Stefanía Ágústsdóttir fæddist að Ásum í Gnúpverjahreppi 12. nóvember 1924. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi 21. maí 2016.Hún var dóttir hjónanna Kristínar Stefánsdóttur frá Ásólfsstöðum og Ágústs Sveinssonar, sem fluttist ungur með foreldrum sínum frá Syðra-Langholti að Ásum. Stefanía var yngst þriggja systkina; eldri voru Þorvaldur fæddur 1919 og Sveinn fæddur 1923. Fóstursystir hennar var Guðbjörg Einarsdóttir fædd 1921. Þau eru öll látin.Stefanía var glaðsinna og félagslynd, og lét til sín taka í leik og starfi. Hún var í hópi fyrstu kvenna til að taka ökupróf í Árnessýslu. Ung gekk hún í Húsmæðraskóla Reykjavíkur og mat þá dvöl mikils. Hún var um árabil í stjórn Kvenfélags Gnúpverja, sem henni þótti alla tíð vænt um, og lagði margvíslegum líknarmálum lið. Hún þótti eftirminnileg leikkona á yngri árum, raddfögur, sköruleg og einbeitt.Hinn 24. maí 1947 giftist hún Guðmundi Ámundasyni frá Sandlæk, f. 17. september 1913, d. 23. janúar 2004. Þau eignuðust fjögur börn:

1) Ágúst, f. 30. apríl 1948. Kona hans er Vaka Haraldsdóttir f. 29. ágúst 1952. Þau eiga tvo syni, Stefán Má  og Harald.

2) Halla, f. 27. febrúar 1951. Maður hennar er Viðar Gunngeirsson f. 27. september 1949. Þau eiga Hauk Vatnar, Álfheiði og Guðmund Val.

3) Stefán, f. 21. maí 1956. Kona hans er Katrín Sigurðardóttir f. 1. september 1957. Þeirra börn eru Halla Steinunn, Hrafn, Sigurður Hallmar, Viðar, Guðmundur og Birgir.

4) Kristín, f. 10. maí 1961. Dóttir hennar og Sigmundar G. Sigurjónssonar er Ingunn Ásta. Sonur hennar og Valdimars Ó. Jónassonar er Jónas Ingi.Stefanía og Guðmundur bjuggu allan sinn búskap að Ásum í Gnúpverjahreppi. Þau eiga blómlegan hóp afkomenda sem nú sakna vinar í stað. Stefanía var eftirminnileg söngkona, og átti farsælan feril í mörgum kórum á langri ævi, einnig sem einsöngvari. Þau hjónin sungu í Söngfélagi Stóra-Núpskirkju í meira en hálfa öld.Útför Stefaníu fer fram frá Stóra-Núpskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Skyldi bíllinn hafa það upp bröttu brekkuna í þetta sinn? hugsa ég með mér þegar ég tek hægri beygjuna upp afleggjarann að Ásum á leið í heimsókn til ömmu. Já, auðvitað, ég gef bara duglega í! Uppi á hæðinni hægi ég ferðina, nálgast hlaðið rólega, virði fyrir mér fallega bæjarstæðið og hugsa með mér hvað það er alltaf gott að koma til ömmu og afa. Í huga mér nefni ég afa alltaf líka því afi, amma og Ásar í Gnúpverjahreppi eru mér órjúfanleg heild, þó afi hafi látist árið 2004. Ég finn fyrir stolti þegar ég nálgast bæinn, sama stolti og ég finn í brjóstinu þegar ég segi frá því að ég sé barnabarn sómafólksins Stefaníu og Guðmundar í Ásum. En það kemur ekki til af engu því amma og afi voru góð fyrirmynd um svo margt, til dæmis myndugleika í heimilishaldi, hagsæld í búrekstri, verksviti hvers konar, nýbreytni í tækjakosti, nægjusemi og vinnusiðferði. Þau sýndu öllum, mönnum og dýrum, virðingu og skilning og ræddu mikilvægi þess að tala góða íslensku, svo fátt eitt sé nefnt. Þau voru afskaplega góðir kennarar og hafa verið mínar fyrirmyndir í kennarastarfinu og í uppeldi barna minna.
Amma og afi voru líka fyrirmyndarhjón með gott skipulag og jafnvægi á hlutunum, stundum ólík en alltaf samstíga og saman í liði. Þau hófu hvern dag alla tíð með að minnsta kosti tíu kossum í röð og kærleiksríku faðmlagi í miðju eldhúsinu. Því næst tóku þau lýsið sitt standandi saman við eldhúsvaskinn til að viðhalda sjóninni og almennu heilbrigði. Þar á eftir drukku þau morgunkaffið og ræddu verkefni dagsins. Allt í réttri röð, alltaf eins, alla morgna. Eftir langan vinnudag fóru þau sátt saman í háttinn, hann með þykku sængina og háa koddann og hún þá þunnu og svæfilinn. Allt vill lagið hafa.
Friðsældin færist yfir mig þegar ég drep á bílnum, amstur dagsins líður úr mér og núvitundin tekur við. Hurðin opnast og út á tröppurnar kemur amma brosandi og veifar með annarri hendi, með faðminn opinn fyrir litla barnið sitt og býður mig velkomna. Við föðmumst innilega og göngum svo saman inn.
Hlýjan á milli okkar var til staðar frá fyrstu stundu, ég var alltaf svo innilega velkomin. Ég bjó í Ásum fyrsta æviárið og dvaldi oft og mikið hjá ömmu og afa, að fermingu og fram á fullorðinsár. Þannig voru amma og afi mér sem aðrir foreldrar og virkir uppalendur mínir. Þau höfðu mikil áhrif á lífssýn mína og gildi. Þau voru öruggt skjól í lífsins ólgusjó, studdu mig með ráðum og dáð fram til síðasta dags. Það er ómetanlegt fyrir börn að alast upp við svo jákvæða speglun á sig sjálf eins og ég naut hjá afa og ömmu. Að njóta uppeldis og handleiðslu þeirra beggja var gæfan í lífi mínu.
Við amma héldum miklu og góðu sambandi alla tíð og fyrir það er ég afskaplega þakklát. Amma hló hátt og innilega með mér, þerraði tár, gaf mér mola ef ég grét undan eldri hersingunni og sagði þeim stóru að vera góð við þá yngstu. Hún var spaugari, ég settist til dæmis síðast í fangið á henni eins og barn fyrir um það bil fimm árum þar sem hún sat í stólnum sínum í eldhúsinu og við hlógum dátt að uppátækinu. Litla barnið í fanginu á ömmu. Amma trúði á hið góða í fólki og það hefur oft fleytt mér langt í samskiptum. Trúna á sjálfa mig hlaut ég í veganesti í Ásum.
Fyrir helgarheimsókn til ömmu var líka allt eins og vanalega, nú sem áður fyrr. Ég sagði henni að ég vildi koma í heimsókn, hún spurði hvað mig langaði að hafa í matinn og ég sagði henni það. Hún eldaði allt sem mig langaði í og hafði kökur á borðum þess á milli. Pottana mátti ég samt helst ekki snerta, jafnvel komin yfir þrítugt, ég gæti brennt mig! Þannig sat ég á mínum stað við borðið og borðaði og hún var á sínum stað og eldaði, bakaði og skenkti. Svo kom ég tveimur kílóum þyngri og úthvíld heim eftir dvölina hjá henni! Alltaf eins, allt í sömu röð, í hverri heimsókn. Fyrirsjáanleikinn og reglufestan hentaði okkur báðum vel, við vissum alltaf hvar við höfðum hvor aðra.
Amma var harðdugleg kona, mögnuð húsfreyja og gestrisin með eindæmum, var einlæg, ljúf og góð, en með skýr mörk. Maður vissi alltaf til hvers var ætlast en það var aldrei sagt með þjósti. Þannig gekk allt vel fyrir sig á oft á tíðum mjög stóru heimili. Stuttu eftir að ég eignaðist frumburðinn hringdi ég einu sinni sem oftar í ömmu. Í miðju samtali nefndi ég mun á þvottamagni fyrir og eftir að barnið kom í heiminn, bar mig illa. Það varð löng þögn hinum megin á línunni. Ég beið, vissi hvað koma skyldi. Amma sagði mér þá söguna af því þegar hún var að ala upp börn, bæði sín eigin og annarra, ásamt því að sjá um gamalmenni og stórbýli í fullum rekstri. Án þess að hafa þvottavél. Skemmst er frá því að segja að ég kvartaði ekki aftur undan miklum þvottum og þungu heimilishaldi við hana, verandi með öll nútímaþægindi innan seilingar. Í frásögninni fólust engar skammir eða skömm, heldur kenndi amma mér að vera þakklát fyrir það sem ég hafði og bjartsýn, með heilbrigt barn, gott heimili og traustan mann mér við hlið. Henni var annt um að ég væri góð húsfreyja og spurði mig oft hvað ég ætlaði að hafa í matinn fyrir Jónsa, sem hún kallaði alltaf Jón, hann ynni svo mikið, og hvort ég væri ekki örugglega góð við hann! Ég heyrði hana brosa hinum megin á línunni þegar ég lýsti matseðli dagsins og viðurgjörningi mínum við hann þann daginn. Þetta gladdi hana einlæglega og það gladdi aftur mig. Umhyggju sína fyrir mér yfirfærði hún á börnin mín þrjú og Jónsa þegar þau komu til sögunnar.
Þar sem ég stóð á tröppunum og var að þakka ömmu fyrir góða helgi, búin að kveðja annað heimilisfólk, horfði ég í augu ömmu. Hún hélt um hendur mínar með báðum höndum, horfði upp til mín og þakkaði mér fyrir komuna, bað mig fyrir kveðjur til Jóns. Ég heyrði orðin en það sem ég sá í augum hennar skipti meira máli. Það var gleðin, ástin og lífið, reynslan, þrautirnar, þakklætið, móðurástin. Hún sýndi alltaf í verki hvað henni þótti óskaplega vænt um mig.
Það síðasta sem við amma sögðum hvor við aðra nú fyrir skömmu voru hlý orð, hrós og þakklætisvottur, venju samkvæmt, líkt og alla tíð og tíma. Í dag fylgi ég henni síðasta spölinn heim með stolt og þakklæti í hjarta, reyni að vera hnarreist eins og hún á tröppunum forðum þegar hún horfði á eftir mér renna úr hlaði. Ég brosi og veifa til hennar, bið hana fyrir kærar kveðjur til elsku afa og allra þeirra sem taka á móti henni hinum megin. Það verður heldur betur góðra vina fundur! Þangað til við hittumst á ný elsku amma mín.
Stýr minni hönd að gjöra gott,
að gleði´ég öðrum veiti,
svo breytni mín þess beri vott,
að barn þitt gott ég heiti.
(Valdimar Briem)

Ingunn Ásta Sigmundsdóttir.