Einar G. Pétursson
Einar G. Pétursson
Eftir Einar G. Pétursson: "Stenst ritið Jón lærði og náttúrur náttúrunnar svo vel fræðilegar kröfur, til að hægt sé að tilnefna það til íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðirita?"

Í bókina Guðamjöður og arnarleir, Safn ritgerða um eddulist , sem kom út 1996 undir ritstjórn Sverris Tómassonar skrifaði Viðar Hreinsson (= VH) greinina: „Tvær heimsmyndir á 17. öld. Snorra Edda í túlkun Jóns Guðmundssonar lærða (1574-1658).“ Þeir fengu hjá mér uppskriftir af tveimur ritum Jóns lærða, Samantektum um skilning á Eddu og Tíðfordrífi. Þeir treystu sér ekki til að rannsaka pappírshandrit Snorra Eddu frá 17. öld.

Í greininni „Tvær heimsmyndir“ er mikil áhersla lögð á að Jón hafi verið óskólagenginn og hugmyndir hans verið verulega frábrugðnar hugmyndum lærðra. Gunnar Karlsson prófessor í heiðursriti Lofts Guttormssonar og Nanna Ólafsdóttir magister í tímaritinu 19. júní 1968 könnuðu uppruna stúdenta og var niðurstaða beggja að allt að 40 prósent íslenskra stúdenta voru úr bændastétt. Um Jón lærða segir (VH. 124): „var nánast utangarðsmaður í félagslegum og fræðilegum skilningi.“ Þetta stenst ekki því að upp úr 1620 samdi hann Grænlands annál fyrir lærdómsmenn á Hólum og var í sambandi við Skálholtsmenn.

Jón lærði var einn þeirra sem unnu að fræðastörfum fyrir Brynjólf Sveinsson biskup í Skálholti og skrifaði m.a. fyrir hann Tíðfordríf og ævikvæðið Fjölmóð. Árið 1998 kom frá minni hendi doktorsritgerðin Eddurit Jóns Guðmundssonar lærða . Þar er um upphaf fræðastarfsemi á 17. öld, yfirlit um ævi Jóns og ritstörf. Í bókinni voru gefnar út Samantektir um skilning á Eddu og skýringar Jóns á Brynhildarljóðum, sem voru samdar fyrir Brynjólf biskup. Af ofangreindum ástæðum var ekki getið rannsókna VH; Jón var ekki einangraður frá lærðum mönnum og hann var ekki fræðilegur utangarðsmaður.

Haustið 2016 birtist þykk bók eftir VH, Jón lærði og náttúrur náttúrunnar. Í Morgunblaðinu 12. jan. 2017 birtist dómur um bók VH eftir Sölva Sveinsson með fyrirsögninni: „Hverju getur einn maður áorkað?“ Í dómnum segir Sölvi að Jón lærði hafi „dvalist um skeið á Skarði á Skarðsströnd við skriftir, var um hríð á Hólum í Hjaltadal hjá Guðbrandi biskupi og skrifaði um Grænland“. Við þetta verður að gera athugasemdir, því að hér er alveg ný viska og verður fyrst fjallað um dvölina á Skarði.

Á s. 158 er sagt, að Skriftamál Ólafar ríku og Solveigar Björnsdóttur séu hafðar eftir þeim, en þau eru sannanlega eldri (sbr.: Helga Kress, Óþarfar unnustur, 2009. 70–92.). Að vísu er fyrirvari: „ef marka má syndajátningar“. Ekki er mjög brýn þörf á að halda vafasömum sögusögnum á lofti. Á s. 162 er mynd úr lögbókarhandriti í Stokkhólmi, Perg. 4:o nr 25, „sem Jón skrifaði að öllum líkindum á Skarði“. Skreytingin í handritinu er ólík skreytingum í handritum, sem Jóni hafa til þessa verið eignuð. Á s. 164 er talað um prentaðar grasabækur á Skarði, en ámælisvert er að ekki eru nefnd rit sem Hjörleifur Guttormsson bendir á (Í spor Jóns lærða. 2013. s. 95.). Ekki verður séð hvaða heimildir VH hafði er hann fullyrti að Jón lærði hafi á Skarði komist í skrifaða grasabók Jóns biskups Halldórssonar (d. 1339). Annars er Jón lærði eina heimildin um að Jón biskup hafi skrifað lækningabók, en í slíkum bókum var margt um grös og steina.

Á s. 308-10 er talað um störf Jóns lærða á Hólum 1623, en fyrir því nefnir VH enga heimild, enda traust heimild ekki til um að hann hafi nokkru sinni komið þar. Þetta er greinilega tómur hugarburður. Einnig er sagt að sama ár hafi Jón lærði læknað Guðbrand Þorláksson Hólabiskup af eyrnaverk, en hann vissi aðeins hvaða læknisráð voru notuð í veikindum biskups (Í spor Jóns lærða, s. 19.). Þessar „viðbætur“ VH leiða eðlilega til þeirrar niðurstöðu hjá Sölva, það „er ótrúlegt að sjá hve miklu Jón Guðmundsson kom í verk“.

Þegar gripið er niður í bók VH sjást ótrúlega víða undarlegar fullyrðingar og skulu nú tekin örfá dæmi af mörgum. Jóni lærða eru eignuð með misjöfnum fyrirvörum ansi mörg handrit sem engar aðrar heimildir en hjá VH eru um að hann hafi skrifað. Þar á meðal er fyrrnefnt Perg. 4:o nr 25. Einnig er að nefna Galdrabókina í AM. 434 d, 12mo, sem stungið er upp á s. 335 að Jón hafi skrifað á Rifi, en rithöndin á kverinu er viðvaningslegri en svo að það geti staðist. Á s. 444-445 eru hvalamyndir með dönskum skýringartextum og talið að Jón lærði hafi teiknað þær í Kaupmannahöfn 1637, en vitað er að Brynjólfur biskup Sveinsson var spurður um hvali 1647 og sendi teikningar af hvölum og lýsingar af þeim til Kaupmannahafnar (EGP. Eddurit, I, 129). Nú er spurningin: eru hér komnar hvalamyndirnar sem Brynjólfur sendi 1647? Á s. 298-300 er Vestfjarðakort, sem er reynt með fyrirvörum að tengja Jóni lærða, „Þó má það teljast nokkuð líklegt“. Sé kortið frá honum komið hefur það verið gert áður en Jón var á Skarði, því að óhugsandi er að hann hafi getað hugsað sér Gilsfjörð svona þröngan. Loks er s. 521-26 giskað á að Brynjólfur Sveinsson biskup hafi tekið Jón lærða með sér suður í Skálholt eftir vísitasíu á Austfjörðum 1641 til að skrifa handritið Perg. 4:o nr 3, Codex Sparfvenfeldianus, sem til þessa hefur verið talið skrifað fyrir Þorlák Skúlason Hólabiskup. Þetta er svipuð hugmynd og þegar Jón lærði átti að hafa lokið við Grænlands annál á Hólum 1623, en fyrir hvorugu eru neinar heimildir. Augljóst er að í riti VH er mikil tilhneiging til að eigna Jóni lærða margt með veikum rökum. Á s. 394 er talað um Gensvar Ara Magnússonar sýslumanns við Hugrás Guðmundar Einarssonar gegn Fjandafælu Jóns lærða. Þar stendur: „ekki er vitað nákvæmlega hvenær né hve víðreist það gerði í afskriftum.“ Eina heila handrit Gensvars er frá 1768 og fjórðungur þess er í bréfabók Eggerts Björnssonar skrifað um 1634 (EGP. Eddurit, I, 116-17.). Á s. 497-500 er sagt að ritið Um ættir og slekti eftir Jón lærða sé aðeins til í einu handriti, en til annað gamalt handrit (EGP. Eddurit, I, 57-58.)

Heimildarýni er verulega ábótavant hjá VH og eru góð dæmi hér að ofan um hve djarfur hann er að eigna Jóni lærða skrif handrita sem áður höfðu verið eignuð öðrum. Á s. 363-64 getið sagnar Jóns Ólafssonar úr Grunnavík (1705-1779) um að séra Guðmundur Einarssonar á Staðarstað hafi um 1627 hafi bannfært Jón lærða. Þótt þarna segi „Hvað sem hæft er í þessum sögum“, þá er samt talin ástæða til að vitna í Sighvat Grímsson Borgfirðing (d. 1930) sem heimild um þessi „samskipti“ Jóns lærða og séra Guðmundar. Hvaða rök eru fyrir því að Sighvatur geti verið trúverðug heimild um samskipti þessara manna? Ekki er hægt að stilla sig um að nefna að á sömu síðu er stafréttur titill á handriti. Þar er sérhljóðsmerki, þ.e. strik sett yfir „u“ til að greina það frá „n“, oft prentað sem „ú“.

Mjög er þeim haldið á lofti Jóni lærða og Ole Worm, en engu er getið að þeir koma við sögu almerkustu íslensku fornrita. Elsta heimild um Eddu kennda við Sæmund fróða er í Grænlands annálum Jóns lærða og eftir því fara lærdómsmenn á 17. öld. Ekki finnst þess getið, að lærdómsmaðurinn Ole Worm sá um útgáfu danskrar þýðingar á Heimskringlu 1633 og Brynjólfur Sveinsson aðstoðaði Worm þar við skýringar á Skáldatali (EGP, Eddurit, I, 31.)

Hér hafa verið taldar upp djarfar tilgátur sem eiga sér varla nokkra stoð, ýmislegt vantar og heimildarýni er víða mjög ábótavant. Þá vaknar spurningin stenst ritið Jón lærði og náttúrur náttúrunnar svo vel fræðilegar kröfur, til að hægt sé að tilnefna það til íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðirita?

Höfundur er rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.