Um mörg mál má rífast til eilífðarnóns, af því að engin mælanleg niðurstaða er fáanleg úr þeim. Hvort átti til dæmis að tengja Ísland umheiminum 1904 með sæsíma eða loftskeytum? Þó eiga sum mál sér lyktir, mælanlega niðurstöðu.

Um mörg mál má rífast til eilífðarnóns, af því að engin mælanleg niðurstaða er fáanleg úr þeim. Hvort átti til dæmis að tengja Ísland umheiminum 1904 með sæsíma eða loftskeytum? Þó eiga sum mál sér lyktir, mælanlega niðurstöðu. Eitt þeirra er deilan sumarið 2009 um Icesave-samninga Svavars Gestssonar. Von bráðar kom í ljós, að Bretar og Hollendingar voru reiðubúnir að veita miklu betri kjör en Svavari tókst að útvega. Síðan kom líka í ljós, að óþarfi var að semja, því að íslenska ríkið var ekki skuldbundið að alþjóðalögum til að greiða Bretum og Hollendingum neitt vegna málsins.

Annað deilumál á sér lyktir. Árið 1984 birti Svanur Kristjánsson ritgerð í Sögu , „Kommúnistahreyfingin á Íslandi: Þjóðlegir verkalýðssinnar eða handbendi Stalíns?“ Svanur kvað ágreining um þetta standa milli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur (sem hafði skrifað prófritgerð í sagnfræði um myndun kommúnistahreyfingarinnar) og Þórs Whiteheads sagnfræðiprófessors. Svanur skrifaði, að skoðun Þórs — að íslenskir kommúnistar hefðu verið handbendi Stalíns — væri „mikil einföldun, nánast hálfsannleikur“.

Svanur taldi eitthvað til í báðum skoðunum. En skjölin, sem fundust í Rússlandi, eftir að Ráðstjórnarríkin liðuðust í sundur sjö árum síðar, tóku af öll tvímæli um það, að íslenskir kommúnistar voru frá upphafi handbendi Stalíns. Þeir fengu ótal ráð og ærið fé frá Kremlverjum og fóru aldrei út af línunni að austan. Þeir sendu að minnsta kosti 23 Íslendinga í byltingarþjálfun í leyniskólum í Moskvu. Þegar Stalín skipaði þeim að vinna á móti jafnaðarmönnum, gerðu þeir það. Þegar Stalín skipaði þeim að vinna með jafnaðarmönnum, gerðu þeir það. Og það, sem meira var: Arftaki kommúnistaflokksins, Sósíalistaflokkurinn, þáði alla sína tíð verulegt fé ekki síður en ráð frá Moskvu.

Rússnesku skjölin sýndu náin tengsl milli íslenskra kommúnista og Kremlverja allt frá 1920, þegar fyrstu Íslendingarnir sóttu kommúnistaþing í Moskvu, og fram að endalokum Sósíalistaflokksins 1968. Skoðun Þórs reyndist rétt, þótt fyrir 1991 hefði hann aðeins getað stuðst við ófullkomnar heimildir, meðal annars munnlegar. Skoðun Svans reyndist hins vegar hálfsannleikur.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is