[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is „Þetta er ljómandi gaman og eiginlega okkar laxveiði,“ sagði Vigfús Vigfússon, skipstjóri og eigandi Daggar SU 118 í gær.

Sviðsljós

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

„Þetta er ljómandi gaman og eiginlega okkar laxveiði,“ sagði Vigfús Vigfússon, skipstjóri og eigandi Daggar SU 118 í gær. Landburður hefur verið af makríl í Keflavík síðustu vikur og er Döggin búin að landa um 250 tonnum. Í gærmorgun var aflinn 4,5 tonn á klukkutímann, en miðað er við að landa 13 tonnum úr hverri ferð. Bátarnir hafa sótt rétt út fyrir höfnina í Keflavík og landað 2-3 sinnum á dag. Lítið hefur verið um hvíld, enda ekki ástæða til að sögn Vigfúsar: „Frí, nei, nei, frídagana tekur maður í ellinni.“ Á fimmtudag biðu þeir á Dögginni alls í átta tíma eftir löndun, en náðu að landa tvívegis. Um hádegið í gær lönduðu þeir fyrri skammti dagsins og þurftu að bíða í tvo tíma eftir löndun.

Þeir byrjuðu á makrílnum frá Grindavík síðustu vikuna í júlí og hafa í ágúst róið frá Keflavík. „Það er makríll um allan sjó hérna, það er ekki flókið,“ segir Vigfús. „Það hefur verið kraftur í veiðunum allan tímann og fiskurinn farið stækkandi. Nú virðist vera kominn nýr árgangur inn í veiðina og makríllinn hefur fitnað mikið og stækkað hressilega síðustu viku. Aflinn var lengi blandaður miðað við það sem maður hefur átt að venjast hér.“

Lætur glepjast af rauðu gúmmíi á krókunum

Þegar talað var við Vigfús um miðjan dag í gær var hann kominn aftur út til að sækja skammt númer tvö. Þeir voru að veiða úr stórri torfu, sem Vigfús sagði að næði langleiðina frá höfninni í Keflavík og inn undir Njarðvík. Báturinn er sérstaklega útbúnn til línuveiða á makríl og krókarnir eru 320 talsins. Makríllinn lætur síðan glepjast af rauðu gúmmíi á krókunum.

Vigfús sagði að tæplega 60 krónur fengjust fyrir kílóið, en þeir eru í viðskiptum við Saltver í Reykjanesbæ. „Við erum löngu búnir með þau 180 tonn sem við fengum samkvæmt reglugerð og búnir að leigja til okkar 150 tonn í viðbót. Fyrir kílóið borgum við fjórar krónur í leigu og svo fara átta krónur í auðlindagjald. Ég veit ekki um afkomuna, en þetta er skemmtilegt og ég reikna með að vera á makríl út september, en þá tökum við smáhlé og förum svo á línu frá Stöðvarfirði,“ segir Vigfús. Með honum rær sonur hans og nafni. „Þetta er einfalt hjá okkur á Dögginni, sjáðu til“

Á línu og handfæri er heimilt að veiða rúmlega átta þúsund tonn af makríl í ár, með flutningi frá síðasta ári, og var í gær búið að landa 2.880 tonnum. Á vertíðinni hafa 188 minni bátar aflaheimildir í makríl, en aðeins 33 bátar hafa stundað veiðar og finnst mörgum verðið sem fæst fyrir makrílinn vera lágt. Þá nema heimildir margra aðeins nokkrum kílóum, en leyfilegt er að framselja heimildir á milli báta í kerfinu. Afli smábátanna hefur að mestu komið á land í Keflavík, Sandgerði, á Rifi og í Ólafsvík.

Aldrei svona mikið að gera í makrílnum

Gísli Sverrisson, hafnarvörður í Reykjanesbæ, segir að miklar annir hafi verið á vigtinni í Keflavík síðustu vikur, en törnin hafi byrjað strax upp úr mánaðamótum. Síðan hafa 26 bátar landað í Keflavík og lítill munur verið gerður á virkum dögum og helgum. Hann sagðist reikna með að hægjast myndi aðeins á um helgina enda hefði mikið borist í vinnsluna síðustu daga.

„Ég held að það hafi aldrei verið svona mikið að gera hérna í sambandi við makrílinn,“ segir Gísli. Umsvifin hafa vakið mikla athygli, enda bátarnir rétt við höfnina og auðvelt fyrir fólk í landi að fylgjast með veiðum og löndun.

Björn Arnaldsson, hafnarstjóri í Snæfellsbæ, sagði að smábátar þaðan hefðu rótfiskað af makríl undanfarið. Ekki væru margir á makríl, en dæmi væru um að bátar sem bera 10 tonn hefðu landað þrívegis á dag, allt upp í 30 tonnum. Makríllinn hefur fengist rétt utan við Ólafsvík, Rif og Hellissand. Í ár er búið að landa um 700 tonnum, en í fyrra komu um 1500 tonn af makríl af smábátum á land í höfnum Snæfellsbæjar. „Árið 2014 vorum við hins vegar með 4300 tonn af makríl eða um 60% af öllum makríl veiddum á handfæri það ár. Það var algjört ævintýri,“ segir Björn.