Bogi Þór Arason
bogi@mbl.is
Sir John Major og Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherrar Bretlands, vöruðu í gær við því að úrsögn landsins úr Evrópusambandinu, Brexit, myndi „ógna einingu Bretlands“ og grafa undan friði á Norður-Írlandi.
Sir John og Blair heimsóttu Norður-Írland tveimur vikum fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Bretlands að ESB og sögðu að eining landsins væri í veði í þjóðaratkvæðinu. Sir John sagði að „alvarleg hætta“ væri á nýrri þjóðaratkvæðagreiðslu í Skotlandi um sjálfstæði frá Bretlandi og hann taldi líklegt að skoskir aðskilnaðarsinnar færu þá með sigur af hólmi ef Bretar gengju úr ESB en meirihluti Skota væri hlynntur aðild að sambandinu.
Sir John var forsætisráðherra stjórnar Íhaldsflokksins á árunum 1990 til 1997 en Blair fór fyrir stjórn Verkamannaflokksins 1997 til 2007. Þeir gegndu mikilvægu hlutverki í viðræðum sem leiddu til friðarsamnings á Norður-Írlandi árið 1998.
Forsætisráðherrarnir fyrrverandi sögðu í heimsókninni í gær að úrsögn Bretlands úr ESB myndi stefna hagsæld og „framtíð Norður-Írlands“ í hættu með því að grafa undan friðinum. Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, hélt því sama fram í grein sem birt var í tímaritinu New Statesman .