Síðasta laugardagsgáta var sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Óttaleg kveif er karlfuglinn. Kona ein aldurhnigin. Kvenmanns þann eld ég kannski finn. Sú kona er ekki tigin. Helgi R.

Síðasta laugardagsgáta var sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Óttaleg kveif er karlfuglinn.

Kona ein aldurhnigin.

Kvenmanns þann eld ég kannski finn.

Sú kona er ekki tigin.

Helgi R. Einarsson svarar:

Heilann braut ég helling

svo hógvær tók af skarið

er kynnti sig hún „kelling“

því komið var þá svarið.

Og spurði síðan: „Hver þekkir ekki þessa manntegund?

Af hroka í móinn malda

menn sem að litlu tjalda.

Sig flissandi reigja,

fussa og sveigja

og heimsku sinni fram halda.“

Guðrún Bjarnadóttir á þessa lausn:

Kerling var karlinn metinn,

en kerlingin hans var fín.

Er kerlingareldur etinn?

Aðalskerling er grín.

Og bætti við „feminískri limru“:

Nú höfum við séð alveg helling

af hátindi íþrótta. Hvellsyng

að eitt er best

og afrek mest

að sóla og synd' eins og kerling.

Þannig skýrir Guðmundur gátuna:

Óttaleg kerling er karlfuglinn.

Kerling er aldurhnigin.

Kerlingareld ég kannski finn.

Kerling er ekki tigin.

Og síðan kemur limra:

Á spunarokk spann hún Una

spunakerling í Hruna,

„aldrei fann

hún unnustann“,

því æ var hún stutt í spuna.

Og að lokum:

Undanfarið óðarstef

ort ég hef um rokka,

ekki lengur gaum þeim gef,

en gátu nýja kokka.

Og gáta dagsins er svohljóðandi:

Löngum er hún lögð í sjá.

Líka heiti gyðjunnar.

Fylgja henni í flokknum á.

Form á vörum sams konar.

Ólína Jónasdóttir frá Fremri-Kotum orti þessa kvöldvísu:

Sól á kvöldi sígur rótt

sæng í köldu Ránar.

Dregst að völdum dimmbrýnd nótt,

dökku tjöldin lánar.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is