Snorri W. Sigurðsson fæddist í Reykjavík 5. mars 1932. Foreldrar hans voru hjónin Elín Snorradóttir Welding, f. 14.12. 1903, d. 27.2. 1987, frá Hafnarfirði og Sigurður Sæmundsson, f. 28.8.1896, d. 10.6. 1974, frá Elliða í Staðarsveit á Snæfellsnesi.

Systkini Snorra voru Sæmundur, f. 10.10. 1925, d. 8.1. 1977, Sigríður, f. 2.3. 1929, d. 25.2. 1997, og Guðbjörg Margrét (Gréta), f. 15.6. 1939, sem lifir systkini sín.

Hinn 16.8. 1958 kvæntist Snorri Stellu Halldórsdóttur sjúkraliða, f. 13.12. 1937 í Reykjavík. Börn þeirra eru 1) Elín, f. 27.12. 1957, m. Gunnar Pálsson, f. 25.1. 1955, börn: Linda Rán, Ragnheiður Soffía, Snorri Páll og Gunnar Helgi. 2) Óskar, f. 21.11. 1961, m. Eva Garcia Montiel, f. 25.5. 1972, dóttir hans Jana Maren. 3) Magnús Smári, f. 4.5. 1970, m. Signý Óskarsdóttir, f. 20.4. 1972, dætur Kara, Erla og Elfa Dögg. Stjúpdóttir Snorra og dóttir Stellu, Soffía Unnur, f. 5.12. 1954, m. Ólafur Sigurðsson, f. 7.9. 1951, hennar börn: Baldur, Björn, Valgerður Stella og Elísabet Anna.

Snorri ólst upp í Reykjavík. Hann stundaði nám í Vélskóla Íslands og síðar í Iðnskólanum í Reykjavík, ásamt verklegu námi til sjós í vélarrúmum skipa, auk þess að vera á samningi hjá vélaverkstæði Sigurðar Sveinbjörnssonar til að fullnuma sig sem vélstjóri. Líf Snorra var helgað sjónum, þar sem hann vann ýmist á togurum eða fraktskipum, en síðustu starfsárin starfaði hann sem vélstjóri á Dröfninni RE, rannsóknarskipi Hafrannsóknastofnunar.

Útför Snorra hefur farið fram í kyrrþey.

Vort líf er svo ríkt af ljóssins þrá,

að lokkar oss himins sólarbrá,

og húmið hlýtur að dvína,

er hrynjandi geislar skína.

Vor sál er svo rík af trausti og trú,

að trauðla mun bregðast huggun sú,

þó ævin sem elding þrjóti,

guðs eilífð blasir oss móti.

Vort hjarta er svo ríkt af hreinni ást,

að hugir í gegnum dauðann sjást.

Vér hverfum og höldum víðar,

en hittumst þó aftur síðar.

(Jóhannes úr Kötlum.)

Elín (Ella), Óskar, Magnús

og Unnur.

Snorri, tengdafaðir minn, varði stórum hluta ævi sinnar til sjós, fyrst á millilandaskipum, síðan á togurum, og loks á skipum Hafrannsóknastofnunar, lengst af sem vélstjóri. Hann hafði einnig lært járnsmíði og var mikill hagleiksmaður.

Ég minnist Snorra með hlýhug fyrir allar góðu samverustundirnar. Hann tók mér alúðlega þegar ég kom í fyrsta skipti á þáverandi heimili hans og Stellu fyrir 27 árum. Hann var traustur og greiðvikinn og jafnan til taks með hagnýt ráð á fyrstu búskaparárum okkar Elínar, auk þess sem hann sá þá jafnan til þess að kælirinn væri birgur af fersku sjávarfangi.

Sjómennskan mótar líf þeirra sem gefa sig henni á vald og hefur m.a. í för með sér tíðar fjarvistir frá fjölskyldu og vinum. Ferðalög og siglingar hafa vafalítið átt sinn þátt í því að Snorri flutti oft um set, en á þeim tíma sem leiðir okkar lágu saman bjuggu hann og Stella ýmist í Hveragerði, Reykjavík eða Borgarnesi. Eftir að kom að starfslokum héldu þau einnig heimili á Spáni um áratugar skeið. Með tímanum varð því mikilvægara fyrir þau bæði að eiga fastan samastað í tilverunni og geta leitað þangað í blíðu og stríðu.

Sumarhúsið í Eilífsdal var einmitt slíkur griðastaður. Á um fjörutíu ára tímabili tókst þeim hjónunum að breyta hrjóstrugum grasbala í unaðsreit innst í dalnum, með blómlegum trjám og runnum. Frá unga aldri áttu börnin okkar margar sínar bestu stundir með afa og ömmu í Eilífsdal, en þar kom fjölskyldan oft saman í góðu tómi yfir sumartímann. Á meðan kraftarnir leyfðu hélt Snorri áfram að dytta að og endurbæta í dalnum. Hann gat horft með gleði yfir árangur erfiðis síns á löngu árabili, en tækifærunum til að hittast fækkaði því miður með árunum.

Snorri var hógvær, rólyndur, reglufastur og ekki orðmargur. Hann var vingjarnlegur og gerði að gamni sínu þegar því var að skipta. Við ræddum oft um landsins gagn og nauðsynjar og var jafnan auðfundið á honum að hann mat orðheldni og heiðarleika framar öðrum dyggðum í samfélaginu. Hann var fámáll um sína persónulegu hagi og afbar þungbæran sjúkdóm af einstöku æðruleysi síðustu misserin.

Börnin okkar munu ekki njóta þess oftar að sjá afa sinn koma brosandi upp malarstíginn í Bláskógum til að fagna þeim við hliðið. En það mun alltaf verða bjart yfir minningunni um Snorra sem nú hefur fundið líkn á öðrum blómsturvöllum handan móðunnar miklu.

Ég votta Stellu, sem verið hefur óaðskiljanlegur lífsförunautur tengdaföður míns í sextíu ár, börnum þeirra og barnabörnum mína dýpstu hluttekningu.

Gunnar Pálsson.