Elín Björnsdóttir (Stella) fæddist 1. febrúar 1943 í Reykholti í Borgarfirði. Hún lést þann 8. ágúst 2016 á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi.

Foreldrar Stellu voru Margrét Jóhannesdóttir, f. 9. mars 1904 á Kópareykjum, d. 28. desember 1996, og Björn Guðlaugur Ólafsson, f. 14. nóvember 1912 að Sarpi í Skorradal, d. 1. október 1971. Systkini Stellu eru: Sveinn Grétar, f. 21. apríl 1945, Ólöf Björk, f. 29. maí 1946 og Jóhanna Guðrún, f. 5. desember 1949.

Stella giftist Þorbergi E. Þórðarsyni, f. 20. maí 1938 á Vegamótum Akranesi, þann 31. desember 1962. Saman eiga þau fimm börn, þau eru: 1) Sigurlín Þóra, f. 13. febrúar 1966. Maki: Ómar Þorsteinn Árnason. Börn þeirra eru: Elín María, Sindri Þór, Ómar Snær og Ásdís Eva. Börn Elínar Maríu eru Natalía Sól og Amanda Lív. 2) Elínborg Þóra, f. 13. febrúar 1966. Maki: Friðrik Jónsson. Börn þeirra eru: Inga Þóra, Andri Már, Kristján Alexander og Friðrik Þór. Barn Ingu Þóru er Viktor Breki. 3) Birna, f. 9. ágúst 1967. Börn hennar eru Engilbert Aron, Arnór Elís og Víkingur Geirdal. 4) Ingunn María, f. 28. mars 1973. Maki: Arnar Hjartarson. Börn þeirra eru Albert, Arnhildur og Elvar Þór. 5) Þórður, f. 21. desember 1974. Barn hans er Arna Rún.

Stella ólst upp að Varmalandi í Reykholti í Borgarfirði. Hún gekk í barnaskóla á Kleppjárnsreykjum og í gagnfræðaskóla í Reykholti. Í júlí 1958 fluttist hún til Akraness. Hún stundaði nám við Húsmæðraskólann á Varmalandi veturinn 1958-1959. Um tíma starfaði hún á símstöðinni á Akranesi. Árin 1978-1980 starfaði hún á skrifstofu Rafveitu Akraness. Árin 1980-1985 starfaði hún í byggingavöruverslun Sigurjóns og Þorbergs. Stella hóf nám við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi vorið 1985 og tók þar undirbúningsnám fyrir sjúkraliðamenntun. Þá stundaði hún nám við Sjúkraliðaskólann árin 1985-1987. Árið 1985 hóf Stella störf við Sjúkrahúsið á Akranesi og starfaði þar sem sjúkraliði fram til ársins 2006. Stella var mjög virk í félagsstarfi alla tíð, starfaði meðal annars um tíma með Björgunarfélagi Akraness, og um áratugaskeið tók hún þátt í starfi Oddfellowstúkunnar Ásgerðar á Akranesi.

Útför Stellu verður gerð frá Reykholtskirkju í Borgarfirði í dag, 20. ágúst 2016, klukkan 13. Jarðsett verður á Akranesi.

Eins skrítið og það nú er, verður það líklega grænbaunasúpan hennar ömmu Stellu sem mun halda minningu hennar helst á lofti hjá börnum, tengdabörnum, barnabörnum og barnabarnabörnum. Hana lærði hún að búa til í Húsmæðraskólanum á Varmalandi í lok sjötta áratugarins, en einhvern veginn varð það svo að þessi súpa varð að föstum lið í hátíðarmat – og þá sérstaklega jólamatnum – í Heiðargerðinu á Akranesi. Við þennan grænbaunasúpusið ólust þau upp systkinin og tengdabörn öll voru innvígð í þennan sið í upphafi kynna. Hjá okkur öllum er grænbaunasúpan hennar ömmu Stellu órjúfanlegur hluti jólanna og verður svo um ókomna tíð.

Í rúman aldarfjórðung höfum við hjónin mestmegnis búið erlendis, fyrst við nám, en síðar störf. Stella var dugleg að heimsækja okkur, sérstaklega til Bandaríkjanna og Danmerkur. Naut hún sín alltaf vel og skoðunar- og strandferðir stundaðar eftir kostum. Í bæði skiptin sem við bjuggum í Washington DC kom hún í heimsóknir á heitasta tíma á sumri og fannst það meiriháttar.

Hitann og rakann sem okkur hinum fannst stundum nóg um sagðist hún vera hæstánægð með, enda „alin upp í gróðurhúsi“ að eigin sögn, þegar við spurðum hvernig hún þyldi við á sólbekknum í mesta hitanum.

Á þeim tæpu fimm árum sem við bjuggum á Akranesi, 2006 til 2011, var Stella dugleg að kíkja í heimsókn og við sömuleiðis til hennar. Á þeim tíma var hún komin á eftirlaun, en var eins og alltaf dugleg við gönguferðir og útiveru. Gekk hún gjarnan frá Heiðargerðinu til okkar á Grundirnar og fannst yfirleitt fráleitt að vera boðið bílfar heim, sama hvernig viðraði.

Veikindi hennar höfðu vissulega áhrif á hennar líf, en ekki drógu þau úr dugnaðinum, nema síður væri. Við munum minnast hennar með söknuði og sérstaklega hugsa til þeirra skemmtilegu stunda sem við áttum saman nú í síðustu heimsóknum hennar til okkar í Bandaríkjunum sumrin 2011, 2012 og 2013. Það var mikið spjallað, flissað og hlegið og aldeilis notið lystisemda í mat og drykk.

Elínborg og Friðrik

(Ella og Frissi).