Erna Ýr Öldudóttir
Erna Ýr Öldudóttir
Börkur Gunnarsson borkur@mbl.

Börkur Gunnarsson

borkur@mbl.is

„Ég vil ekki skemma fyrir flokknum mínum því að ég aðhyllist öll grunngildi Pírataflokksins sem er upplýsingafrelsi, borgararéttindi, netfrelsi, jöfn tækifæri, frjáls samvinna, gagnsæi og að stjórnvöld opni gögn svo fólk geti unnið með þau. En nú er búið að breyta þessum flokki í eins máls flokk sem hverfist um stjórnarskrármál stjórnlagaráðs og ég held ég geti ekki kosið hann að óbreyttu,“ segir Erna Ýr Öldudóttir, fyrrverandi formaður framkvæmdaráðs Pírata, sem hefur fengið yfir sig holskeflu gagnrýni á Pírataspjallinu á Fésbókinni eftir viðtal í Fréttatímanum þar sem hún hélt því fram að þeir sem eru meira miðju- og hægrisinnaðir hafi beðið afhroð í prófkjöri Pírata á höfuðborgarsvæðinu.

Vill rökræðu ekki árásir á persónu sína

„Ég vissi að ég myndi ekki ná langt í þessu prófkjöri út af afstöðu minni til stefnu flokksins í stjórnarskrármálinu, sú niðurstaða kemur ekki mikið á óvart. Ég tók þátt í því til að skoða hversu mikinn stuðning mín mál hefðu og undirtektirnar eru ekki nógu góðar en svipaðar því sem ég bjóst við.

Ég tel að við þurfum nýja stjórnarskrá en ekki endilega þessa sem stjórnlagaráð samdi og alls ekki að samþykkja hana svona í einum rykk.

Mér finnst leiðinlegt að þegar ég brydda á þessu að þá skuli ég bara vera sett í sýrubað af gagnrýni, aðallega á mína persónu en minna á málefnið.

Það er ekki hvetjandi að taka þátt í rökræðu um þessi mál þegar maður fær svona Hallmundarhraun yfir sig í hvert skipti,“ segir Erna Ýr.