Tækling Daníel Laxdal, Stjörnunni, tæklar Eyjamanninn Mikkel Maigaard.
Tækling Daníel Laxdal, Stjörnunni, tæklar Eyjamanninn Mikkel Maigaard. — Morgunblaðið/Þórður Arnar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Garðabæ Jóhann Ólafsson johann@mbl.is Eyjamenn hafa væntanlega komið fagnandi til Vestmannaeyja í gærkvöldi eftir 2:0 sigur ÍBV gegn Stjörnunni í 16 liða úrslitum Borgunarbikars karla í knattspyrnu.

Í Garðabæ

Jóhann Ólafsson

johann@mbl.is

Eyjamenn hafa væntanlega komið fagnandi til Vestmannaeyja í gærkvöldi eftir 2:0 sigur ÍBV gegn Stjörnunni í 16 liða úrslitum Borgunarbikars karla í knattspyrnu. ÍBV er þar með komið í 8 liða úrslit bikarkeppninnar og geta Eyjamenn hlakkað til framhaldsins, sérstaklega þar sem liðið sem hefur slegið þá úr leik í bikarnum undanfarin fjögur ár, KR, er úr leik.

Leikurinn var ákaflega fjörlegur í fyrri hálfleik og sóttu liðin á víxl en það var ljóst frá fyrstu mínútu að hvorugt lið ætlaði sér að pakka í vörn og spila upp á framlengingu. Fyrrverandi leikmaður Stjörnunnar, hinn geðþekki Pablo Punyed, skoraði fyrsta mark leiksins með góðu skoti á 17. mínútu. Punyed lék í tvö ár með Stjörnunni og þekkir því hverja „þúfu“ á rennislettum gervigrasvelli Garðbæinga.

Sprækir Eyjamenn

Staðan var 1:0 að loknum fyrri hálfleik og heimamenn hafa eflaust ætlað að mæta dýrvitlausir til leiks í síðari hálfleik. Eitthvað snerust vopnin í höndum þeirra, en Bjarni Gunnarsson skoraði annað mark gestanna eftir fjögurra mínútna leik í síðari hálfleik. Heimamenn virkuðu slegnir eftir markið en blésu til sóknar síðustu 20 mínútur leiks. Stangarskot og dauðafæri litu dagsins ljós en allt kom fyrir ekki og gestirnir fögnuðu gríðarlega þegar Pétur Guðmundsson, ágætur dómari leiksins, flautaði til leiksloka.

Lið ÍBV lítur gríðarlega vel út um þessar mundir. Miðvarðapar liðsins, Hafsteinn Briem og Avni Pepa, er gríðarlega öflugt, miðjumenn liðsins eru flinkir og í framlínunni er Charles Vernam fremstur í flokki síógnandi Eyjapeyja. Bjarni Jóhannsson kann svo sannarlega þá list að skapa stemningu og láta lið spila skemmtilega knattspyrnu. ÍBV er einu stigi frá efsta sæti Pepsi-deildarinnar og komið í 8 liða úrslit bikarkeppninnar þannig að Bjarni og menn hans hljóta að vera ánægðir með uppskeruna hingað til. Stjörnumenn hafa tapað þremur leikjum í röð og verða að bíta í skjaldarrendur til að ná sama flugi og þeir voru á í upphafi móts. Leikmenn liðsins virkuðu áhugalausir á löngum köflum, en það virðist þurfa að kveikja neista í Garðabænum. Af litlum neista verður oft mikið bál.

Stjarnan – ÍBV 0:2

Samsung-völlurinn, Borgunarbikar karla, 16 liða úrslit, fimmtudag 9. júní 2016.

Skilyrði : 14 stiga hiti og skýjað. Gervigrasið slétt og fínt.

Skot : Stjarnan 9 (8) – ÍBV 12 (6).

Horn : Stjarnan 8 – ÍBV 4.

Stjarnan : (4-3-3) Mark : Hörður Fannar Björgvinsson. Vörn : Heiðar Ægisson, Brynjar Gauti Guðjónsson, Grétar S. Sigurðarson, Hörður Árnason. Miðja : Þorri Geir Rúnarsson, Daníel Laxdal (Baldur Sigurðsson 66), Veigar Páll Gunnarsson (Halldór Orri Björnsson 66). Sókn : Ævar Ingi Jóhannesson, Jeppe Hansen, Guðjón Baldvinsson (Hilmar Árni Halldórsson 25).

ÍBV : (4-3-3) Mark : Derby Carrillo. Vörn : Jonathan P. Barden, Hafsteinn Briem, Avni Pepa, Jón Ingason. Miðja : Sindri Snær Magnússon, Pablo Punyed, Mikkel Maigaard (Elvar Ingi Vignisson 90). Sókn : Aron Bjarnason, Charles Vernam (Sigurður G. Benónýsson 76), Bjarni Gunnarsson (Simon Smidt 72).

Dómari : Pétur Guðmundsson.

Áhorfendur : Um 350.