Skallaeinvígi Valsmenn eru komnir áfram eftir dramatík í Víkinni.
Skallaeinvígi Valsmenn eru komnir áfram eftir dramatík í Víkinni. — Morgunblaðið/Þórður
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Víkinni Kristján Jónsson kris@mbl.is Danski framherjinn Nikolaj Hansen hjá Val er ekki bara hávaxnari en gengur og gerist í íslenska fótboltanum. Hann kann að nýta sér það til að skapa usla í vörn andstæðinganna.

Í Víkinni

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Danski framherjinn Nikolaj Hansen hjá Val er ekki bara hávaxnari en gengur og gerist í íslenska fótboltanum. Hann kann að nýta sér það til að skapa usla í vörn andstæðinganna. Hansen skoraði tvö skallamörk, bæði eftir hornspyrnur Guðjóns Péturs Lýðssonar, þegar bikarmeistarar Vals slógu Víkinga út úr 16 liða úrslitum bikarkeppninnar í fótbolta í gærkvöldi. Síðara mark Hansens var sigurmarkið og kom á elleftu stundu, á síðustu mínútu framlengingar.

Í báðum tilfellum reyndu Víkingar að þjarma að Hansen og voru nálægt honum en það dugði ekki til. Þeir réðu einfaldlega ekki við hann í loftinu. Hansen á vafalítið eftir að vera stórhættulegur í teignum í sumar, sérstaklega þegar Valur fær horn- og aukaspyrnur. Ekki er ónýtt að vera hávaxinn og góður skallamaður þegar þú hefur Guðjón og Sigurð Egil Lárusson til að taka spyrnurnar. Þess má geta að Hansen og Guðjón komu báðir inn á sem varamenn að loknum fyrri hálfleik venjulegs leiktíma og getur Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, verið ánægður með þær breytingar sem hann gerði á þeim tímapunkti.

Eftir korter benti nefnilega ekkert til annars en að Víkingar myndu vinna leikinn og fara áfram. Þeir voru miklu ferskari til að byrja með og skoruðu tvívegis á fyrsta korterinu. Annað markið sem Vladimir Tufegdzic gerði var mjög laglegt, en hann þrumaði boltanum upp í þaknetið eftir glæsilega hælspyrnu Axels Freys Hilmarssonar. Viktor Jónsson skoraði fyrsta markið eftir stungusendingu frá Bjarna Páli Runólfssyni, sem fékk tækifæri í byrjunarliðinu.

Í stöðunni 2:1 lét Daninn Martin Svensson hjá Víkingi reka sig út af eftir 58. mínútna leik. Ekki er hægt að orða það neitt öðruvísi. Fyrst braut hann af sér með áberandi hætti og sparkaði boltanum frá brotstað í kjölfarið. Náði sér þar í gult spjald. Gekk frá brotstaðnum og danglaði í Valsmann og fékk þá rauða spjaldið. Sorgleg framkoma og þá sérstaklega gagnvart samherjunum, sem þurftu að reyna að halda sér inni í bikarkeppninni tíu á móti ellefu.

Einungis mínútu síðar skoraði Kristinn Freyr Sigurðsson fallegt mark fyrir Val og jafnaði, 2:2. Algert kjaftshögg fyrir Víkinga, sem voru líklega enn að átta sig á agaleysi samherja síns. Á lokamínútum framlengingar kom í ljós að Valsmenn áttu meiri orku eftir, enda manni fleiri í liðlega klukkutíma.

Víkingur R. – Valur 2:3

Víkingsvöllur, Borgunarbikar karla, 16 liða úrslit, fimmtudag 9. júní 2016.

Skilyrði : Skýjað, andvari, 14 stiga hiti í upphafi leiks. Völlurinn ágætur.

Skot : Víkingur 10 (4) – Valur 14 (7).

Horn : Víkingur 4 – Valur 12.

Víkingur R.: (4-3-3) Mark : Róbert Örn Óskarsson. Vörn: Dofri Snorrason, Igor Taskovic, Tómas Guðmundsson, Ívar Örn Jónsson. Miðja : Bjarni Páll Runólfsson (Davíð Örn Atlason 62), Martin Svensson, Alex Freyr Hilmarsson (Stefán Þór Pálsson 99). Sókn : Vladimir Tufegdzic, Viktor Jónsson (Óttar Magnús Karlsson 82), Gary Martin.

Valur : (4-3-3) Mark : Anton Ari Einarsson. Vörn : Andri Fannar Stefánsson, Orri Sigurður Ómarsson, Rasmus Christiansen, Bjarni Ólafur Eiríksson. Miðja : Haukur Páll Sigurðsson (Einar Karl Ingvarsson 84), Sindri Björnsson (Guðjón Pétur Lýðsson 47). Sókn : Sigurður Egill Lárusson, Björgvin Stefánsson (Nikolaj Hansen 47), Kristinn Freyr Sigurðsson.

Dómari : Guðmundur Ársæll Guðmundsson.

Áhorfendur : Um 500.