Afar vel hefur veiðst í Ytri-Rangá og Hólsá í sumar. Á fimmtudag höfðu 5467 laxar komið þar á land nærri 1300 fleiri en á sama tíma í fyrra. Áin er opin til 23. október og haldi áfram sem horfir gæti ársveiðin farið yfir tíu þúsund laxa, að sögn Jóhannesar Hinrikssonar, framkvæmdastjóra.
„Það hefur verið góð og jöfn dreifing í sumar og veiðin hefur verið á bilinu 74 til 144 laxar á dag,“ segir Jóhannes. Veiðin síðustu vikuna var 803 laxar.
Mikið af laxi
Mikið er af laxi í ánni, einkum þó á efri svæðunum en Jóhannes segir að lax sé enn að ganga í ána, bæði smár og stór. Þannig veiddist 77 sentimetra löng, grálúsug hrygna í vikunni.Veður hefur verið hagstætt til veiði í Ytri-Rangá í sumar, þurrt og bjart og því hefur verið lítið um slý, sem stundum hefur gert veiðimönnum erfitt fyrir. Mest hefur veiðst á litlar flugur, Collie Dog eða Frances. Leyft verður að veiða á maðk og spún í september og segir Jóhannes að þá megi búast við háum veiðitölum, sérstaklega þó ef haustgöngur koma.
Veiði í Ytri-Rangá hefur tvisvar farið yfir tíu þúsund laxa á síðasta áratug. Árið 2008 veiddust 14.315 laxar í ánni og er það Íslandsmet. Árið eftir, 2009, veiddust 10.749 laxar. Í fyrra var ársveiðin 8803 laxar en árið 2014 komu aðeins 3063 laxar á land. Leyft er að veiða á 20 stangir í ánni.
Góð veiði víða
Vel veiddist í laxveiðiám landsins í síðustu viku, einkum fyrir sunnan og vestan. Næst mest hefur veiðst í sumar í Miðfjarðará. Þar veiddust 339 laxar í vikunni og alls hafa komið þar 3005 laxar á land en leyft er að veiða á 10 stangir. Þá hafa 2627 laxar komið á land í Eystri-Rangá, þar af 146 í vikunni.gummi@mbl.is