Jónína Olsen fæddist 23. júlí 1952. Hún lést 14. ágúst 2016.

Jónína var jarðsungin 19. ágúst 2016.

Fyrsta minning mín um Jónínu systur er þegar ég tíu ára gömul er send í sumarbúðir skáta að Úlfljótsvatni en þangað berst mér bréf frá mömmu. Í bréfinu segir hún að ég hafi eignast systur og megi ég ráða hvort ég verði áfram á Úlfljótsvatni eða komi heim. Ég var snögg að velja seinni kostinn og var komin heim til Keflavíkur næsta dag.

Fyrst á eftir var ég þeirrar skoðunar að ég hefði valið verri kostinn. Skælandi kornabarnið og stóra systir áttu fátt sameiginlegt. Með árunum breyttist þetta viðhorf og litla systir var tekin í fulla sátt.

Jónína eignaðist snemma góðar vinkonur, sem ávallt héldu hópinn og tóku, í sameiningu, fullan þátt í gleði og skemmtun 68-kynslóðarinnar. Keflavík var þá þegar orðin aðal Bítlabærinn með Hljóma, Rúnar Júlíusson og marga aðra góða drengi, sem leiddu gleðina. Hjá Jónínu, eins og okkur hinum, tóku svo við árin þar sem tekist var á um meiri alvöru og ábyrgð. Hún eignast börnin sín fjögur og var mjög ötul við að koma þeim til manns og var henni mjög í mun að þeim vegnaði vel, hún eignaðist frábær tengdabörn sem hún átti gott og náið samband við. Barnabörnin voru henni mjög kær og áttu margar góðar stundir með ömmu sinni.

Jónínu var umhugað um að hafa fallegt í kringum sig, hún hafði græna fingur, var natin blómaræktandi og hjá henni voru grænu plönturnar yfirleitt grænni en hjá öðrum. Um tíma var hún í Svíþjóð og lærði blómaskreytingar og naut þess tíma verulega. Jónína var mikill húmoristi og fór oft á kostum á góðum stundum en í okkar fjölskyldu köllum við slíkt færeyska húmorinn, sem við segjum að komi úr föðurættinni.

Undanfarin ár hafa verið Jónínu þungbær, vegna erfiðra veikinda, síðustu tvær vikurnar dvaldi hún á lungnadeild Landspítalans í Fossvogi og átti ég þess kost að vera með henni og fjölskyldu hennar síðustu sólarhringana.

Hún barðist hetjulega og enn örlaði á fína húmornum þegar bráði af henni. Þar var hlegið og grátið í senn. Það er dýrmætt að upplifa einstakt starf hjúkrunarfólks, sem er unnið í kyrrþey og af mikilli auðmýkt, þegar hlúð er að dauðvona sjúklingum og aðstandendum þeirra, slíkt lætur engan ósnortinn.

Ég veit að við sem vorum við dánarbeð systur minnar munum um ókomin ár geyma í hjörtum okkar minninguna um þá fallegu stund.

Guð geymi Jónínu systur.

Rakel Olsen (Sissa systir).

Í dag verður elskuleg móðursystir mín, Jónína Olsen, jarðsungin sem kveður eftir erfið veikindi. Jónína, eða Jónsý eins við kölluðum hana oftast, hefur alltaf verið stór hluti af lífi mínu.

Móðir mín heitin sagði mér eitt sinn söguna af því þegar pabbi skutlaði henni heim af fæðingardeildinni með litla hvítvoðunginn mig.

Þá varð hann að skilja okkur mæðgur eftir vegna vinnu og vissi móðir mín ekkert hvað hún ætti að gera við þetta barn og brotnaði niður og hringdi beint í litlu systur sína. Jónsý kom um hæl og gaf góð ráð um bleyjuskiptingar og pelagjöf, enda vön móðir og þá búin að eiga eitt barn sjálf. Svona var þetta nú yfirleitt þrátt fyrir að mamma væri oft að stjórnast í Jónsý, það var alltaf gott að fá ráð frá henni því hún var ekkert að hika og sagði hlutina umbúðarlaust. Á þessari stundu var elsku frænka mín Jónína Olsen mætt inn í líf mitt og hefur spilað þar stórt hlutverk æ síðan.

Frænka mín var ekki alltaf auðveld, örverpi foreldra sinna Þóru Gísladóttur og Óla Olsen. Sumir sögðu hana sveimhuga fiðrildi sem átti sína skandala í lífinu. Alla tíð reyndist Jónsý mér vel. Það var alltaf líf og fjör í kringum hana og nánast alla mína æsku bjó hún nálægt mér, með nokkrum undantekningum þó. Samgangur á milli heimila okkar var mikill alla tíð.

Ég á margar góðar minningar úr æsku með Jónsý frænku en helst ber að nefna skíðaferð á pínulitlum Mini Cooper í Hveradali, yndislega fallega rauða leðurskó sem hún færði mér frá Portúgal, sólarlandaferðir til Ítalíu og Spánar að ógleymdum heimsóknum til hennar á Keflavíkurspítala þar sem hún vann m.a. á röntgeninu í hvítum búningi. Á unglingsárunum var gott að koma til Jónsý og ræða um ástarmálin, lífið og tilveruna en um leið og ég fékk góð ráð kom ég til móts við hana með því að strauja fyrir hana þvottinn sem átti það til að hlaðast upp á stofusófanum. Þetta voru góðar stundir hjá okkur frænkum.

Í seinni tíð hefur Jónsý alltaf fylgst vel með mér og mínum og sýnt öllu því sem við höfum tekið okkur fyrir hendur mikinn áhuga.

Hún hefur alltaf verið mikill fagurkeri og haft dálæti á fallegum hlutum, kannski svolítið glysgjörn myndu einhverjir segja.

Ég var stundum varla lent af vörusýningum í Evrópu þegar ég fékk símtal frá Jónsý sem vildi ólm heyra hverjir yrðu nýjustu straumar og stefnur þetta sinnið, hvaða litir yrðu inni og hvað ég hefði nú verslað fallegt inn. Jónsý var fyrsti starfsmaðurinn sem var ráðinn til vinnu þegar við hjónin ásamt meðeigendum stofnuðum Tekk Company árið 1998.

Fjársjóður frænku minnar eru síðan börnin hennar fjögur; Aggi, Hanna Lísa, Álfhildur og Óli sem hafa alltaf verið mér eins og viðbótar systkini og þar hef ég komið út í stórum plús.

Ég er afar þakklát fyrir að hafa fengið að hafa Jónsý frænku í lífi mínu með öllum hennar kostum og göllum. Líf mitt verður svo sannarlega tómlegra án hennar.

Hvíl í friði elsku frænka.

Þín

Telma.

Með nokkrum orðum langar mig að minnast vinkonu minnar Jónínu Olsen eða Jónsýjar eins og hún var kölluð á milli ættingja og vina. Leiðir okkar Jónsýjar lágu saman þegar við unnum saman á Sjúkrahúsinu í Keflavík á árunum 1972 til 1976, alla tíð síðan hefur verið góður vinskapur okkar á milli, þar hefur aldrei borið skugga á.

Jónsý var lífsglöð og skemmtileg, henni var eiginlegt að sjá björtu hliðarnar á lífinu þó svo að það léki ekki alltaf við hana. Hún var ekki að velta fyrir sér hindrunum daglegs lífs, hún sá möguleikana frekar en hindranirnar.

Dæmi þess er að eitt skipti sem oftar hringir hún í mig og segir: „Vilt þú koma með mér í kvöldskóla Flensborgar, til að taka gagnfræðapróf? Langar þig ekki til að vera ljósmóðir?“

Svar mitt var að það væri svo en ég þyrfti að vera heima við og fylgja börnunum eftir í námi. Þá sagði hún: „Var mamma þín ekki alltaf heima, en þú tókst ekki gagnfræðanám?“ Þar með vorum við komnar í gagnfræðanámið. Þessi vetur tengdi okkur enn betur saman.

Í annað skipti dreif hún okkur hjónin með sér til Benidorm á Spáni, með mömmu sinni og fleira góðu fólki. Þar geislaði hún og heillaði unga sem aldna.

Ekki er allt upptalið þar sem hún sannfærði okkur um að tækifærin væru við hvert fótmál. Nú var það gönguferð um Hornstrandir. Við bundum á okkur bakpokann og þrömmuðum með Jóneyju og fleira skemmtilegu fólki.

Þó svo að gleði væri ein lyndiseinkunn hennar hafði hún fleiri góða kosti. Hún var með ríka réttlætistilfinningu og stéttarvitund og minnti mig reglulega á að margt mætti vera betra í kjörum og aðstæðum þeirra sem verr eru settir í samfélaginu. Hún gat líka talað af reynslu eftir að hún missti heilsuna fyrir nokkrum árum.

Hún lét líka verkin tala þegar hún upplifði að á sér og sínum væri brotið. Hún fór með yngsta barn sitt til Svíþjóðar í grunnskólanám þegar hún upplifði ekki stuðning við hann hér heima. Hún lifði að sjá þann ávöxt þroskast. Sá maður er nú í vor útskrifaður með BA-próf í hagfræði frá Háskóla Íslands.

Góðar minningar um góða vinkonu lifa.

Ég vill votta börnum hennar og aðstandendum öllum mína samúð.

Svo er því farið:

Sá er eftir lifir

deyr þeim sem deyr

en hinn dáni lifir

í hjarta og minni

manna er hans sakna.

Þeir eru himnarnir honum yfir.

(Hannes Pétursson.)

Sólveig Þórðardóttir.

Hún er farin Venný mín, símtalið sem ég var búin að bíða eftir í nokkra daga kom um hádegið 14. ágúst. Jónína Olsen eða Jónsý eins og hún var oftast kölluð hefur kvatt okkur allt of snemma, nýorðin 64 ára. Jónsý mín var búin að kljást við erfið veikindi allt of lengi. Það sem ég elskaði svo mikið við hana var hennar góða skap og hennar létta lund og yndislegi húmorinn sem hún hafði fyrir sjálfri sér og öðrum.

Fyrsta minning mín um Jónsý er við eldhúsborðið hjá Móu frænku, þá var ég 10 ára og hún 17 ára, ólétt með sígarettu, sítt hár í stuttu pilsi og mér fannst hún alger skvísa. Við áttum mörgum árum síðar eftir að verða góðar vinkonur og fullt af skemmtilegum minningum kemur upp í huga mér.

Undanfarna mánuði kom ég reglulega við hjá henni og dró hana fram úr rúminu. „Ég helli upp á“ sagði ég og beið róleg á meðan hún kom sér á fætur. Í dag sé ég hvað þetta voru dýrmætar stundir. Hún var óspör við að hrósa mér fyrir eitt og annað; mikið ertu fín Venný mín, varstu í klippingu, flottar augabrúnir, æ ég ætti að panta mér tíma, þarf að flikka aðeins upp á útlitið. Við töluðum um börnin hennar sem hún var svo stolt af, já og barnabörnin og tengdabörnin. Þegar líða tók á heimsóknirnar var ég farin að geispa og hún orðin miklu hressari. Svo þegar ég var alveg að sofna og sagðist ætla að koma mér sagði hún: „Hvað liggur þér á, er ég nú búin að soga úr þér alla orku?“ og hló sínum yndislega hlátri. Ég er ánægð með að hafa getað gefið henni þá orku sem hún dró úr mér, hefði svo gjarnan viljað geta gefið henni mikið meira af henni. Ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að kveðja hana og kyssa á ennið á henni á föstudeginum áður en hún kvaddi. Mikið á ég eftir að sakna hennar og er sorgmædd að hugsa til þess að við eigum ekki eftir að hittast yfir kaffibolla í Fífumóanum og spjalla um lífið, en við fáum okkur tíu dropa á öðrum stað á öðrum tíma síðar.

Elsku Óli minn, Aggi, Soffía, Hanna Lísa, Gilsi, Álfhildur, Maggi og öll barnabörnin, mínar dýpstu samúðarkveðjur til ykkar allra.

Ég kveð yndislega vinkonu með þessu ljóði.

Þó sólin nú skíni á grænni grundu

er hjarta mitt þungt sem blý,

því burt varst þú kallaður á örskammri stundu

í huganum hrannast upp sorgarský.

Fyrir mér varst þú ímynd hins göfuga og góða

svo fallegur, einlægur og hlýr

en örlög þín ráðin – mig setur hljóða

við hittumst ei aftur á ný.

Megi algóður Guð þína sálu nú geyma

gæta að sorgmæddum, græða djúp sár

þó kominn sért yfir í aðra heima

mun minning þín lifa um ókomin ár.

(Höf. ók.)

Venný.