[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Kristján H. Johannessen khj@mbl.

Fréttaskýring

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Mál komast á allt annað stig þegar lög eru sett á kjaradeilur og því er slík aðgerð aldrei af hinu góða,“ segir Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari við Morgunblaðið og vísar í máli sínu til þess að stjórnvöld hafa nú ákveðið að grípa inn í kjaradeilu Félags íslenskra flugumferðarstjóra (FÍF) við Samtök atvinnulífsins, fyrir hönd Isavia.

Með þeim lögum sem stjórnvöld settu á aðgerðir flugumferðarstjóra er þeim gert að hætta aðgerðum sínum þegar í stað, en FÍF setti á yfirvinnubann 6. apríl sl. og þjálfunarbann mánuði síðar, eða 6.maí. Takist ekki að undirrita nýjan kjarasamning fyrir 24. júní nk. mun innanríkisráðherra skipa þrjá aðila í gerðardóm sem ákveður kaup og kjör félagsmanna FÍF.

„Málinu var vísað hingað í febrúar og síðan þá höfum við fundað 11 sinnum. Staðan er því nokkuð ljós á milli aðila, en nú er spurning hvort þetta nýja útspil hafi einhver áhrif og þá hvort þessi deila þokist eitthvað áfram,“ segir Bryndís, en að sögn hennar hefur verið boðað til nýs fundar og munu samninganefndir hittast klukkan hálfníu í dag.

„Það er auðvitað komin ákveðin pressa og við þurfum að sjá hvort við náum að hreyfa við þessari stöðu. Vonandi náum við því, það er alltaf best þegar deiluaðilar ná að semja.“

Enn eitt höfrungahlaupið

FÍF lýsti að loknum félagsfundi yfir „miklum vonbrigðum“ með ákvörðun stjórnvalda. „Með fyrirmælum Alþingis er gerðardómi gert að úrskurða í takt við kjarasamninga undanfarinna missera. Um leið er honum fyrirskipað að horfa framhjá þeirri grundvallarkröfu flugumferðarstjóra að tekið sé tillit til þess hve mjög þeir hafa dregist aftur úr öðrum hópum launafólks á því fimm ára tímabili sem samið var til árið 2011,“ segir í tilkynningu frá FÍF.

„Maður hefur svo sem séð þetta áður. Þeir eru að koma úr 5 ára kjarasamningi og þá virðist þetta vera þannig að ef menn gera langan kjarasamning þá dragast þeir aftur úr í launum og ná ekki að leiðrétta það,“ segir Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent í viðskiptafræði við Háskóla Íslands og sérfræðingur í vinnumarkaðsfræðum.

Gylfi Dalmann bendir á að eitt helsta markmið Salek-samkomulagsins sé að draga úr eins konar höfrungahlaupi í launahækkunum.

„En það virðist hins vegar vera þannig að geri menn langa kjarasamninga þá lenda þeir í höfrungahlaupi,“ segir hann og vísar þá meðal annars til kjaradeilna ljósmæðra árið 2008 og lækna árið 2014.

Yfirvinnubann er verkfall

Flugumferðarstjórar hafa vakið athygli á því að u.þ.b. fimmta hver klukkustund hafi vegna manneklu í stéttinni verið unnin í yfirvinnu. FÍF ítrekar að þrátt fyrir lagasetninguna sé hverjum og einum flugumferðarstjóra í sjálfsvald sett hvort hann vinni yfirvinnu. „Flugumferðarstjórar hafa ekki verið í verkfalli heldur yfirvinnubanni sem [...] eru mildari en nauðsynlegar aðgerðir,“ segir í áðurnefndri tilkynningu FÍF.

Aðspurður segir Gylfi Dalmann hins vegar yfirvinnubann vera dæmi um verkfallsaðgerð.

„Það er niðurstaða félagsdóms og viðurkennt af íslenskum vinnurétti að yfirvinnubann er hluti af vinnustöðvun,“ segir hann.

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir náðist ekki í Sigurjón Jónasson, formann Félags íslenskra flugumferðarstjóra, vegna málsins.

Flug lá niðri í Reykjavík

Engin flugleiðsöguþjónusta átti að vera í flugturninum á Reykjavíkurflugvelli milli klukkan 21 í gærkvöldi og 7 í morgun.

Kom þetta fram í tilkynningu sem Isavia sendi fjölmiðlum í gær, en þar segir meðal annars: „Forföll eru á næturvakt í flugturninum og ekki hefur tekist að fá afleysingu,“ en vegna þessa varð ekkert flug um flugvöllinn í Reykjavík yfir áðurnefnt tímabil. Var notendum Reykjavíkurflugvallar þess í stað bent á að nota Keflavíkurflugvöll.