Fjallastúlka Sara Dögg Arnardóttir er á öðru sumri sínu sem skálavörður. Hún hefur mest og lengst verið í Landmannalaugum en er nú um stundarsakir að störfum við Álftavatn.
Fjallastúlka Sara Dögg Arnardóttir er á öðru sumri sínu sem skálavörður. Hún hefur mest og lengst verið í Landmannalaugum en er nú um stundarsakir að störfum við Álftavatn. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Síðustu vikur hefur verið algengt að á bilinu 150 til 200 gestir séu á hverri nóttu í skálum og á tjaldsvæðum Ferðafélags Íslands við Álftavatn á Rangárvallaafrétti.

Síðustu vikur hefur verið algengt að á bilinu 150 til 200 gestir séu á hverri nóttu í skálum og á tjaldsvæðum Ferðafélags Íslands við Álftavatn á Rangárvallaafrétti. Aðstaða félagsins þar er á því sem næst miðjum Laugveginum, sem liggur milli Landmannalauga og Þórsmerkur, og nýtur sú gönguleið mikilla vinsælda.

Fimm Ferðafélagsskálar

Eins og fram kom í Morgunblaðinu á dögunum hefur Ferðafélag Íslands varið tæplega einum milljarði króna til ýmissa framkvæmda, uppbygginga og umhverfisbóta, á Laugaveginum á síðustu árum. Ekki þykir af veita því á sumri hverju fara þúsundir göngumanna þessa leið, sem þykir ein sú besta á heimsvísu að mati blaðamanna tímaritsins National Geographic .

„Starfsdagurinn er langur og verkefnin mörg. Göngumenn sem hingað koma eru mjög misjafnlega á sig komnir eftir langa og stranga göngu,“ sagði Sara Dögg Arnardóttir, skálavörður við Álftavatn, þegar blaðamaður hitti hana á fjöllum í vikunni. Þetta er annað sumar hennar við skálavörslu og lengst hefur hún staðið vaktina í Landmannalaugum, en nú um stundarsakir við Álftavatn. Þar eru þau sama við störf, Sara og Björn Steindór Björnsson unnusti hennar.

Alls 24 kílómetrar eru úr Landmannalaugum í Álftavatn. Margir ganga þá leið á einum degi, en aðrir tveimur og gista þá eina við Hrafntinnusker, þar sem FÍ á einnig skála. Aðrir skálar félagsins á þessari leið eru í Hvanngili, Emstrum og svo í Þórsmörk.

Játa ósigur og taka rútuna í bæinn

„Mér finnst göngufólk á Laugaveginum vera betur búið nú en áður var og þeim fjölgar sem vita og þekkja hvað þeir eru að leggja út í. Hafa kannski leitað ráða hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg og stimplað sig inn hjá savetravel.is . Auðvitað hendir stundum að fólk leggur á fjöll á strigaskóm, í gallabuxum og án alls hlífðarfatnaðar. Það komi síðan blautt, jafnvel hrakið og nestislaust hingað. Jú, auðvitað reynum við eftir megni að hjálpa þessu fólki. Sumt getur haldið för sinni áfram en aðrir taka bara næstu rútu í bæinn og játa ósigur. En þessum tilvikum fækkar,“ segir Sara Dögg.

„Bæði eru upplýsingar um góðar ferðavenjur á þessum slóðum aðgengilegri en var – og svo hefur það stundum gerast þegar allra veðra er von að björgunarsveitarmenn úr Hálendisvaktinni hafa einfaldlega bannað fólki sem er vanbúið að leggja á Laugaveginn. Fólk tekur þessum ráðum og lætur segjast. Sem betur fer, þótt auðvitað verði enn hryggileg óhöpp á þessum slóðum. En þeim fækkar sem betur fer.“

Góð aðstaða við Álftavatn

Aðstaða Ferðafélags Íslands við Álftavatn hefur nýlega verið bætt með nýju skálavarðahúsi. Þar er jafnframt nýr og veglegur skáli, sem tekur 74 næturgesti, og svo tjaldsvæðin. „Mér hefur alltaf fundist gott að vera á fjöllum. Ég finn mig í frelsinu og fallegu umhverfinu hérna. Þetta er algjört draumastarf og alveg í samræmi við annað í lífi mínu; ég hef verið skáti frá 10 ára aldri og gekk í björgunarsveit átján ára, strax og ég hafði aldur til,“ segir Sara Dögg á Álftavatni að síðustu. sbs@mbl.is