Þrír skólafélagar úr Verzlunarskóla Íslands, þeir Magnús Jóhannes Stefánsson, Nikulás Ingi Björnsson og Þröstur Sæmundsson, sátu og strokuðu út samviskusamlega allar lausnir sem þeir höfðu skrifað í rekstrarhagfræðibækur í fyrra í versluninni A4 í...
Þrír skólafélagar úr Verzlunarskóla Íslands, þeir Magnús Jóhannes Stefánsson, Nikulás Ingi Björnsson og Þröstur Sæmundsson, sátu og strokuðu út samviskusamlega allar lausnir sem þeir höfðu skrifað í rekstrarhagfræðibækur í fyrra í versluninni A4 í Skeifunni þegar blaðamaður leit við. Bækurnar ætluðu þeir að selja og fá nýjar í staðinn á skiptibókamarkaðnum. Þeir voru með talsvert af bókum meðferðis sem þeir ætluðu að skipta út fyrir aðrar. Þeir reiknuðu með að fá um 10 þúsund krónur fyrir allar gömlu bækurnar. Þeir reiknuðu með að kostnaður vegna bókakaupa fyrir haustönn væri um 20 til 30 þúsund. Ætli það sé ekki rétt útreiknað hjá þeim nema þekkingin úr rekstrarhagfræði hafi þurrkast út með strokleðrinu.