Hér hef ég rifjað upp, að fyrir þingkosningarnar í apríl 2009 var laumað frétt um það í Stöð tvö, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði tekið við 30 milljón króna styrk frá FL-Group árið 2006. (Hvaðan skyldi fréttin hafa komið?

Hér hef ég rifjað upp, að fyrir þingkosningarnar í apríl 2009 var laumað frétt um það í Stöð tvö, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði tekið við 30 milljón króna styrk frá FL-Group árið 2006. (Hvaðan skyldi fréttin hafa komið?) Olli þetta uppnámi, og missti flokkurinn eflaust verulegt fylgi fyrir vikið. Af þessu tilefni upplýsti Samfylkingin, að hún hefði árið 2006 alls tekið við 36 milljónum frá fyrirtækjum. Í rannsókn Ríkisendurskoðunar eftir kosningar kom í ljós, að Samfylkingin hafði ekki tekið við 36 milljónum frá fyrirtækjum þetta ár, heldur 102 milljónum. Margrét S. Björnsdóttir, sem skipulagt hefur nám í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, var formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar frá því í mars 2009 fram í febrúar 2013.

Af þessum 102 milljónum króna telst mér til, að 26,5 milljónir hafi komið frá fyrirtækjum Baugsveldisins (8 milljónir frá FL-Group, 5,5 frá Íslandsbanka, 5 frá Baugi, 5 frá Dagsbrún, 1,5 frá Teymi, 0,5 frá Vífilfelli, 0,5 frá Stoðum, 0,3 frá Húsasmiðjunni, 0,2 frá ISP). Fyrirtæki tengd Ólafi Ólafssyni og viðskiptafélögum hans veittu Samfylkingunni að minnsta kosti 20 milljónir í styrki (Kaupþing 11,5 milljónir, Exista 3,5, Ker 3, Samskip 1, Samvinnutryggingar 1). Frá fyrirtækjum tengdum Björgólfsfeðgum virðist Samfylkingin hafa fengið 15,5 milljónir (8,5 milljónir frá Landsbankanum, 5,5 frá Actavis, 1,5 frá Straumi-Burðarási).

Nú tel ég ekkert athugavert við að atvinnufyrirtæki styðji aukið atvinnufrelsi, enda er það þeim í hag ekki síður en öllum almenningi. Sjálfur hef ég iðulega aflað styrkja frá fyrirtækjum í slíka baráttu. En er eðlilegt að yfirlýstur jafnaðarmannaflokkur taki við slíku fé, auk þess sem hann gaf fyrir kosningar rangar upplýsingar um upphæðir? Sumir jafnaðarmenn hafa snúist gegn þessu framferði. „Við eltum áður hagsmuni bankadrengja og útrásargosa,“ sagði Árni Páll Árnason á ársfundi Alþýðusambands Íslands 22. október 2009. Þegar Össur Skarphéðinsson var spurður á Alþingi 14. apríl 2010 hvort jákvæða afstöðu Samfylkingarinnar til Baugsveldisins mætti rekja til tengsla sumra forvígismanna hennar við það, kvað hann það „hugsanlegt“ og bætti við að sér hefði orðið „tíðhugsað um þetta“. Er ekki komið að Margréti S. Björnsdóttur að segja eitthvað líka um málið? Henni er það skyldast.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is