Vaðlaheiðargöng Göngin lengjast hægt og bítandi. Miklar tafir hafa orðið vegna vatnsleka og hruns á vinnusvæðunum og því þarf að fara varlega.
Vaðlaheiðargöng Göngin lengjast hægt og bítandi. Miklar tafir hafa orðið vegna vatnsleka og hruns á vinnusvæðunum og því þarf að fara varlega. — Ljósmynd/Vaðlaheiðargöng
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Fólk er farið að reikna með að geta alltaf komist á milli staða. Kerfin hafa verið sett þannig upp,“ segir Hjalti Jóhannesson, sérfræðingur hjá Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri.

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Fólk er farið að reikna með að geta alltaf komist á milli staða. Kerfin hafa verið sett þannig upp,“ segir Hjalti Jóhannesson, sérfræðingur hjá Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri. Hann rannsakar samfélagsleg áhrif Vaðlaheiðarganga.

Gefin hefur verið út skýrsla um fyrri hluta rannsóknarinnar, það er að segja stöðuna áður en göngin koma. Til stendur að meta stöðuna að nýju um það bil þremur árum eftir að göngin verða tekin í notkun og athuga breytingar. Hjalti fékk styrk úr Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar til að rannsaka málið.

Rannsóknin nú grundvallast að mestu á viðtölum við íbúa sem mikla reynslu hafa af samgöngum um Víkurskarð á öllum tímum árs vegna starfa sinna eða einkaerinda.

Umferðin eykst stöðugt

Hjalti segir að umferð um Víkurskarð sé stöðugt að aukast og íbúarnir séu farnir að stóla á að geta alltaf komist. Hann nefnir að heilbrigðisþjónustan sé skipulögð þannig að íbúar austan Vaðlaheiðar þurfi sífellt meira að sækja til Akureyrar. Öll mjólkurvinnslan sé á Akureyri og þurfi að aka mjólkinni þangað og neysluvörunni á móti. Öll stórgripaslátrun sé á Akureyri en sauðfjárslátrunin á Húsavík.

„Þá er fólk farið að stunda íþróttir og tómstundastarf yfir Vaðlaheiðina. Farið er með börn frá Húsavík á skíðaæfingar í Hlíðarfjalli. Margir sækja nám þarna á milli,“ segir Hjalti og bendir á að umferðartalningar Vegagerðarinnar sýni að umferðin sé orðin jafnari yfir alla vikuna en áður var. „Fólk er farið að reikna með að alltaf sé hægt að komast og skipuleggur líf sitt út frá því,“ segir Hjalti.

Í viðtölunum komu ýmis dæmi um mikilvægi öruggra samgangna. Sjúkraflutningamenn sem voru að fara með konu á fæðingardeildina á Akureyri þurftu að fara um Dalsmynni þar sem Víkurskarð var ófært. Er þá farið um snjóflóðahættusvæði. Svo illa vildi til að barnið heimtaði að komast í heiminn einmitt á hættusvæðinu. Snjómokstursmaður lenti í því að taka kyrrstæðan bíl með tönninni. Ökumaðurinn hafði fest bílinn og var kominn á kaf í snjó. Bíllinn var í gangi og því kann óhappið að hafa orðið til þess að ekki fór verr fyrir bílstjóranum.

Daglegt líf raskast

Tilgangur Vaðlaheiðarganga er ekki síst að stækka atvinnusvæðið. Hjalti bendir á að viðmælendur í könnuninni telji að líta megi svo á að svæðin beggja vegna Vaðlaheiðar séu nú þegar orðin ein heild í atvinnulegu tilliti og í verslun og þjónustu. Í niðurstöðum rannsóknarinnar kemur fram að þegar samgöngur um Víkurskarð rofna vegna ófærðar raskast ýmislegt í daglegu lífi fólks og störfum. Hjalti nefnir að fljótlega fari að bera á vöruskorti á Húsavík vegna þess að dregið hafi úr birgðahaldi og það farið að taka mið af stöðugum ferðum á milli.

Í samantekt niðurstaðna kemur fram að menn hafa áhyggjur af því að auðveldari sókn í verslun og þjónustu á Akureyri með tilkomu ganganna muni grafa undan sömu þjónustu á Húsavík. Einnig komu fram áhyggjur af því að sérstök samfélagsgerð sveitanna kynni að láta undan síga. Á móti komi að íbúar sveitanna myndu eiga greiða leið að þéttbýlissamfélaginu og gætu nýtt sér fjölbreytni þess.