Þuríður Björnsdóttir fæddist á Kleppustöðum í Strandasýslu 9. október 1934. Hún lést 23. september 2016.

Foreldrar hennar voru Björn Sigurðsson frá Grænanesi í Strandasýslu, f. 21. júní 1894, d. 5. september 1980, og Elín Sigurðardóttir frá Geirmundarstöðum í Selárdal í Strandasýslu, f. 26. febrúar 1898, d. 24. ágúst 1974. Systkini Sigríðar voru í aldursröð: Ingólfur, Sigurmundur, Þórdís, Sigrún Guðbjörg, Sigurlaug, Sigurður Kristján, Guðmundur, Ólöf Sesselja, Arndís, Þuríður og Skúli.

Þuríður giftist Kára Kristjánssyni og þau eignuðust eina dóttur, Elínu Helgu, og hún á tvö börn.

Útförin fór fram 5. október 2016.

Dal einn vænan ég veit,

verndar Drottinn þann reit.

Allt hið besta þar blómgast hann lætur.

Þar er loftið svo tært,

þar er ljósblikið skært.

Þar af lynginu er ilmurinn sætur.

(Hugrún)

Mig langar til að minnast elsku systur minnar í fáum orðum og þakka henni fyrir samfylgdina. Þuríður var næstyngst af 12 systkinum á Kleppustöðum. Hún var mikil persóna, bæði dugleg og fjörmikil.

Systkinahópurinn var mjög samrýndur í uppvextinum og það var oft mjög fjörugt á stóru heimili. Það var mikið sungið og spilað á hljóðfæri. Þuríður spilaði á harmónikku og gítar og hafði líka einstaklega góða söngrödd. Þegar hún fór á húsmæðraskólann á Ísafirði var þar starfandi kór og hún var fengin til að syngja einsöng með kórnum og var hvött til að læra söng.

Þegar Þuríður var unglingur flutti hún með okkur Guðmundi bróður að Stakkanesi til að aðstoða aldraða móðurforeldra okkar. Þuríður var mjög uppátækjasöm og skemmtilega stríðin og þar styrktust enn betur systraböndin sem tengdu okkur alla tíð. Mér þótti mjög erfitt að kveðja systur mína þegar ég flutti frá Stakkanesi til að stofna mitt eigið heimili.

Þuríður stofnaði heimili á Akureyri og bjó þar til æviloka.

Þuríður var alveg einstaklega dugleg kona og ósérhlífin. Hún var líka listræn og málaði mjög fallegar myndir.

Mig langar til að þakka henni fyrir að taka á móti og hýsa dóttur mína þegar hún hóf nám í Menntaskólanum á Akureyri og þakka henni fyrir að halda okkur myndarlega veislu við útskrift hennar.

Okkur Þuríði þótti ákaflega vænt hvorri um aðra og töluðum mikið saman í síma í gegnum árin.

Ég kveð elsku systur mína með kærri þökk fyrir samfylgdina og geymi í huga mér minningu um kæra systur.

Guðbjörg S. Björnsdóttir

frá Kleppustöðum.