Þingmenn og aðrir gestir á Þingvöllum 17. júní 1944 sungu sálm Matthíasar Jochumssonar, „Faðir andanna,“ í aftakaveðri undir berum himni, áður en lýðveldi var stofnað: Vertu oss fáum, fátækum, smáum líkn í lífsstríði alda.

Þingmenn og aðrir gestir á Þingvöllum 17. júní 1944 sungu sálm Matthíasar Jochumssonar, „Faðir andanna,“ í aftakaveðri undir berum himni, áður en lýðveldi var stofnað:

Vertu oss fáum,

fátækum, smáum

líkn í lífsstríði alda.

Þótt Íslendingar séu reyndar ekki lengur fátækir, reyndi bandaríski hagfræðingurinn Anne Sibert að leiða rök að því eftir bankahrunið 2008, að þeir væru of fáir og smáir til að halda uppi fullvalda ríki.

Rök Siberts voru margvísleg. Óvíst væri, að smáríki væru að meðaltali auðugri en stærri ríki, eins og oft væri sagt. Smæðin þyrfti ekki að örva hagvöxt. Hins vegar væru smáríki áreiðanlega viðkvæmari fyrir efnahagsáföllum en stærri ríki. Hagsveiflur væru þar iðulega krappari, eins og dæmi Íslands sýndi. Smæðin væri líka kostnaðarsöm: Fastur kostnaður af framleiðslu samgæða (eins og löggæslu og hugsanlega skólagöngu) dreifðist á miklu færri; erfiðara væri að leggja á tekjuskatt, sem væri þó hagkvæmari en til dæmis tollar; óveruleg samkeppni væri um framleiðslu gæða, sem ekki væru seld á frjálsum markaði. Enn fremur væru smáríki viðkvæmari en stærri ríki fyrir náttúrlegum áföllum, til dæmis hvirfilbyljum. Loks taldi Sibert, að smáríki ættu líklega ekki völ á nógu mörgu hæfu fólki í stjórnsýslu.

Þessum rökum verður ekki vísað á bug með sálmasöng. Það blasir til dæmis við, hversu berskjölduð íslenska þjóðin hefur verið fyrir náttúrlegum áföllum. „Litla ísöldin“ 1450-1900 þrengdi kosti hennar. Árið 1785 íhuguðu dönsk stjórnvöld jafnvel að flytja alla Íslendinga burt eftir Móðuharðindin, eldgos, jarðskjálfta og hungursneyð. Og vissulega hafa hagsveiflur verið krappar á Íslandi. En eins og Hannes Finnsson benti á í bók sinni, Mannfækkun af hallærum , sem samin var strax eftir Móðuharðindin, hefur þjóðin jafnan verið fljót að rétta úr kútnum. Íslendingar hafa líka lært að bregðast rösklega við efnahagslegum skakkaföllum, og kom það einmitt vel í ljós eftir bankahrunið. Lítil hagkerfi geta verið aðlögunarhæfari en hin stóru. Stærðin kann ekki síður en smæðin að vera kostnaðarsöm, eins og Kína og Indland bera glöggt vitni um. Frelsið skiptir mestu máli, ekki fólksfjöldinn. Frelsið til að selja fisk, orku, mannauð og þjónustu við ferðamenn hefur reynst okkur „líkn í lífsstríði alda“.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is