Hjónaband Ragnheiður Guðmundsdóttir og Raví Rawad fá að giftast.
Hjónaband Ragnheiður Guðmundsdóttir og Raví Rawad fá að giftast. — Morgunblaðið/Ásdís
Sýslumaðurinn í Reykjavík hefur dregið til baka úrskurð, sem bannaði Ragnheiði Guðmundsdóttur að ganga að eiga indverskan kærasta sinn Raví Rawad, og gefið út svonefnt könnunarvottorð. Þau geta því gift sig strax í næstu viku.

Sýslumaðurinn í Reykjavík hefur dregið til baka úrskurð, sem bannaði Ragnheiði Guðmundsdóttur að ganga að eiga indverskan kærasta sinn Raví Rawad, og gefið út svonefnt könnunarvottorð. Þau geta því gift sig strax í næstu viku. Sagt var frá málinu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins en upphaflega vildi sýslumaður ekki taka gild gögn frá Indlandi sem Raví framvísaði til að geta gengið í hjónaband og fengið dvalarleyfi hér á landi.

Innanríkisráðuneytið greip inn í málið og sendi sýslumönnum landsins bréf þar sem fram kemur að það hafi ástæðu til að ætla að nokkurs misræmis gæti í því hvers konar gagna sýslumenn krefjist við könnun hjónavígsluskilyrða þegar um erlend hjónaefni er að ræða svo og hvernig þau gögn séu metin.

Ráðuneytið vísar í því sambandi til máls Ragnheiðar og Raví. Ráðuneytið sneri með úrskurði sínum niðurstöðu sýslumanns.

„Telur ráðuneytið að tilefni sé til að taka verklag og reglur á þessu sviði til nánari skoðunar með það að markmiði að tryggja samræmda og góða stjórnsýslu. Mun ráðuneytið eiga frumkvæði að því að það verði gert,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Ragnheiður þjáist af 4. stigs lífhimnukrabbameini. Henni var sagt að hún þyrfti að frysta fósturvísa ef hún vildi eiga möguleika á að eignast barn vegna áhrifa sem lyfjagjöfin vegna krabbameinsins hefur á frjósemi. Parið ákvað því að gifta sig sem fyrst til þess að geta fryst fósturvísa en aðeins giftir eða fólk í sambúð má gera það. Sýslumaður hafnaði í tvígang að viðurkenna gögnin sem Raví lagði fram til að geta gengið í hjónaband á Íslandi.

Í tölvupóstsvari til mbl.is í gær staðfesti Ragnheiður að þau Raví gætu nú gifst. „Við getum nú gift okkur í næstu viku. Þurfum bara að finna stund og stað og einhvern til að gefa okkur saman,“ segir hún.