Jón William Andrésson fæddist 10. mars 1959. Hann lést 26. júlí 2016.

Jón William var jarðsunginn 8. ágúst 2016.

Það var fallegt júlíkvöld, sólin skein og lífið gekk sinn vanagang þegar reiðarslagið kom.

Jón var í sumarfríi og hafði verið að dytta að garðinum og bílnum sínum. Allt virtist hafa verið í lagi svo engum hafði dottið í hug að komið var að kveðjustund svona alltof snemma. Á einu augnabliki breyttist allt og Jón var farinn frá okkur aðeins 57 ára. Jón William hafði kvatt svo skyndilega aðeins hálfu ári á eftir móður sinni sem hann saknaði svo mikið.

Jón ólst upp í Hrauntungunni í Kópavogi, yngstur fimm systkina.

Jón var einstaklega ljúfur drengur sem vildi öllum vel. Honum fannst alltaf svo gaman þegar fjölskyldan kom saman og sýndi hann alltaf mikinn áhuga á því hvað væri að gerast í lífi fjölskyldumeðlima.

Hann tók alltaf á móti manni með hlýju brosi og faðmlagi.

Jón bjó hluta ævi sinnar í Kaupmannahöfn, en þegar hann fluttist aftur heim til Íslands fyrir 15 árum þá fluttist hann aftur í Hrauntunguna til þess að aðstoða við umönnun foreldra sinna.

Jón var mjög náinn foreldrum sínum og systkinum alla sína ævi.

Með sorg í hjarta kveðjum við elsku Jón William okkar.

Þín verður sárt saknað

Farðu í friði góði vinur.

Þér fylgir hugsun góð og hlý.

Sama hvað á okkur dynur

aftur hittumst við á ný.

(Magnús Eiríksson)

Hvíl í friði.

Guðmundur (Gummi),

Ásthildur, Eva og Erla.