16. júní 1988 | Innlendar fréttir | 466 orð

Kaffibaunamálið í Hæstarétti: Tveir sýknaðir, en þrír dæmdir

Kaffibaunamálið í Hæstarétti: Tveir sýknaðir, en þrír dæmdir DÓMUR í kaffibaunamálinu var kveðinn upp í Hæstarétti í gær. Erlendur Einarsson, fyrrverandi forstjóri SÍS, var sýknaður að fullu, svo og Arnór Valgeirsson, deildarstjóri fóðurvörudeildar.

Kaffibaunamálið í Hæstarétti: Tveir sýknaðir, en þrír dæmdir

DÓMUR í kaffibaunamálinu var kveðinn upp í Hæstarétti í gær. Erlendur Einarsson, fyrrverandi forstjóri SÍS, var sýknaður að fullu, svo og Arnór Valgeirsson, deildarstjóri fóðurvörudeildar. Hæstirétturstaðfesti ákvæði héraðsdóms um að Hjalti Pálsson, fyrrum forstöðumaður innflutningsdeildar SÍS, skuli sæta fangelsi í 12 mánuði, Sigurður Árni Sigurðsson, fyrrum deildarstjóri fóðurvörudeildar, í 7 mánuði og Gísli Theodórsson, fyrrum forstöðumaður Lundúnaskrifstofu SÍS, í 3 mánuði. Refsing þeirra er hins vegar skilorðsbundin og fellur niður að tveimur árum liðnum, haldi þeir almennt skilorð. Tveirhæstaréttardómarar af fimm skiluðu sératkvæði. Vildu þeir sýkna alla ákærðu, þar sem vafi léki á að um umboðsviðskipti hefði verið að ræða og bæri að túlka þann vafa sakborningum í hag.

Málið fjallar um innflutning SÍS á kaffibaunum fyrir Kaffibrennslu Akureyrar á árunum 1979-1981. Tvöfalt kerfi vörureikninga, mis hárra, var notað. Skrifstofa SÍS í London tók lán fyrir lægri reikningnum og greiddi hann, en innheimti hærri reikninginn hjá Kaffibrennslunni. Mismunurinn rann til Sambandsins og taldi Hæstiréttur sannað að um fjársvik væri að ræða.

Um þátt Erlendar segir Hæstiréttur að ekkert liggi fyrir í gögnum málsins um samráð hans og Hjalta Pálssonar um fjársvik. Ekki liggi fyrir að Erlendur hafi haft vitneskju um málið fyrr en í maí 1981. Eftir það hafi trúnaðarmenn SÍS, kaffibrennslunnar og KEA tekið til starfa og sé ósannað að þeir hafi verið beittir launung um fjárhæð þeirra greiðslna er til SÍS höfðu fallið. Verði að telja að í maí 1981 hafi allri launung verið aflétt og kaffibrennslan vitað eða mátt vita það sem máli skipti í þessum viðskiptum jafnsnemma og Erlendur. Er sýknudómur Sakadóms Reykjavíkur staðfestur að því er hann varðar.

Hæstiréttur féllst á þá niðurstöðu sakadóms að telja yrði sannað að Hjalti Pálsson hafi gerst sekur um fjársvik og þannig brotið gegn 248. grein hegningarlaga. Rétturinn var þó ekki sammála sakadómi varðandi brot á 158. grein hegningarlaga, sem kveður á um ranga tilgreiningu í skjölum og taldi að Hjalta yrði ekki refsað fyrir brot á því ákvæði.

Héraðsdómur var staðfestur að því er varðar brot Sigurðar Árna Sigurðssonar og Gísla Theodórssonar, sem voru fundnir sekir um hlutdeild í brotum gegn 248. grein. Arnór Valgeirsson var hins vegar sýknaður í Hæstarétti og benti rétturinn á, að frá því hann tók við deildarstjóra starfinu í ársbyrjun 1981 hafi yfirmenn hans að mestu stjórnað viðskiptunum og launung vegna hrá kaffikaupa árið 1981 hafi verið aflétt skömmu eftir að hann tók við starfi. Arnór var sá eini hinna ákærðu sem var viðstaddur uppkvaðningu dómsins í gær. Að henni lokinni sagði hann, að sér þætti miður að Hæstiréttur hefði ekki sýknað alla ákærðu, líkt og tveir dómarar hefðu talið rétt að gera og væri greinilegt að málflutningur verjenda fyrir Hæstarétti hefði ekki náð eyrum meirihluta réttarins.

Sjá dóm Hæstaréttar á bls. 30 og 31.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.