Við vorum að koma frá Ameríku í fyrrinótt með börnum, barnabörnum og mökum, ellefu manns allt í allt, segir Sigurbjörg Snorradóttir, sem er sextug í dag.
„Við vorum í Kissimmee í Florida að fagna sextugsafmælum okkar Sveins. Ég reikna með að vera með smá boð fyrir vini og vandamenn fyrir sunnan og keyra svo norður á sunnudaginn,“ en Sigurbjörg býr á Krossum á Árskógsströnd í Eyjafirði þar sem hún er fædd og uppalin. Hún er dóttir hjónannan Snorra E. Kristjánssonar og Sigurlaugar Gunnlaugsdóttur.
Sigurbjörg vinnur í dag við umönnun aldraðra á dvalarheimilinu Dalbæ á Dalvík en hefur unnið við eldamennsku og matseld í fjölda ára. Hún er mikill náttúruunnandi og þekkt berjakona og tínir ber víða um land. „Það er alltaf stefnt á að taka berjafrí á hverju hausti. Ég er alveg heltekin af berjum sama hvernig ber það eru, fer víða á Vestfirði og bara hvert sem ber eru að finna. Ég nýti líka ýmislegt fleira úr náttúrunni. Það hefur orðið svo mikil vakning að undanförnu um nýtingu náttúrunnar í matseld, bruggun og fleira.“
Eiginmaður Sigurbjargar er Sveinn Kristinsson, sjómaður á Björgvin EA, Dalvík. Börn þeirra eru Linda Björk, kennari, maki hennar er Kristmann Þór Pálmason og eiga þau fjögur börn; Kristján Eldjárn, maki hans er Leifur Guðni Grétarsson. Einnig áttu þau Sigurbjörg og Sveinn soninn Svein Birki, en hann lést árið 2001.
Sigurbjörg lítur björtum augum til framtíðar og hlakkar til að halda áfram að njóta lífsins í faðmi fjölskyldu og vina.