[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Vilhjálmur A. Kjartansson vilhjalmur@mbl.is Alls sóttu 26.985 Íslendingar um miða á EM í Frakklandi í sumar, en það nemur 8,15% af íslensku þjóðinni.

Baksvið

Vilhjálmur A. Kjartansson

vilhjalmur@mbl.is

Alls sóttu 26.985 Íslendingar um miða á EM í Frakklandi í sumar, en það nemur 8,15% af íslensku þjóðinni. Björn Berg Gunnarsson, fræðslustjóri VÍB, segir að samkvæmt UEFA muni hver og einn stuðningsmaður sem sækir Frakkland heim eyða að meðaltali 93 þúsundum króna. „Við vitum í raun ekkert hverju Íslendingar eiga eftir að eyða á mótinu og það verður líka að hafa í huga að inni í þessari tölu er ekki flug né miðaverð á leiki.“

Hleypur á milljörðum króna

Dr. Sigurður Jóhannesson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, segir ljóst að landsmenn muni eyða einhverjum milljörðum en það hafi ekki nein veruleg áhrif á hagkerfið.

„Íslendingar fara mikið til útlanda í frí og ég hugsa að stór hluti af þessu fólki hefði farið hvort sem er, en auðvitað munar um þetta,“ segir Sigurður en lauslega reiknað segir hann að áætla megi að kostnaður Íslendinga sem fylgja landsliðinu út verði á bilinu fimm til sex milljarðar króna.

„Innflutningur okkar er einhvers staðar á stærðargráðunni þúsund milljarðar og fimm til sex milljarðar í því vega ekki þungt. Að sumu leyti má kannski segja að þetta sé gott, því þetta tekur mesta hitann af hagkerfinu þegar ferðamannastraumurinn er mestur hér á landi. Það þarf þá ekki að sinna þessum tæpu 30 þúsund Íslendingum sem fara á Evrópumeistaramótið.“

Í viðtali hjá BBC

Björn Berg verður í viðtali í fréttaskýringarþættinum Outside Source sem sýndur verður í beinni útsendingu frá Frakklandi af BBC News. Björn hefur verið fenginn sem sérfræðingur í fjármálum og viðskiptum tengdum Evrópumeistaramótinu í knattspyrnu og fjallar m.a um áhrif mótsins á franskan efnahag.

„Verið er að velta því fyrir sér hvort Frakklandi komi fjárhagslega vel út úr mótinu eða ekki. Þá verður rætt um það hverjir greiða fyrir mótið að mestu og hverjir fái tekjurnar,“ segir Björn. Á fræðslufundi á vegum VÍB í gær var þessum spurningum m.a. velt upp en upptöku af fundinum og eldri fræðslufundum um fjármál í fótboltanum má finna á vib.is/fotbolti

Verkföll og hryðjuverkaógn

Ýmsir óvissuþættir eru í kringum stórmót á borð við EM og bendir Björn t.d. á fjárfestingar í innviðum sem oft er talið að hafi góð efnahagsleg áhrif.

„Það spilar margt inn í vangaveltur um efnahagsáhrif. Því miður hafa t.d. tíð verkföll og núna hryðjuverkaógn orðið til þess að mikið er um afbókanir ferðamanna til Frakklands, þó EM tempri það kannski um tíma.“

Peningarnir á EM
» Tæplega 27 þúsund Íslendingar sóttust eftir miða á EM eða yfir 8% þjóðarinnar.
» Kostnaður Íslendinga sem fylgja landsliðinu nemur allt að sex milljörðum króna.
» UEFA telur meðaleyðslu hvers stuðningsmanns vera 93 þúsund krónur en það er utan miðaverðs og flugs.
» Björn Berg Gunnarsson fræðslustjóri VÍB mun ræða efnahagsleg áhrif EM á BBC.