Í dag er hugur minn hjá starfsfólki á bráðamóttöku spítalanna í höfuðstaðnum. Í dag er nefnilega Menningarnæturdagur og að honum loknum tekur við Menningarnæturkvöldið og loks hið mest ógnvekjandi af þessu öllu saman: sjálf Menningarnóttin.

Í dag er hugur minn hjá starfsfólki á bráðamóttöku spítalanna í höfuðstaðnum. Í dag er nefnilega Menningarnæturdagur og að honum loknum tekur við Menningarnæturkvöldið og loks hið mest ógnvekjandi af þessu öllu saman: sjálf Menningarnóttin.

Þá er eins gott fyrir starfsfólkið á bráðamóttökunni að hafa hröð handtök. Þegar við ákveðum að gerast menningarleg hérna á eyjunni þá eigum við það nefnilega til að vera fram úr hófi menningarleg. Þá drekkum við í okkur menningu og ýmislegt annað. Helst fram undir morgun ef hægt er.

Jafnfjölmennur mannfagnaður og Menningarnótt endar iðulega í alls kyns átökum. Maður er jú manns gaman og á einhverjum tímapunkti vilja menn reyna með sér í alls kyns fangbrögðum. Ef til vill er þetta víkingaeðlið. Skála fyrst, tæma hornin og takast síðan á.

Mig rámar í fyrirsögn á pistli sem fjöllistamaðurinn Sverrir Stormsker skrifaði eitt sinn skömmu eftir Menningarnótt. Fyrirsögnin var eitthvað á þá leið: Íslensk Menningarnótt aðeins sextíu slasaðir. Hann fyrirgefur mér vonandi ef mér tókst ekki að hafa þetta nákvæmlega rétt eftir en inntakið var á þessa leið og var þá í takti við fréttir af bráðamóttökunni.

Þrátt fyrir þann hamagang sem fylgir því þegar margir Íslendingar koma saman og gerast menningarlegir, þá hefur fólk engu að síður getað stillt sig um að stimpla Menningarnótt sem sérstaka ofbeldishátíð. Er það vel.

Vinnufélagi minn, sem við skulum bara kalla Björn, segir mér að eldra fólk yfirgefi jafnan miðbæinn að flugeldasýningu lokinni. Þá taki hinir yngri við keflinu. Þetta kann vel að vera rétt en ég er ekki eins athugull og Björn. Hann segir jafnframt að eldra fólkið sé töluvert drukknara á Menningarnæturkvöldinu heldur en það yngra. Sé það rétt þá ímynda ég mér að það sé vegna þess að hinir yngri hafa ekki þurft að alast upp við að stjórnmálamenn meini fólki að kaupa sér bjór hérna á eyjunni. Eða hafið þið einhvern tímann heyrt yngra fólk panta sér tvöfaldan vodka í kók?

Á Menningarnæturdeginum og Menningarnæturkvöldinu þarf fólk ekki að standa í því að keyra drukkið. Boðið er upp á almenningssamgöngur þar sem ekki er rukkað sérstaklega fyrir farið. Getur það hlíft okkur, sem getum verið svolítið utan við okkur, við vandræðalegum uppákomum um borð í vögnunum. „Og hvað er þetta?“ sagði vagnstjóri mig eitt sinn þegar ég hugðist greiða fyrir farið með því að sýna honum strætókort. Gerði ráð fyrir að hann tæki það gott og gilt. Hann gerði það ekki enda hafði ég af einhverjum ástæðum rifið fram KSÍ-passann sem veitir mér aðgang að knattspyrnuleikjum, starfs míns vegna. Eiríkur Stefán, formaður Samtaka íþróttafréttamanna, og Klara, framkvæmdastjóri KSÍ, eru þá hér með upplýst um að KSÍ-passinn gengur bara alls ekki sem aðgöngumiði í strætisvagna. Nema þá kannski helst á Menningarnótt.

Kristján Jónsson