Orðið „þórðargleði“, þegar menn skemmta sér yfir því, að illa gangi, rataði inn í íslenska tungu, eftir að séra Árni Þórarinsson notaði það í ævisögu sinni um Snæfellinginn, sem ískraði af hlátri, þegar rigndi svo fyrir norðan, að öll hey...

Orðið „þórðargleði“, þegar menn skemmta sér yfir því, að illa gangi, rataði inn í íslenska tungu, eftir að séra Árni Þórarinsson notaði það í ævisögu sinni um Snæfellinginn, sem ískraði af hlátri, þegar rigndi svo fyrir norðan, að öll hey grotnuðu þar niður. Slíkrar þórðargleði gætti hjá sumum íslenskum vinstri mönnum eftir bankahrunið í október 2008. Hleyptu þeir af stað tveimur fyrirlestraröðum í Háskóla Íslands, þar sem hælast skyldi um eftir fall kapítalismans.

Önnur fyrirlestraröðin var undir heitinu „Endurkoma róttækninnar“ í maí og júní 2009. Boðið var upp á erlendu fyrirlesarana Michael Hardt, Antonio Negri, Peter Hallward og Chantal Mouffe. Skipulögðu Magnús Þór Snæbjörnsson og Viðar Þorsteinsson átakið. Fyrirlesararnir voru ekki af lakara taginu. Negri var handtekinn 1979 og dæmdur í 30 ára fangelsi á Ítalíu fyrir aðild að hryðjuverkum, en flýði eftir fjögurra ára fangavist til Frakklands 1983 og sat aðeins í stofufangelsi á Ítalíu 1997-2003. Hann var síðan einn af ráðgjöfum Hugos Chávez, forseta Venesúela. „Koma marxistanna til landsins var styrkt af Evrópu unga fólksins, heimspekideild og hugvísindasviði Háskóla Íslands, Félagi áhugamanna um heimspeki, Nýlistasafninu og Listaháskóla Íslands,“ segir í Stúdentablaðinu í apríl 2009.

Hin fyrirlestraröðin var undir heitinu „Eilífðarvélin: Uppgjör við nýfrjálshyggjuna“ í september til nóvember 2010. Tilefnið var útkoma samnefnds greinasafns. Fyrirlesarar voru innlendir og erlendir, Kolbeinn Stefánsson, Stefán Ólafsson, Helga Dittmar, Sveinbjörn Þórðarson, Ragna Benedikta Garðarsdóttir, Kristinn Már Ársælsson, Annadís G. Rúdólfsdóttir, Salvör Nordal, Magnús Sveinn Helgason, Giorgio Baruchello og Stefán Snævarr. Að fyrirlestraröðinni stóðu Öndvegissetrið Edda, sem starfar með styrk úr opinberum sjóðum, og Þjóðmálastofnun, sem Stefán Ólafsson rekur í Háskóla Íslands með styrk úr opinberum sjóðum. Tveir fyrirlesaranna, Salvör og Magnús Sveinn, höfðu sinnt verkefnum fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið.

Skemmst er frá því að segja, að hvorug fyrirlestraröðin hafði hin minnstu áhrif. Vinstri stefna hefur ekki eflst eða endurnýjast, hvorki á Íslandi né annars staðar á Vesturlöndum. Kapítalisminn hefur að sönnu reynst óstöðugri en menn höfðu vonað, en flestum líst samt betur á hann en stjórnarfarið í Venesúela, sem einn fyrirlesarinn hafði lagt á ráðin um. Eftir rigningarnar stytti upp. Þórður er hættur að hlæja.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is