Í tölvubréfi finnur Jóhann Páll Árnason heimspekingur að ýmsu, sem ég hef haldið fram um íslenska vinstri hreyfingu.

Í tölvubréfi finnur Jóhann Páll Árnason heimspekingur að ýmsu, sem ég hef haldið fram um íslenska vinstri hreyfingu. Ég hafði til dæmis andmælt því, að Sósíalistaflokkurinn hefði verið fyrsti Evrópukommúnistaflokkurinn, þar eð hann hefði ætíð verið hollur Kremlverjum, en Evrópukommúnisminn (sem kom til sögu á áttunda áratug 20. aldar) fól í sér gagnrýna afstöðu til þeirra. Jóhann Páll segist aðeins hafa tekið undir það, sem stjórnmálafræðingur einn, Gilberg að nafni, hefði skrifað um þetta árið 1980. En þau rök eru ekki beysin, að einhver útlendingur, ókunnugur íslenskum aðstæðum, hafi haldið þessu fram fyrir hálfum fjórða áratug. Það er ekki þess vegna nauðsynlega rétt, og raunar er það augljóslega rangt af þeirri ástæðu, sem ég hafði nefnt.

Sósíalistaflokkurinn gagnrýndi aldrei Kremlverja, þótt málgögn hans ættu það til, og þó afar sjaldan, að vanda mildilega um við þá. Svo langt gekk fylgispekt flokksins við Kremlverja, að allir fimm þingmenn Alþýðubandalagsins úr Sósíalistaflokknum sátu hjá, þegar aðrir þingmenn fordæmdu kjarnorkuvopnatilraunir Kremlverja í Norður-Íshafi 1961. Ein skýringin á þessari fylgispekt er auðvitað, að Sósíalistaflokkurinn þáði verulega fjárstyrki frá Rússlandi, eins og upp komst, þegar skjalasöfn opnuðust um skeið þar eystra. Ég reyndi að skattvirða og núvirða heildarupphæðina (skattvirðingin felst í að finna upphæðina fyrir skatt, en þar eð greiðslurnar voru leynilegar, voru þær skattfrjálsar; og núvirðingin felst í því að finna, hvert sé virði þessara styrkja hér og nú). Niðurstaðan var, að Rússagullið til Sósíalistaflokksins hefði alls numið hátt í 500 milljónum króna. (Reiknaði ég þá líka með styrkjum til Máls og menningar og eftirlaunagreiðslum til forstjóra bókafélagsins, eftir að Sósíalistaflokkurinn var lagður niður 1968.) Hugsanlega hafa styrkirnir verið hærri, því að gögn rússnesku leyniþjónustunnar eru ekki aðgengileg. Þess má síðan geta, að heildarvirði þeirra fjögurra stórhýsa, sem Sósíalistaflokkurinn og samtök tengd honum áttu undir lokin í Reykjavík (Tjarnargata 20, Skólavörðustígur 19, Þingholtsstræti 27 og Laugavegur 18) myndi nú vera um 1,1 milljarður króna. Í Sósíalistaflokknum voru lengst af skráðir um 1.400 félagar.

Sósíalistaflokkurinn var vissulega ekki yfirlýstur kommúnistaflokkur, en sannfærðir kommúnistar höfðu þar alla tíð tögl og hagldir.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is