Í kosningunum framundan verður tekist á um lífskjör almennings og þá megindrætti sem ráða skulu ferð við efnahagsstjórnun landsins. Heilbrigðiskerfi okkar, menntakerfið, almenn lífskjör í landinu, samgöngur og skilyrði atvinnulífs og vinnumarkaðar vega þar þyngst.
Við jafnaðarmenn á Íslandi reisum okkar gunnfána fyrir kröfuna um eitt samfélag fyrir alla: Samfélag þar sem:
• hver maður fær að gefa eftir getu og þiggja eftir þörfum;
• gott og gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi, sterkt menntakerfi og traust og skilvirkt almannatryggingakerfi eru við lýði;
• byrðum er dreift á herðar þeirra sem geta borið þær;
• enginn maður þarf að óttast afkomu sína vegna örorku, aldurs eða fötlunar;
• þjóðarauðlindir eru nýttar í þágu samfélagsins og öflugra atvinnugreina;
• mannréttindi og atvinnufrelsi eru ófrávíkjanleg krafa;
• heilbrigt samkeppnisumhverfi ríkir í öllum atvinnugreinum og markaðurinn er þjónn en ekki herra.
Ég hef afráðið að gefa áfram kost á mér til þess að leiða Samfylkinguna í Norðvesturkjördæmi í næstu kosningum. Sem alþingismaður hef ég þjónað íbúum landsins í fimm ár og er tilbúin að gera það áfram. Þau mál sem brenna á byggðunum þekki ég af eigin raun og vil því beita mér fyrir bættum lífskjörum og afkomu íbúa landsbyggðarinnar.
Ég er jafnaðarmaður að hugsjón, set fólk í fyrirrúm og brenn fyrir jöfnuð, réttlæti og sanngjarnar leikreglur í samfélagi okkar. Mín helstu baráttumál hafa verið breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu, bættar samgöngur og velferðarmál.
Alþingi Íslendinga er mikilvægasta lýðræðisstofnun samfélags okkar. Virðing Alþingis veltur á framgöngu þeirra sem þar starfa. Ég vil leggja mitt af mörkum til þess að bæta stjórnmálamenningu og umræðuhefð á Íslandi.
Nú er brýnna en nokkru sinni að snúa við þeirri óheillaþróun sem orðið hefur í tíð núverandi ríkisstjórnar. Velferðarkerfið er í miklum vanda og engin menntastefna sjáanleg. Hægt og bítandi er verið að ýta fólki inn í einkarekin heilbrigðis- og menntakerfi með því að fjársvelta svo hið opinbera kerfi að það rís ekki undir hlutverki sínu. Mikið verk er óunnið í samgöngumálum, byggðamálum, auðlinda- og atvinnumálum, málefnum skuldara, öryrkja, aldraðra og barnafólks.
Nú er verk að vinna. Fólkið fyrst! Eitt samfélag fyrir alla.
Höfundur er alþingismaður.