[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nytjamarkaður Körfuknattleiksdeildar Skallagríms í Borgarnesi var stofnaður árið 2009 og hefur aldeilis vaxið ásmegin á síðustu misserum.

Nytjamarkaður Körfuknattleiksdeildar Skallagríms í Borgarnesi var stofnaður árið 2009 og hefur aldeilis vaxið ásmegin á síðustu misserum. Kristín Valgarðsdóttir, einn af umsjónarmönnunum, segir að markaðurinn hafi með árunum orðið að nokkurs konar félagsmiðstöð, því vinsælt sé að hittast þar og spjalla yfir kaffibolla.

Guðrún Vala Elísdóttir

vala@simenntun.is

Kristín Valgarðsdóttir, einn af umsjónarmönnum nytjamarkaðar Körfuknattleiksdeildar Skallagríms í Borgarnesi, segist ekki muna hver átti hugmyndina að markaðnum, en nýkjörin stjórn hafi velt því fyrir sér þarna um árið hvernig mætti haga fjáröflun.

,,Körfuknattleiksdeildin hafði verið með erlendan þjálfara og leikmenn á sínum vegum og átti því til töluvert af húsbúnaði aukalega eftir að þeir fóru. Ákveðið var að selja það dót sem ekki nýttist deildinni og halda bílskúrssölu. Einnig var auglýst eftir munum til að selja og skemmst er frá að segja að undirtektir voru mjög góðar. Fyrsti markaðurinn var síðan í Skallagrímsgarði á Brákarhátíð í júní sumarið 2009 en eftir þann markað var mikið af munum eftir og ákveðið að verða sér úti um húsnæði og halda áfram. Stjórnin leitaði til sveitarfélagsins sem var henni innan handar um húsnæði og síðan þá hefur Nytjamarkaðurinn verið starfræktur í gamla sláturhúsinu í Brákarey.

Allt byggt á sjálfboðavinnu

Frá upphafi hefur Kristín ásamt Helgu Halldórsdóttur, haldið utan um reksturinn með dyggum stuðningi eiginmanna þeirra. ,,Það er síðan fastur kjarni vaskra einstaklinga sem hefur staðið vaktina á markaðnum þessi ár og allt byggist þetta á sjálfboðavinnu, hvort heldur er að sækja dót eða selja, ásamt ýmsu öðru sem til fellur. Yfir sumartímann er alltaf mikið að gera hjá okkur en aðeins minna yfir vetrartímann. Þannig að veltan er mismikil en þó það mikil að þetta munar deildina miklu fjárhagslega og allur ágóði rennur óskiptur til körfuknattleiksdeildarinnar“.

Þessi litla fjáröflunarhugmynd þróaðist þannig frá því að vera sala á nokkrum innanstokksmunum körfunnar, í það að vera söfnun og sala á notuðu dóti sem fólk vildi losa sig við. Áfram treystum við á bæjarbúa og auglýstum eftir dóti til að selja. Facebook síða var stofnuð og ýmsar leiðir nýttar til að vekja athygli á markaðnum. Bæjarbúar voru fljótir að taka við sér og koma með dót og svo er enn í dag. En það er ekki hægt að halda úti svona starfsemi nema með velvilja nærumhverfisins og eiga bæjarbúar og aðrir sem hlut eiga að máli þakkir skilið fyrir hversu vel þeir hafa stutt við bakið á Nytjamarkaðnum, bæði með því að koma og kaupa og ekki síður með því að gefa hluti til að selja“.

Kristín segir að flestar vörurnar komi frá bæjarbúum en einnig séu sumarhúsaeigendur duglegir að koma með dót og jafnvel fastakúnnar úr öðrum sveitarfélögum með eitthvað með sér þegar þeir kíki við. Á Nytjamarkaðnum má finna allskyns hluti; leikföng, bækur, búsáhöld, rafmagnsvörur, skrautmuni, húsgögn, vínilplötur, dekk, reiðhjól og fleira. Stöðugt bætast við munir, alltaf eitthvað nýtt og gamalt að skoða og segir Kristín í raun ótrúlegt hvað komi mikið.

„Almennt er fólk afar þakklátt fyrir að losna við dótið og að það skuli koma einhverjum að gagni. Best er að koma á afgreiðslutíma til okkar með dótið en einnig erum við með nytjagám á gámastöðinni sem hægt er að setja dót í.“

Kristín telur að með árunum hafi þróast tilfinning fyrir því hvað hægt sé að selja hlutina á og að verðlagning sé sanngjörn. „Við höfum gert dálítið af því að kíkja á aðra markaði svona til að bera okkur saman við verðlagið hjá þeim, en stundum er prúttað. Ég held að sé óhætt að segja að ýmsar gersemar hafi borist okkur. Bæði dýrmætar bækur, plötur og jafnvel málverk. Síðan er þetta alltaf spursmál hvað er gersemi og hvað ekki. Það sem einum finnst orðið úr sér gengið getur reynst gull í augum annarra. Menn hafa farið út með tárin í augunum af gleði yfir dýrmætri bók eða fallegu glingri“.

Kúnnahópurinn er ótrúlega fjölbreyttur og margir koma til að grúska í bókum og plötum en aðrir eru að leita sér að búsáhöldum eða skrautmunum.

Nytjamarkaðurinn er að verða samkomustaður

Fastagestir á markaðinum eru margir orðnir góðir kunningjar starfsmannanna, og segir Kristín að sama fólkið komi oft helgi eftir helgi, stoppi til að spjalla og sé almennt ekkert að flýta sér. Það sé óneitanlega skemmtilegt. Ekki megi heldur gleyma þeim ferðamönnum sem keyri í gegn og komi oft við. Þeir geri sér jafnvel ferð í Borgarnes til að kíkja á Nytjamarkaðinn.

,,Mörgum finnst mjög gaman að koma á svona markaði og vil ég hvetja fólk til að kíkja inn hjá okkur og sjá hversu fjölbreyttir munir leynast hjá okkur,“ segir Kristín að lokum.

Nytjamarkaður Körfuknattleiksdeildar Skallagríms í Borgarnesi er opinn á laugardögum frá 12- 16.