Frakkland Íslenska liðið dvelur í Annecy og hefur aðsetur þar á meðan keppnin stendur yfir. Ari Freyr Skúlason, Gylfi Þór Sigurðsson, Emil Hallfreðsson, Eiður Smári Guðjohnsen og Birkir Bjarnason á æfingu liðsins í gær.
Frakkland Íslenska liðið dvelur í Annecy og hefur aðsetur þar á meðan keppnin stendur yfir. Ari Freyr Skúlason, Gylfi Þór Sigurðsson, Emil Hallfreðsson, Eiður Smári Guðjohnsen og Birkir Bjarnason á æfingu liðsins í gær. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EM 2016 Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is Fimmtánda úrslitakeppni Evrópumóts landsliða í knattspyrnu hefst í kvöld en að þessu sinni er keppnin haldin Frakklandi.

EM 2016

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Fimmtánda úrslitakeppni Evrópumóts landsliða í knattspyrnu hefst í kvöld en að þessu sinni er keppnin haldin Frakklandi. Opnunarleikur mótsins verður viðureign gestgjafanna og Rúmena sem fram fer á Stade de France-leikvanginum í Saint-Denis, í útjaðri Parísar, og síðan rekur hver leikurinn annan þar til kemur að úrslitaleiknum sem fram fer á sama velli hinn 10. júlí.

Keppnin er haldin í skugga ógnar frá hryðjuverkamönnum sem hafa hótað voðaverkum en gríðarleg öryggisgæsla verður í Frakklandi á meðan mótinu stendur þar sem 90.000 manns munu skipa öryggissveitir.

Fótboltafár á „Klakanum“

Eins og hvert mannsbarn á Íslandi ætti að vita eru Íslendingar með í úrslitakeppninni í fyrsta sinn í sögunni og eins og gefur að skilja stefnir í fótboltafár á „Klakanum“. Þúsundir Íslendinga eru komnir eða eru á leið til Frakklands en fyrsti leikur íslenska liðsins verður í Saint-Étienne á þriðjudaginn þegar það mætir Portúgölum. Ísland brýtur blað í sögu keppninnar en aldrei hefur svo fámennri þjóð tekist að komast í úrslitakeppnina.

Fyrsta Evrópumótið var haldið í Frakklandi árið 1960 þar sem Sovétmenn sálugu fóru með sigur af hólmi. Fram til ársins 1980 kepptu aðeins 4 lið til úrslita um Evrópumeistaratitilinn en nú eru þátttökuþjóðirnar 24 talsins og hafa aldrei verið fleiri en frá árinu 1996 þegar keppnin var haldin á Englandi hafa 16 þjóðir tekið þátt í úrslitakeppninni.

Keppt í tíu borgum

Spánverjar eru ríkjandi Evrópumeistarar en þeir hafa hampað Evrópumeistaratitlinum á tveimur síðustu mótum en þeir skráðu nafn sitt í sögubækur úrslitakeppninnar fyrir fjórum árum þegar þeir urðu fyrsta þjóðin til að verja Evrópumeistaratitilinn.

Keppnin fer fram í tíu borgum í Frakklandi, París, Saint-Denis, Boedaux, Lens, Lille, Lyon, Marseille, Nice, Saint-Étienne og Toulouse. Keppt verður í sex fjögurra liða riðlum á mótinu. Tvær efstu þjóðirnar í riðlunum sex tryggja sér farseðilinn í 16 liða úrslitin auk fjögurra liða sem ná bestum árangri í þriðja sæti. Þetta þýðir að aðeins átta lið af 24 ljúka keppni eftir riðlakeppnina. Eitt stig úr riðlakeppninni gæti dugað til að komast í 16 liða úrslitin en þá hefst útsláttarkeppni.

Þýskaland og Spánn líkleg

Þjóðverjar, sem eru ríkjandi heimsmeistarar, og Spánverjar, sem eru Evrópumeistarar, eru taldir líklegastir af sparspekingum til að fara alla leið í ár. Þó svo að Þjóðverjar hafi unnið sinn riðil í undankeppninni þurftu þeir þó að hafa fyrir hlutunum því þeir töpuðu fyrir Pólverjum og Írum og upp á síðkastið hafa þeir ekki þótt allt of sannfærandi en heimsmeistararnir töpuðu vináttuleikjum á móti Englendingum og Frökkum.

Spánverjar, sem voru eins konungar í ríki sínu á árunum 2008 til 2012 þar sem þeir unnu tvo Evrópumeistaratitla og einn heimsmeistaratitil mistókst að komast upp úr riðlinum á HM í Brasilíu fyrir tveimur árum og pressan er því mikil á Vicente del Bosque og leikmenn hans fyrir mótið í ár.

En það ætla sér fleiri lið en Þýskaland og Spánn að gera atlögu að Evrópumeistaratitlinum. Gestgjafar Frakka ætla sér stóra hluti á heimavelli og vilja gjarnan endurtaka leikinn frá árinu 1998 þegar þeir urðu heimsmeistarar á heimavelli. Frakkar hafa oft verið sinn versti óvinur á stórmótum þar sem deilur og óeining hefur verið einkennandi en nú binda Frakkar vonir við að liðið standi saman og ekki síst eftir hræðilegar hryðjuverkaárásir á landið fyrir sjö mánuðum.

Er komið að Englendingum?

Englendinga dreymir um að lyfta Evrópubikarnum í fyrsta sinn og þeir eru margir sem halda því fram að enska liðið hafi sjaldan eða aldrei átt meiri möguleika á fara alla leið. Englendingar undir stjórn hins þrautreynda Roy Hodgsons fengu fullt hús í undankeppninni einir liða og sjálfstraustið er mikið á þeim bænum.

Ítalía, Portúgal, Pólland, Belgía og Tékkland eru með vel mönnuð lið sem hafa burði til að ná langt og svo er spurning hvort við sjáum eitthvert annað Leicester-ævintýri? Margir muna þegar Danir komu, sáu og sigruðu í Svíþjóð árið 1992 eftir að hafa verið kallir inn á síðustu stundu eftir að Júgóslövum var vísað úr keppninni. Og það urðu ekki síður óvænt úrslit í Portúgal árið 2004 þegar Grikkir stóðu uppi sem Evrópumeistarar. Það óvænta gæti gerst í Frakklandi og við Íslendingar vonumst að sjálfsögðu til þess að Aron Einar Gunnarsson lyfti Evrópubikarnum á loft hinn 10. júlí. Líkurnar eru auðvitað hverfandi en það er í lagi að láta sig dreyma. Áfram Ísland og góða skemmtun!