Jón Birgir Eiríksson jbe@mbl.is Herflugvélar sýrlenska stjórnarhersins héldu sprengjuárásum sínum áfram í gær og vörpuðu sprengjum yfir borginni Hasakah í Norðaustur-Sýrlandi.

Jón Birgir Eiríksson

jbe@mbl.is

Herflugvélar sýrlenska stjórnarhersins héldu sprengjuárásum sínum áfram í gær og vörpuðu sprengjum yfir borginni Hasakah í Norðaustur-Sýrlandi. Var það í fyrsta sinn sem flugher stjórnarhersins beitti sér á kúrdískum yfirráðasvæðum, en meirihluti Hasakah er undir yfirráðum Kúrda.

Síðan á miðvikudag hafa 22 almennir borgarar fallið í valinn í Hasakah, þar á meðal níu börn. Fimm Kúrdar hafa fallið og fjórir hermenn stjórnarhersins.

Sýrlenski stjórnarherinn og her Kúrda kljást báðir við hryðjuverkasamtökin Ríki íslams, sem hafa yfirráð í stórum hluta Suður-Sýrlands. Átök hafa þó brotist út á milli þeirra fyrrnefndu, meðal annars í Hasakah, vegna krafna Kúrda um sjálfstætt landsvæði í Norður-Sýrlandi í óþökk sýrlenskra yfirvalda.