Sigurbjörn Þorkelsson
Sigurbjörn Þorkelsson
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson: "Látum engan og ekkert verða til að ræna okkur voninni. Mætti hún lýsa okkur fram veginn og vera okkur leiðarljós til framtíðar og eilífs lífs."

Til að komast af í okkar harða og miskunnarlausa heimi þurfum við á von að halda. Því ekkert gerist án vonar. Hún er drifkraftur lífsins. Án hennar getum við bara pakkað saman og gleymt þessu.

Þegar við förum að heiman vonumst við til að skila okkur aftur heim, ekki satt? Þegar við förum að sofa á kvöldin vonumst við til að vakna aftur morguninn eftir. Þegar síminn hringir og við svörum megum við eiga von á að heyra rödd í símanum. Þegar við leggjum fé í banka vonumst við til að ávaxta það og geta síðan tekið það út aftur. Þegar við kaupum hús vonumst við að sjálfsögðu til þess að það haldi vatni og vindum. Þegar við kaupum bíl vonumst við til þess að hann komi okkur á milli staða án þess að bila. Þegar klukkan er eitt megum við eiga von á því að hún verði tvö eftir sextíu mínútur. Þannig vonum við að tíminn haldi áfram og að við séum ekki stöðugt að upplifa okkar síðasta.

Ekkert er þó fyrir fram öruggt. Og þannig getur vonin sannarlega brugðist okkur. Þannig togast vonin í lífi okkar stöðugt á við kvíðann. Samt höldum við af stað út í daginn í góðri trú og í von um að allt fari nú vel.

Vonin vekur bjartsýni og eykur þrek og þor

Vonin vekur bjartsýni og eykur þrek og þor en kvíðinn dregur úr okkur og vekur ótta. Öll þurfum við á von að halda, annars komumst við ekki af.

Barn sem leikur sér þarf á von að halda. Ungt fólk sem fetar sig til sjálfstæðis þarf á von að halda. Ástfangið fólk þarf á von að halda. Öll hjónabönd þurfa á von að halda. Uppalendur þurfa á von að halda. Sjúkir þurfa á von að halda. Deyjandi fólk þarf á von að halda og syrgjendur þurfa á von að halda. Og þannig mætti lengi halda áfram.

Ef við töpum voninni er fátt eftir. Vonin umlykur okkur á bak og brjóst, er allt í kringum okkur. En hún er spurning um hugarfar. Spurning um val, lífsafstöðu. Tækifærin eru allt í kringum okkur. En stundum sjáum við ekki ljósið sem umlykur okkur í bak og fyrir fyrr en myrkrið skellur á.

Enginn vonar það sem er öruggt

Enginn vonar það sem hann sér, getur þreifað á eða veit fyrir víst. Því að það eru staðreyndir. Eitthvað sem liggur fyrir og þarf ekki að deila um. Trúin er hins vegar fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem ekki er hægt að sjá.

Höldum því fast í trúna svo við missum ekki vonina og þar afg leiðandi ekki sjónar á lífinu.

Látum engan og ekkert verða til að ræna okkur voninni. Mætti hún lýsa okkur fram veginn og vera okkur leiðarljós til framtíðar og eilífs lífs.

Trú, von og kærleikur

Gleymum ekki að það er aðeins þrennt sem virkar sem varanlegur drifkraftur í þessum heimi. Það eru trúin, vonin og kærleikurinn. Og þeirra er reyndar kærleikurinn mestur. Keppum því að því að vera kærleiksríkir vonarneistar í umhverfi okkar sem láta stjórnast af ávöxtum kærleikans, Umhyggju og samstöðu, uppörvun og jákvæðni, auðmýkt, gjafmildi og þakklæti.

Og hverju ætli við höfum svo á því að tapa að fela Guði framtíð okkar og líf. Í von um að hann muni vel fyrir sjá?

Vonin fleytir okkur langt en jafnvel þó hún bregðist okkur og sé við það að þrjóta, þá tekur höfundur og fullkomnari lífsins við og ber okkur á sýnum kærleiksríku friðar örmum í gegnum skaflana dimmu á áfangastað og alla leiðina heim. Þegar allt um þrýtur og yfir lýkur.

Guð gefi okkur öllum hamingjuríkt líf og að gleðjast í voninni.

Með friðar- og kærleikskveðju.

Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.