Viðar Guðjohnsen
Viðar Guðjohnsen
Eftir Viðar Guðjohnsen: "Einn er þó öðrum fremri. Sá er fæddur leiðtogi, leiðtogi af Guðs náð."

Laugardaginn þann 25. júní göngum við til kosninga. Þessar kosningar eru merkilegar í marga staði. Í kosningunum kjósum við leiðtoga, leiðtoga hinnar íslensku þjóðar.

Vanda þarf valið og greina þarf það sem skiptir máli frá því sem skiptir minna máli.

Það er margt sem bendir til að við Íslendingar munum upplifa mikið góðæri á komandi árum. Á slíkum tímum er ekki síður nauðsynlegt að í forsetastólinn setjist maður sem þekkir sögu landsins vel, þekkir uppruna þjóðarinnar, ber virðingu fyrir landi, fullveldi og þjóð. Sameinar sveitir og borg. Færir hið gamla nær því nýja. Kætir en jafnframt fræðir. Hefur reynslu og gagnrýna hugsun. Þessir eiginleikar eru ekki öllum gefnir.

Landið okkar, Ísland. Okkar farsælda frón. Með okkar dimmu vetrarnætur og hinn langa vetur.

Með fátt annað í náttúrunni en klaka, eld og fisk; hefur þessari harðgerðu og fámennu þjóð þó tekist að komast á fremsta stall meðal þjóða. Slíkt er ekki sjálfgefið.

Fullveldið, okkar hjartfólgna fullveldi, sem við börðumst svo lengi fyrir er brothætt. Það þarf að fara vel með það, virða og verja. Þótt sú ríka skylda hvíli á herðum allra landsmanna þarf sá sem leiðir þjóðina að að sýna algjört fordæmi í þeim málum. Aldrei má það gerast að leiðtogi þjóðarinnar sé undirgefinn öðrum þjóðum, hvort sem í meðvirkni eða með öðrum hætti.

Menning okkar er einnig brothætt. Með okkar fámennu þjóð er ekki síður mikilvægt að gætt sé að. Að sýnd sé varfærni og að við lærum af reynslu þjóðanna í kringum okkur. Við horfum öll agndofa upp á breytingarnar í löndunum í kringum okkur og þann menningarlega óstöðugleika sem nú fer yfir hin frjálslyndu lönd Evrópu. Jafnvel hið frjálslynda Frakkland býr nú við hundruð „týndra hverfa“ þar sem allt önnur menning og hefðir ríkja en við höfum vanist og viljum.

Það hriktir í stoðum Evrópu, það sjá allir sem vilja og þora að sjá. Löndin við botn Miðjarðarhafs eru að hruni komin. Mikligarður hefur tekið á sig nýja ásýnd harðræðis og minna kröfur og stjórnarhættir þaðan margt á það sem einkenndi Evrópu á fjórða áratug síðustu aldar. Stríð brjótast út hratt og þá reynir á grunngildi þjóðarleiðtoga.

Sveitir landsins eru okkur ekki síður mikilvægar. Þar fer matvælaframleiðslan fram. Án matvæla þrífst ekkert líf. Því miður virðist oft sem að einhverjir reyni eftir bestu getu að tvístra landinu, að etja sveitum gegn borg. Marðarhættir einkenna oft það atferli. Þó er það nú þannig að það væri engin höfuðborg án sveita og engin þjóð án höfuðborgar. Landshöfðinginn þarf að hafa þetta í huga. Það þurfa einnig allir landsmenn að gera.

Margir góðir frambjóðendur eru í framboði þetta árið. Einn er þó öðrum fremri. Sá er fæddur leiðtogi, leiðtogi af Guðs náð. Þeim manni tókst að sameina höfuðborgarbúa og færa höfuðborgina til þeirrar virðingarstöðu sem hún á skilið. Þeim manni tókst að halda ríkisstjórnarsamstarfi saman lengst allra forsætisráðherra. Sá maður var sá allra fyrsti til að gagnrýna framgöngu bankamanna, þá árið 2003, þegar hann tók út sparifé sitt til að mótmæla. Í Seðlabankanum átti hann sinn þátt í að smíða varnarvopnin sem notuð voru þegar efnahagskreppan nam hér land. Sem ritstjóri Morgunblaðsins hefur hann viðhaft þá gagnrýnu hugsun sem allir ættu að temja sér. Í deilu Íslendinga við Breta og Hollendinga stóð hann sig með prýði.

Margt bendir til að hefði Davíð Oddsson verið landshöfðingi á þeim erfiðu tímum hefði ástandið orðið betra og samstaðan ekki aðeins meðal þjóðar heldur einnig í stólum Alþingis. Á þeim tímum, þegar við þjóðfélagsþegnar þurftum styrk stjórnmálanna sem mest, var sundrungin á Alþingi algjör. Allt var gert til að tala niður þjóðina. Allt var gert til að sundra. Þar brugðust stjórnmálamennirnir, þar brugðust fjölmiðlar og þar brugðust álitsgjafar. Menn sögðu jafnvel að ef við myndum ekki lúffa undan kröfum Breta og Hollendinga myndi ástandið hér verða svipað og í Norður-Kóreu. Þetta var sagt, eins heimskulega og það hljómar. Því miður af þeim forsetaframbjóðanda sem hefur hvað mest fylgi þegar þessi orð eru rituð.

Þrátt fyrir þessar staðreyndir hefur öllu verið snúið á haus, sagan verið skrumskæld og upp hafa risið menn sem gera út á dýpstu og verstu hvatir mannskepnunnar; hatur, öfund og reiði. Sumir hverjir vegna hagsmuna, aðrir vegna meðvirkni.

Það skiptir því öllu að við, sem styðjum Davíð Oddsson til forseta Íslands, leggjum okkur alla fram. Að við fylgjum okkar sannfæringu og þeim boðskap sem okkar fyrsti ráðherra orti svo fallega um í ástarjátningu sinni til Íslands. Þeirri heitstrengingu sem Davíð Oddsson hefur í alla tíð fylgt.

Ef verð ég að manni, og veiti það sá,

sem vald hefur tíða og þjóða,

að eitthvað ég megni, sem lið má þér ljá,

þótt lítið ég hafi að bjóða,

þá legg ég, að föngum, mitt líf við þitt mál,

hvern ljóðstaf, hvern blóðdropa, hjarta og sál.

(Hannes Hafstein)

Höfundur er lyfjafræðingur.