Leikskólinn Askja útskrifaði í gær þau börn sem yfirgefa nú leikskólann og halda á vit ævintýranna í grunnskólunum. Voru börnin glöð og spennt yfir að takast á við nýjar áskoranir. Dóra Margrét Bjarnadóttir, skólastjóri Öskju, segir að dagurinn hafi verið dásamlegur, veðrið hafi leikið við börn og foreldra og kennarar kvatt útskriftarnemendur með sorg í hjarta. „Við gerum svolítið úr þessum áfanga því að þetta er stórt skref,“ segir Dóra.
Hvert barn fékk meðal annars stein og birkihríslu auk umsagnar og veglegs faðmlags frá kennurum í kveðjugjöf. „Steininn fær hvert og eitt barn sem það skreytir með fallegum hugsunum,“ segir Dóra, ánægð með útskriftina.