Á skotskónum Jonathan Glenn skoraði fyrra mark Breiðabliks á Akranesi í gær.
Á skotskónum Jonathan Glenn skoraði fyrra mark Breiðabliks á Akranesi í gær. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Akranesi Stefán Stefánsson ste@mbl.

Á Akranesi

Stefán Stefánsson

ste@mbl.is

„Ég fékk gæsahúð og það var geðveik tilfinning að sjá boltann fara í netið, allur pakkinn og ógeðslega gaman en nú er bara að byrja upp á nýtt og halda áfram að vinna, þetta var bara eitt mark,“ sagði hinn 16 ára Ágúst Eðvald Hlynsson, sem skoraði sigurmarkið þegar Breiðablik sló Skagamenn út í 16 liða úrslitum bikarkeppninnar í knattspyrnu eftir framlengdan leik á Akranesi í gærkvöldi. Ágúst verður 17 ára í mars á næsta ári og þetta var þriðji leikur hans í meistaraflokki en ekki fyrsta markið því hann skoraði einnig í fyrri bikarleik Blika í 3:0 sigri á Kríunni.

Leikurinn var sæmilega fjörugur en það sló Skagamenn greinilega út af laginu þegar Jonathan Glenn skoraði eftir fimm mínútna leik þar sem vörn heimamanna sofnaði rækilega á verðinum. Skagamenn bösluðu við að komast inn í leikinn á ný og það gekk en þeir máttu samt hafa sig alla við að hemja sóknarleik Blika, sem var oft á tíðum vel skipulagður og skapaði færi. Einmitt, skapaði færi, því það gekk ekkert að koma boltanum í markið.

Það þurfti síðan fast leikatriði til að ÍA jafnaði þegar tekin var aukaspyrna við miðju og gefið inn í vítateig Blika, þar sem Ármann Smári Björnsson skallaði boltann inn á 60. mínútu. Mæðin virtist ekki há mönnum svo mikið í framlengingunni enda týpískur bikarbaráttuleikur en hinn 16 ára Ágúst Eðvald, sem kom inn á á 76. mínútu, skoraði sigurmarkið eftir þunga sókn.

Lykillinn í spili Kópavogsbúa var Oliver Sigurjónsson, ekki mikil læti í honum enda nýkominn úr meiðslum en það virtist honum ákaflega auðvelt að lesa leikinn, stöðu leikmanna og tækifæri. Í raun lá munurinn á liðunum í því enda opnaði samspil og skipulag Blika oft vörn mótherjanna illilega. Það verður samt ekki af Skagamönnum tekið að þeir börðust, áttu fína spretti með Ármann Smára traustan í vörninni og Garðar Bergmann Gunnlaugsson í sókninni – það vantaði aðeins upp á leikstjórnunina á miðjunni.

ÍA – Breiðablik 1:2

Norðurálsv., Borgunarbikar karla, 16 liða úrslit, fimmtudag 9. júní 2016.

Skilyrði : Austan 2 m/s, 13 stiga hiti og hékk þurrt. Völlur leit vel út.

Skot : ÍA 12 (3) – Breiðablik 19 (12).

Horn : ÍA 5 – Breiðablik 7.

ÍA : (4-4-2) Mark : Árni Snær Ólafsson. Vörn : Hallur Flosason, Ármann S. Björnsson, Arnór S. Guðmundsson, Aron Ingi Kristinsson. Miðja : Steinar Þorsteinsson (Eggert Kári Karlsson 75), Iain Williamson, Arnór Sigurðsson (Albert Hafsteinsson 108), Jón V. Ákason (Ásgeir Marteinsson 33). Sókn : Tryggvi H. Haraldsson, Garðar B. Gunnlaugsson.

Breiðablik : (4-3-3) Mark : Gunnleifur Gunnleifsson. Vörn : Arnór S. Aðalsteinsson, Elfar F. Helgason, Damir Muminovic, Davíð K. Ólafsson. Miðja : Andri R. Yeoman (Ágúst E. Hlynsson 76), Oliver Sigurjónsson, Arnþór A. Atlason. Sókn : Atli Sigurjónsson (Ellert Hreinsson 22), Jonathan Glenn (Guðmundur A. Steinþórsson 69), Daniel Bamberg.

Dómari : Erlendur Eiríksson.

Áhorfendur : 580.