Gísli Halldór Jónasson fæddist í Reykjavík 13. september 1933. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum 30. júlí 2016.

Foreldrar hans voru Jónas Ragnar Jónasson frá Hólmahjáleigu í Austur-Landeyjum, f. 11. ágúst 1908, d. 2. september 1940, og Fanney Þorvarðardóttir frá Dufþaksholtshjáleigu, f. 23. desember 1911, d. 30. október 1989. Systkini Gísla eru: Ragnheiður, f. 1932, Unnur, f. 1935, d. 2015, Jónas, f. 1938, d. 1939, og Jóhann Ragnar, f. 1948. Fósturforeldrar Gísla voru Guðríður Jónasdóttir, f. 1894, d. 1954, og Guðmundur Guðlaugsson, f. 1883, d. 1974. Uppeldisbræður Gísla eru Jónas Ragnar Guðmundsson, f. 1935, og Magnús Stefánsson, f. 1937, d. 2007.

Gísli kvæntist Viktoríu Karlsdóttur 13. september 1958, f. í Vestmannaeyjum 6. nóvember 1939. Börn þeirra eru 1) Jónas Ragnar, f. 1957, hann á þrjá syni og tvö barnabörn, hann er kvæntur Eriku Ruiz og eru þau búsett í Mexíkó. 2) Stella, f. 1960, hún á fimm börn og tvö barnabörn, hún er búsett í Danmörku. 3) Guðmundur, f. 1963, hann er kvæntur Guðnýju Jensdóttur og eiga þau þrjú börn og eitt barnabarn, þau eru búsett í Vestmannaeyjum. 4) Viktoría, f. 1965, hún á tvö börn og er búsett í Kópavogi. 5) Fanney, f. 1966, hún á tvö börn og tvö barnabörn. Hún er í sambúð með Oddi Magnúsi Oddssyni og eru þau búsett á Spáni. 6) Bryndís, f. 1973, hún á einn son og er búsett í Vestmannaeyjum.

Gísli ólst upp í Hallgeirsey í Austur-Landeyjum við gott atlæti til 17 ára aldurs. Hann útskrifaðist frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík vorið 1958. Gísli var farsæll skipstjóri til margra ára. Hann starfaði hjá Sameinuðu þjóðunum, FAO, víða um heim um árabil og kenndi fiskveiðar. Hann var framkvæmdastjóri útgerðarfélagsins Samtogs sf. í Vestmannaeyjum um nokkurra ára skeið. Síðan hóf hann samstarf með Guðlaugi Stefánssyni frá Gerði og eignaðist síðar umboðs- og heildverslunina G. Stefánsson sf. Gísli var virkur félagi í Golfklúbbi Vestmannaeyja, hann var formaður Félags eldri borgara í Vestmannaeyjum sl. sex ár og heiðursfélagi í Stúku nr. 4, Herjólfi I.O.O.F. í Vestmannaeyjum.

Útför hans fer fram frá Landakirkju í Vestmannaeyjum í dag, 20. ágúst 2016, kl. 11.

Elsku afi minn.

Þegar ég sat hjá þér eina nóttina nokkrum dögum áður en þú kvaddir rifjaði ég upp margar góðar minningar sem ég á um þig og við hlustuðum á ljúfa tóna saman. Ég er mjög þakklát fyrir að hafa átt þessa stund með þér og vona að þú hafir fundið fyrir nærveru minni og heyrt rausið í mér.

Brattagatan ykkar ömmu er samofin æsku minni. Þangað komum við barnabörnin reglulega og horfðum á Tomma og Jenna, fengum sleikjó og svo kveiktir þú upp í arninum fyrir okkur við sérstök tilefni. Það er mér líka minnisstætt hvað það var gaman hjá okkur barnabörnunum þegar þú fórst með okkur á lundapysjuveiðar. Þá var hópnum skellt upp á pikkann, hækkað í útvarpinu og svo sungum við hástöfum á pallinum á milli þess sem það var stokkið niður til að bjarga pysjum.

Þú varst enginn venjulegur afi í mínum augum. Þú varst lífsreyndur, ævintýragjarn og nýjungagjarn. Þið amma höfðuð búið ásamt barnaskaranum í framandi löndum eins og Filippseyjum og Malasíu þar sem þú varst að vinna á vegum Sameinuðu þjóðanna. Þetta fannst mér og finnst enn aðdáunarvert. Að heyra sögur frá þessum tíma og svo ég tali nú ekki um sögur frá skipstjórnartíð þinni er eins og að hlusta á ævintýri. Ég vona að líf mitt verði jafn mikið ævintýri.

Á besta aldri byrjaðir þú að mála myndir. Þar fannstu þig heldur betur og málaðir einstaklega fallegar myndir sem prýða heimilin hjá fjölskyldunni. Ég tek pensilinn fram fyrr en síðar, ég lofa þér því. Þú varst algjör félagsvera, afi minn, og varst aðalmaðurinn í Oddfellow í Eyjum, formaður Félags eldri borgara og meðlimur í kór eldri borgara ásamt því sem þú varst golfari mikill. Það var nóg að gera hjá þér þó svo að þú værir kominn á eftirlaun. Alltaf hafðir þú samt tíma fyrir fjölskylduna og lagðir þig fram um að vita hvað væri í gangi hjá hverjum og einum og ekki léstu stoppa þig þó afkomendurnir væru búsettir erlendis heldur varstu fær í flestan sjó þegar kom að tæknimálum og varst til að mynda alltaf með skype-ið opið.

Það átti ekki við þig að vera svona veikur og fastur á spítala svo mánuðum skipti. Það var samt alltaf gott að koma til þín og þú hlýjaðir mér iðulega um hendurnar þegar ég kom í heimsókn á spítalann, það var okkar stund. Amma var kletturinn þinn og fylgdi þér í gegnum öll veikindin ásamt Vittý frænku sem var alveg einstök. Þó að kveðjustundin hafi komið of snemma er það huggun harmi gegn að þú hefur nú hlotið hvíld, elsku afi minn.

Þið amma voruð einstaklega dugleg að ferðast um heiminn og voruð ekki fyrr komin heim úr einni reisunni þegar farið var að skipuleggja aðra. Nú ert þú farinn í ferðalagið langa en við fjölskyldan höldum ferðalaginu áfram með ömmu. Elska þig, afi minn.

Viktoría Guðmundsdóttir.

Traust er fyrsta orðið sem mér dettur í hug þegar ég hugsa til látins vinar, Gísla Halldórs Jónassonar. Vinar sem stóð eins og klettur í lífinu, eins og Smáeyjar sem kiknuðu aldrei þó suðvestanstórviðrin dyndu á þeim. Síðustu mánuðir lífsins voru þyngri en samanlagðar allar suðvestanáttir lífsins og þá láta hörðustu menn undan. Það var ekki hans stíll að gefast upp og mér er til efs að hann hafi nokkru sinni látið sér detta slíkt í hug. Gísli var sjómaður, skipstjóri og leiðbeinandi um fiskveiðar á meðal framandi þjóða. Hann var framsýnn, leiðtogi og skemmtilegur vinur sem naut lífsins, sælkeri og fagurkeri af bestu gerð.

Þrátt fyrir að röddin gæti verið þung, svörin stundum stutt en ákveðin, þá var Gísli Jónasar hlýr maður og raungóður. Það átti aldrei nokkur maður inni hjá honum og hreinskiptin framkoman, ákveðin skipstjóraröddin og glaðvær hláturinn lýsti svo vel góðum dreng. Við Sigga fengum að kynnast kostum Gísla sem aldrei verða fullþakkaðir. Minning hans á stóran sess í hjarta okkar Siggu og við munum standa vörð um Viggý og fjölskylduna eins og þau stóðu vörð um okkur. Skrifstofan í Valhöll var sniðin fyrir Gísla, viðarklæðning upp á miðja veggi, leðurstóll og tveggja tonna peningaskápur var annar hluturinn á skrifstofunni sem ekki var hægt að snúa eða beygja. Gísli var hinn þó léttari væri. Kaffistofan var vettvangur gleði og þar voru sögurnar sagðar. Valhöll er vel byggt hús en ég held að það séu sprungur í veggjunum á kaffistofunni eftir hlátrasköllin. Þar var Gísli hrókur alls fagnaðar og oft var langt gengið í gríni og skotum hver á annan. Það lagaðist ekki þó Svenni Hjall, Róbert heitinn eða Tóti rafvirki litu í heimsókn enda engar veimiltítur og þekktu andann sem ríkti. Þarna var ekkert kynslóðabil, ekkert yfirlæti eða sýndarmennska. Gísli kom fram við alla á sama hátt, hreinn og beinn enda á það alltaf við, jafnvel þegar sannleikurinn er erfiður. Kynni okkar Gísla í gegnum Oddfellowregluna í 34 ár voru skóli leiðbeinandans sem aldrei fór út af sporinu eða sveigði reglur og lög. Gísli var gallharður og gekk í takt við eigin samvisku, var heill og sannur í því sem hann tók sér fyrir hendur. Ég lærði að bregðast ekki því sem fyrir mig var lagt og vona að ég bregðist aldrei traustinu sem hann sýndi mér í starfi og leik. Gísli var málafylgjumaður og enginn komst upp með að klára ekki sín mál, það var góð leiðsögn. Golfið hentaði séntilmanni eins og Gísla þar sem virðing fyrir leikreglunum er algjör. Hann naut sín við golfleik og átti þar margar af sínum bestu stundum eins og í öllu félagsstarfi sem hann tók þátt í og var jafnan fenginn til forystu og síðast hjá Félagi eldri borgara í Eyjum. Vináttan við Gísla er auður sem aldrei verður frá mér tekinn. Hann kom inn í líf mitt þegar brekkan var þung og fylgdi mér alla leið til móts við nýtt líf. Ég naut hans miklu kosta að gefast aldrei upp, klára málin og fylgja leið vináttu, sannleika og kærleika sem hann var svo ríkur af. Ég er harmi sleginn og votta Viggý og fjölskyldu samúð.

Ásmundur Friðriksson.