okt. 2009. Þau skildu eftir níu ára hjúskap. Börn þeirra eru: 1) Linda Björk Ævarsdóttir f. 13. júlí 1973. Hún er kvænt Kristjáni Steinari Kristjánssyni. Börn þeirra eru Kristján Heiðmar, f. 1. júlí 1991, Andrea Björk, f. 23. ágúst 1993, Gunnþór Ingi, f. 1. apríl 1997, og Freydís Ósk, f. 14. nóvember 2002.

2) Þórunn Elfa Ævarsdóttir, f. 16. ágúst 1978. Sambýlismaður hennar er Björn Sigurðsson, f. 1. júní 1974. Börn þeirra eru Sigurður Aron, f. 27. septmber 2000, Sindri Freyr, f. 13. júní 2004, og Elísa Bríet, f. 5. janúar 2008.

Árið 1982 hóf Ragna sambúð með Einari Gunnarssyni, f. 26. ágúst 1955. Þau eignuðust tvö börn saman:

1) Jón Gunnar, f. 29. apríl 1983. Hann er kvæntur Guðrúnu Hjálmtýsdóttur, f. 18. ágúst 1985. Börn þeirra eru: Einar Hjálmtýr f. 27. ágúst 2004, Katrín Ragna, f. 30. október 2007, Elsa Fanney, f. 15. september 2008, Patrick Svavar, f. 27. júlí 2010, Hanna Ýr, f. 31. maí 2013, og María Margrét, f. 31. desember 2015. 2) Ragnar Ásmundur, f. 23. febrúar 1986. Sambýliskona hans er Guðbjörg Ólafsdóttir, f. 18. júní 1992, og eiga þau eina dóttur, Thelmu Ýri, f. 16. desember 2012.

Ragna og Einar slitu samvistum árið 1996.

Ragna verður jarðsungin frá Hólaneskirkju á Skagaströnd 27. febrúar og hefst athöfnin klukkan 14.

Elsku mamma, það er skrýtin tilfining að setjast niður og skrifa minningargrein um þig. Það er eitthvað svo ótrúlegt að þú sért bara farin frá okkur og ekki hægt að hringja til þín og spjalla saman lengur.

Þegar ég hugsa til baka var líf þitt svolítið þyrnum stráð. Allt of snemma þurftir þú að axla ábyrgð á systkinum þínum, eignaðist svo barn 15 ára, lentir í Vestmannaeyjagosinu 1973 ólétt að mér, misstir móðir þína ung og fleira sem var lagt á þig. En einhvern vegin tókst þér að hrista þetta af þér og halda áfram ótrauð.

Mér er minnisstætt frá Raufarhafnarárunum þegar þú varst að baka, hlustaðir á REO Speedwagon og söngst með og dillaðir þér í takt og við systur biðum eftir að fá að smakka kökurnar. Eins þegar þú heklaðir kjóla, hatta og veski á barbídúkkurnar okkar, þá sátum við hjá þér og biðum eftir að geta klætt dúkkurnar í og leikið okkur með þær. Einnig eftir að þú varst orðin einstæð með okkur systurnar þrjár í Kópavoginum. Þá var allt svo skipulagt hjá þér þegar þú varst að vinna hjá tollstjóranum á skrifstofunni með Fríðu frænku. Þá voru kleinubakstursdagar á fimmtudögum og þú varst með matseðil fyrir vikuna á ískápnum. Þú hafðir unun af að spá í matreiðslubækur og uppskriftir og að prófa þær.

Síðan eignaðist þú strákana þína tvo og þá var nú friðurinn úti hjá okkur systrum og mikið fjör á heimilinu en þú varst stolt af hópnum þínum og hélst alltaf heimilinu hreinu og fínu. Eiginlega er hægt að segja að þér hafi liðið best þegar þú varst búin að baka og áttir mat í ískápnum en oft var erfitt að láta enda ná saman og man ég vel eftir fatapokunum sem við fengum frá frænkum okkar sem voru látnir ganga á milli. Einn siður sem þú varst alltaf með og var þér mjög mikilvægur var að við börnin þín fengum alltaf ný nærföt og náttföt fyrir jólin og hélt ég þeim sið við eftir að ég eignaðist sjálf börn. Það að verða amma fannst þér ótrúlega gaman aðeins 36 ára. Þegar Heiðmar fæddist varst þú viðstödd og varst kletturinn minn í því verkefni. Þegar heim var komið með prinsinn töluðum við oft á dag saman til að þú gætir nú fylgst með hvað hann gerði hverju sinni.

Eitt af því sem við deildum saman var áhugi á saumaskap og var oft gaman að spá og spekúlera í sníðablöð og bútasaum. Skipti þá ekki máli á hvaða tungumáli þau voru því þú varst svo klár í þeim. Mikið sem það var gaman þegar þú komst eina helgi í sveitina með saumavélina þína og við vorum að sauma dýrin, ég saumaði kú og þú hænuna.

Þú varst svo hæfileikarík á mörgum sviðum, allt sem þú tókst þér fyrir hendur var svo vel gert og frágangurinn alltaf upp á tíu. Þú kenndir mér fljótt að það væri ekkert gaman að gera fallegan hlut sem væri illa frágenginn. Þegar þú fórst að mála urðu til svo falleg verk sem þú gerðir handa okkur systkinunum sem eru ómetanleg nú þegar þú ert farin frá okkur.

Þegar ég var 13 ára á Blönduósi linnti ég ekki látum fyrr en þú gafst þig og leyfðir mér að prófa að keyra bíl. Þá fórum við stundum eftir hádegi á sunnudögum upp á Ennisbrautina rétt fyrir ofan Blönduós á gömlu grænu Cortínunni og ég fékk að æfa mig í að keyra, ég bara gat ekki beðið eftir bílprófinu. Þú varst nefnilega dálítill prakkari í þér og hefðu ekki allar mömmur tekið þetta í mál. Síðustu ár var svo gaman að smella saman í kvöldhitting hjá þér og mættum við systur með handavinnuna okkar og þú með þína og hlógum við oft eins og vitleysingar og höfðum gaman af.

Þegar þú svo veiktist og þurftir að fara ófáar ferðir á Akureyri reyndum við systur alltaf að fara allar saman því þó að tilgangur ferðarinnar væri alvarlegur var alltaf svo gaman hjá okkur. Hjólastólarallý á Glerártorginu og fleira. Þegar kom að því að þú legðist inn á Sjúkrahúsið á Blönduósi vitandi það að þú gætir ekki lengur búið ein og þyrftir aðstoð tókstu því af æðruleysi og sættir þig bara við það, vitandi það að þú ættir ekki afturkvæmt heim. Dauðinn var þér hugleikinn og ræddum við mikið um hann, þú vildir helst fá að vita daginn og er ómetanlegt hvað þú varst raunsæ og hreinskilin í sambandi við það sem koma skyldi. Síðustu dagana varstu mikið veik og sváfum við systur hjá þér þrjár síðustu næturnar og töluðum um hvað það væri eiginlega langt síðan við hefðum sofið allar í sama herbergi, sennilega ekki síðan þú varst einstæð með okkur í Kópavoginum. Starfsfólkið á sjúkrahúsinu á heiður skilinn og talaðir þú oft um það hvað það væri gott að vera hjá því.

Elsku mamma, ég kveð þig með söknuði, sofðu rótt.

Ó, mamma mín, nú leiðir skilja að sinni,

og sorgartárin falla mér á kinn,

en hlýjan mild af heitri ástúð þinni,

hún mýkir harm og sefar söknuðinn.

Í mínum huga mynd þín skærast ljómar,

og minningin í sálu fegurst ómar.Þú móðir kær þér aldrei skal ég gleyma,

þinn andi fylgi mér á lífsins strönd.

Ég vil í hjarta heilræðin þín geyma

og halda fast í Drottins styrku hönd.

Með huga klökkum kveð ég góða móður.

Ó, mamma mín, þú lífs míns stærsti sjóður.

(Árni Gunnlaugsson)

Þín,


Linda Björk.

Þegar mannfólkið fæðist eru aðstæður misjafnar. Sumir fá flottan bát með utanborðsmótor, kort, áttavita og næringarríkt nesti áður en þeir leggja í hann. Aðrir fá brotna bátsskel, fúnar árar og þurrt kex. Ég hef alltaf sagt að hver sé sinnar gæfu smiður og þó það sé auðvitað rétt að mörgu leyti, er ekki hægt að horfa framhjá því, hversu misjafna byrjun fólk fær í lífinu. Ragna var ekki ein af þeim sem fékk flotta bátinn í byrjun, hún fékk brotna bátsskel. Þrátt fyrir það sigldi hún af stað út í lífið, staðráðin í að gera sitt besta.

Nístandi sorg og söknuður kremur hjarta mitt núna. Ég er óendanlega sorgmædd að ég skuli aldrei oftar fá að njóta hennar frábæra skopskyns. Sorgmædd yfir að sambandið skyldi ekki vera meira seinustu árin. Sorgmædd yfir að nú hefur fækkað um enn einn í systkinahópnum. Sorgmædd yfir að vita að nú hittumst við aldrei aftur, allar systurnar saman, og skellihlæjum og grínumst, líkt og við gerðum á bestu stundum. Að geta hlegið og spaugað þrátt fyrir allt og allt, er ómetanlegur kostur í lífinu.

En hver var hún? Hvaðan kom hún og á hvaða leið var hún? Þegar ég var að alast upp var Ragna stóra systir á heimilinu. Hún var svakalega stríðin og manni gat nú stundum sviðið sárt undan stríðninni. Sérstaklega þegar hún stríddi mér á að taka stríðninni illa og fara í fýlu! Þegar ég var rétt nýbyrjuð í barnaskólanum, var Ragna komin á unglingsaldurinn. Þá botnaði maður ekkert í þessari gelgju sem stóð með eyrað upp við plötuspilarann í stofunni og hlustaði á Hljóma og Bítlana. Í stuttu pilsi og með skæslega klippingu. Þetta var tíminn þegar meikið var þykkt smurt, augnmálningin þung og varaliturinn hvítur. Þetta var tímabilið þegar Bjöggi Halldórs var mesti töffarinn, með sína brotnu tönn. Einhverjar stelpur í skólanum brutu viljandi aðra framtönnina í sér í takt við goðið. Á þetta hlustaði maður opinmynntur. Þannig var tíminn.

Svo leið tíminn og alltof, alltof fljótt varð stóra systir ófrísk. Hafði fengið bæjarleyfi og mátti gista hjá ömmu í Reykjavík. Ömmu var uppálagt að passa hana vel, gelgjuna. Sem tókst ekki betur til en svo að níu mánuðum seinna fæddist lítil snót. Við tóku andvökunætur og grátandi barn með magakrampa. Aðstoðin heima var ekki mikil og þá komum við aftur að brotnu bátsskelinni. Hún fékk samt að vera heima. Enda bara unglingur sjálf.

Svo liðu árin og Ragna fetaði sinn veg. Stundum holóttann, stundum sléttan en yfirleitt upp í móti. Hún eignaðist börnin sín sem hafa staðið eins og klettur með mömmu sinni og aðstoðað hana á allan hátt.

Í draumaveröld hefði Ragna átt lítið kaffihús með krúttlegri kökugerð bakatil. Hún var afskaplega flink að baka og fannst það skemmtileg iðja. Ég sé hana fyrir mér með hvíta svuntu og smá hveiti á nefinu að skreyta einhverja tertu með flottum blómum. Ég sé hana fyrir mér hellandi upp á ilmandi kaffi, um leið og gestirnir fá sér sæti  í litla kaffihúsinu. Og að sjálfsögðu er sól fyrir utan. En samt ekki of heitt. Því ef henni var illa við eitthvað, þá var það of mikill hiti! Systir mín var líka mjög handlagin. Hún málaði á tímabili styttur, margar af þeim tengdust jólunum og urðu afskaplega fallegar hjá henni. Í draumaveröldinni hefði hún líka getað verið með vinnustofu og búð. Þar hefði hún getað selt stytturnar sínar og allar flíkurnar sem hún prjónaði og saumaði í gegnum tíðina.

Ragna var sambland af algjörum nagla og viðkvæmri sál. Hún þurfti mjög snemma að axla ábyrgð, ekki bara á sínu barni, kornung, heldur hugsaði hún um yngri systkini sín og heimilið oft á tíðum. Hún var sjálfstæð. Hún var úrræðagóð. Að keyra á milli landshluta um miðjan vetur í misjöfnum veðrum var eitthvað sem henni fannst ekkert mál og gerði oft. Hún var næm á fólk og það þýddi ekkert að ætla sér að blekkja hana á neinn hátt. En það komu líka erfiðir tímar þegar kvíði og fælni tóku yfir. En hún leitaði sér hjálpar og komst út úr þeim vítahring.

Ég minnist Rögnu fyrir margt. Hún var með einstaklega fallegar og vel lagaðar hendur. Hún var með þykkt, óstýrilátt hár. Hún var með falleg, stór augu. Hún var með óbilandi skopskyn. Hún var með dillandi hlátur. Hún gat verið þung í skapi. Hún var skörp. Hún var handlagin. Hún var heimilisleg. Hún var frábær kokkur og kökugerðarkona. Hún var flink að sauma. Hún var snjöll að prjóna. Hún var vatnshrædd. Hún gat verið hrikalega þrjósk. Hún var systir mín.

En nú er komið að kaflaskiptum og leiðir skilja í bili.


Mig langar til að láta fylgja hér með, texta úr Spámanninum eftir Kahlil Gibran. Gunnar Dal þýddi.

Þá sagði kona ein:
Talaðu við okkur um gleði og sorg.
Og hann svaraði:
Sorgin er gríma gleðinnar.
Og lindin, sem er uppspretta gleðinnar, var oft full af tárum.
Og hvernig ætti það öðruvísi að vera?
Þeim mun dýpra sem sorgin grefur sig í hjarta manns, þeim mun meiri gleði getur það rúmað.
Er ekki bikarinn, sem geymir vín þitt, brenndur í eldi smiðjunnar?
Og var ekki hljóðpípan, sem mildar skap þitt, holuð að innan með hnífum?
Skoðaðu hug þinn vel, þegar þú ert glaður, og þú munt sjá, að aðeins það, sem valdið hefur hryggð þinni, gerir þig glaðan.
Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu þá aftur huga þinn, og þú munt sjá, að þú grætur vegna þess, sem var gleði þín.
Sum ykkar segja:
Í heimi hér er meira af gleði en sorg, og aðrir segja:
Nei, sorgirnar eru fleiri.
En ég segi þér, sorgin og gleðin ferðast saman að húsi þínu, og þegar önnur situr við borð þitt, sefur hin í rúmi þínu.
Þú vegur salt milli gleði og sorgar. Jafnvægi nærð þú aðeins á þínum dauðu stundum.
Þegar sál þín vegur gull sitt og silfur á metaskálum, hlýtur gleðin að koma og fara.


Elsku Inga Maja, Linda, Þórunn, Jón Gunnar, Ragnar Ásmundur og fjölskyldur ykkar, ég votta ykkur mína innilegustu samúð og veit að þó að tímarnir séu erfiðir núna, mun að lokum létta til.

Kveðja,

Ágústa (Gústa).