Bretar, Írar, Danir og Norðmenn höfðu árangurslaust sótt um aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu (nú ESB) árin 1961-1962, en tóku aftur upp þráðinn sumarið 1970.

Bretar, Írar, Danir og Norðmenn höfðu árangurslaust sótt um aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu (nú ESB) árin 1961-1962, en tóku aftur upp þráðinn sumarið 1970. Nokkrum klukkutímum áður en þessar þjóðir sóttu á ný um aðild, setti Efnahagsbandalagið reglugerð um fiskveiðar, þar sem var kveðið á um jafnan aðgang allra aðildarþjóða að öllum fiskimiðum. Tilgangurinn var augljós: Hin væntanlegu aðildarríki réðu yfir miklu stærri fiskimiðum en ríkin á meginlandinu, sem höfðu stofnað bandalagið. Nú skyldi hremma þessi fiskimið.

Forsætisráðherra Breta, Edward Heath, vildi ekki gera fiskveiðar að úrslitaatriði og samdi um tíu ára aðlögunarfrest: Breskir fiskimenn fengju einir að veiða innan sex mílna landhelgi og að hluta út að tólf mílum. Þessi frestur hefur verið framlengdur reglulega síðan. En aðrar aðildarþjóðir fengu aðgang að fiskimiðum Breta út að 200 mílum, þar á meðal Spánverjar og Portúgalir, sem gengu í bandalagið 1986.

Opinber skjöl, sem birt voru 2001 að liðnum þrjátíu árum, sýna, að Heath og samningamenn Breta vissu vel, að þeir voru að afsala sér fiskimiðum í framtíðarlögsögu landsins og að aðild myndi valda breskum sjávarútvegi erfiðleikum. En þeir þögðu um það. Þeir vissu líka, að Bretar hefðu ekki full yfirráð yfir 12 mílna landhelginni, en sögðu annað heima fyrir. Í einkaviðræðum var haft eftir Heath, að fórna mætti breskum sjávarútvegi, enda störfuðu þar ekki nema 22 þúsund manns.

Ein aðalástæðan til þess, að Norðmenn felldu aðild haustið 1972 (og aftur 1994), var fiskveiðistefna Efnahagsbandalagsins. Hún olli því líka, að Grænland gekk úr bandalaginu 1985, eftir að Danir höfðu veitt landinu sjálfstjórn. Nú eru Bretar að ganga úr ESB og eignast fiskimið sín aftur. Þeir horfa til íslenska kvótakerfisins af áhuga og jafnvel aðdáun.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is