Bjarni Vilmundarson fæddist 26. ágúst 1928. Hann lést 1. ágúst 2016.

Útför hans fór fram 12. ágúst 2016.

Síðasta systkinið frá Mófellsstöðum í Skorradal er fallið frá. Bjarni kvaddi 1. ágúst sl. þrotinn kröftum á sál og líkama. Ég er afar þakklát fyrir stundina sem við áttum viku fyrr, þar sem við vissum bæði að kveðjustundin væri komin.

Þær eru óteljandi minningarnar sem fara nú í gegnum hugann enda voru systkinin öll stór þáttur í lífi fjölskyldunnar í Neðri-Hreppi alla tíð og síðar fjölskyldna okkar systkinanna. Það voru fádæma forréttindi að hafa þetta vandaða og góða fólk með sér svo lengi í lífinu. Þau kenndu manni margt sem seint verður fullþakkað.

Hugurinn hvarflar til æskuára minna. Minningarnar allar góðar og ljúfar þegar hugsað er til Bjarna. Smalamennskur, heyskapur, sauðburður, jól, útreiðar á fögrum sumardögum eða bara hversdagurinn. Í öllu þessu voru þau systkinin stór þáttur.

Æskujólin mín eru sterklega tengd Mófellsstaðasystkinunum. Alltaf á Þorláksmessu fórum við fjölskyldan í heimsókn til þeirra, til að skiptast á gjöfum.

Það var hátíðlegt hjá þeim í gamla húsinu, hlýlegt og gott. Á jóladag, eftir messu, komu þau alltaf heim í kaffi. Hún var ómæld athyglin sem við systkinin fengum við að sýna gjafirnar.

Ég var ekki gömul þegar ég fyrst fékk að fara með Bjarna í smalamennsku á Mófellsstöðum.

Hann tók gjarnan með sér yngstu smalana að austanverðu við Mófellið, gangandi. Það hefur trúlega ekki auðveldað hans för og hjálpin ekki merkileg en það kom ekki að sök. Fádæma þolinmæði og góðmennska Bjarna skilaði okkur krökkunum þekkingu á umhverfinu. Gjarnan sett fram á þann hátt sem við skildum, með leikjum og sögum. Þeir bræður smöluðu líka alltaf heima í Neðri-Hreppi. Margar minningar þaðan líka. Ein er af Sauðahryggshausnum, þar sem gjarnan var áð. Bjarni sveipar sig gæruúlpunni og býr þannig til myrkur undir.

Grípur steina og segist ætla að sýna okkur töfra. Slær svo saman steinum svo gneistar. Í þá daga trúði ég því að þetta væru töfrar – og geri jafnvel enn.

Svona var Bjarni, alltaf tilbúinn að bregða á leik og gefa af sér. Þeir voru ekki nískir bræðurnir að lána mér hestana sína í gamla daga, þegar ég átti ekki hest. Það var auðsótt að fá Öðling eða Dúða að láni og oftar en ekki kom annar bræðranna ríðandi heim til að taka mig með í útreiðartúr. Lýsingur var Bjarna og hann reið honum.

Bjarni var félagsmálamaður og naut þess. Ungmennafélagið Íslendingur átti þar öflugan liðsmann.

Hann var góður söngmaður og söng í Kirkjukór Hvanneyrarsóknar um áratuga skeið auk þess að syngja með Söngbræðrum lengi og var virkur í Lions í mörg ár. Bjarni var afar frár á fæti, eins og Þórður heitinn bróðir hans. Hann var kominn yfir sextugt þegar hann hljóp af sér unga smala í smalamennsku heima í Neðri-Hrepp, sem voru þó nokkrum áratugum yngri en hann og blés ekki úr nös.

Bjarni var alltaf kátur og gefandi, hvar sem hann var. Bóndi af Guðs náð sem unni sínu búi og sinni sveit af heilum hug.

Þau voru einstaklega samhent Mófellsstaðasystkinin alla tíð svo aðdáunarvert var. Mér er efst í huga einlægt þakklæti fyrir samferðina með Bjarna. Blessuð sé minning Bjarna á Mófellsstöðum.

Steinunn Ágústa

Einarsdóttir.

Í dag kveðjum við hinstu kveðju góðan granna og kæran vin til margra áratuga, Bjarna á Mófellsstöðum. Er hann síðastur þeirra systkina til að kveðja þennan heim á eftir þeim Þórði og Möggu.

Það er sjónarsviptir að þeim Mófellsstaðasystkinum, þau voru öll hvert á sinn hátt traustir stólpar í samfélaginu. Öll voru þau miklum mannkostum prýdd, strangheiðarleg, dugleg og vinnusöm, greiðvikin og alltaf tilbúin að hjálpa náunganum. Samhent voru þau systkinin í einu og öllu, saman ráku þau búið á Mófellsstöðum og má segja að þau hafi sett það framar flestu öðru á æviskeiði sínu. Því miður eignaðist ekkert þeirra afkomendur þannig að með Bjarna er horfin síðasta greinin af þessum meiði.

Það eru mikil forréttindi að hafa fengið að eiga Bjarna og systkini hans að ævilöngum vinum. Tengsl fjölskyldnanna á Mófellsstöðum og í Efri-Hrepp hafa alltaf verið náin og margar góðar minningar tengjast heimsóknum í gamla húsið á Mófellsstöðum á meðan eldri kynslóðin réði þar ríkjum og þau systkinin voru enn á besta aldri.

Árin liðu, lengra varð á milli um skeið en vináttutengslin slitnuðu aldrei. Alltaf var jafn skemmtilegt að koma í heimsókn með börnin okkar og síðar barnabörnin en þá vorum við flutt aftur í sveitina. Alltaf var tekið á móti smáfólkinu eins og um heiðursgesti væri að ræða, þolinmæði þeirra bræðra var einstök við að sýna kýr og kálfa, hænur og lömb og aldrei látið í það skína að tímanum gæti nú verið betur varið, svona um hásauðburð eða slátt eða réttir. Það brást heldur aldrei að boðið var inn þar sem Magga beið tilbúin með veitingar og sest var að skemmtilegu spjalli.

Alltaf var gaman að ræða við Bjarna, oft kom hann við þegar hann átti leið hjá til dæmis á leið af söngæfingu, þáði tebolla og ræddi landsins og heimsins gagn og nauðsynjar.

Bjarni var margfróður maður og fylgdist vel með, þar kom enginn að tómum kofanum, en hann bjó líka yfir lúmskri kímnigáfu og gat verið mjög hnyttinn í tilsvörum.

Hann var söngmaður góður og söng m.a. með kirkjukór Hvanneyrarkirkju og karlakórnum Söngbræðrum. Gaman hafði hann af að gleðjast á góðri stundu með góðum vinum en leyfði sér það þó allt of sjaldan því skyldustörfin gengu fyrir. Góðar minningar eigum við þó um glaðan Bjarna á þorrablótum í Brún og á öðrum mannamótum.

Traustari vin en Bjarna er vart hægt að hugsa sér. Alla tíð hefur hann og þau systkinin öll borið hag okkar fyrir brjósti og fylgst grannt með því sem var að gerast hjá öllum fjölskyldumeðlimum hvar sem þau voru stödd í heiminum. Alltaf voru þau tilbúin að rétta hjálparhönd ef á þurfti að halda.

Samband þeirra Mófellsstaðasystkina var alla tíð einstaklega náið og það var mikill missir fyrir Bjarna að þurfa að horfa á eftir þeim Þórði og Möggu eftir að heilsufari þeirra hrakaði ört síðustu árin.

Hann fékk samt þá ósk sína uppfyllta að fá að eyða sínum síðustu æviárum heima á Mófellsstöðum, ekki síst þökk sé þeim Karólínu og Ottó sem fluttu í gamla húsið fyrir nokkrum árum og önnuðust hann síðustu árin eins og systkini hans á undan honum.

Guðrún og Jóhannes,

Efri-Hrepp.