Viðurkenningar daglegt brauð Íslenski bakarinn Ágúst Felix Gunnarsson í Boston hefur komið eins og eldibrandur inn í lágreista brauðmenningu Bandaríkjanna og gerir stormandi lukku með nýbökuðum heilsubrauðum sínum.

Viðurkenningar daglegt brauð Íslenski bakarinn Ágúst Felix Gunnarsson í Boston hefur komið eins og eldibrandur inn í lágreista brauðmenningu Bandaríkjanna og gerir stormandi lukku með nýbökuðum heilsubrauðum sínum. Karl Blöndal brá sér í bakaríið og bragðaði á kræsingunum.

Boston. Morgunblaðið.

AÐ ER ekki oft sem eigendur nýs fyrirtækis geta hugsað með hlýhug til framleiðslu helsta keppinautarins. Ef um er að ræða hið svokallaða Undrabrauð (Wonderbread, skrásett vörumerki), sem er mest selda brauð í Bandaríkjunum, kann málið að skýrast. Undrabrauð er þeim eiginleika gætt að það skemmist ekki, þótt það gleymist uppi í skáp svo mánuðum skiptir og það bragðast eins og svampur. Undrabrauð er dæmigert fyrir það brauðmeti sem er á boðstólum í Bandaríkjunum. Hvort sem bandarísk brauð eru bökuð úr hveiti, heilhveiti, súrdeigi eða höfrum, eru þau mjúk og lin og aldur þeirra óræður.

Mitt í þessari lágreistu amerísku brauðmenningu sáu Ágúst Felix Gunnarsson, Matt Carberry og Tim Turner sér leik á borði. Fyrir tæpu ári opnuðu þeir bakarí og kaffihús í Cambridge, sem er næsti bær við Boston. Síðan hafa þeir fengið viðurkenningu fyrir að vera meðal fjögurra bestu nýju fyrirtækjanna í Cambridge, besta bakaríið í Cambridge og besta bakaríið í Boston.

Klukkan er ekki orðin sjö á nóvembermorgni, en samt er viðskiptavinina farið að drífa að. Á glerhurð stendur að það sé opið frá klukkan 6.45 til 9.00, en oft eru dyrnar opnaðar klukkan sex. Þegar inn er komið má greina lágan söng Bjarkar Guðmundsdóttur, rjúkandi kaffiilm í bland við lykt af nýbökuðu brauði ber að vitum og undir glerinu í kökuborðinu liggja snúðar og vínarbrauð. Þar fyrir aftan eru hillur hlaðnar brauði og virðast tegundirnar skipta tugum.

"Þetta hefur verið ævintýri líkast," sagði Ágúst í samtali við Morgunblaðið. "Við bjuggumst aldrei við því að verða valdir með besta bakaríið í Boston, en það er gaman að fá þessar viðurkenningar eftir alla þá vinnu, sem liggur að baki."

Viðurkenning frá viðskiptaráði

Viðurkenningarnar hafa komið úr þremur áttum. Mánaðarblaðið Improper Bostonian valdi Carberry's besta bakaríið í Boston, bæjarblaðið Cambridge Chronicle valdi það besta bakarí í Cambridge og Viðskiptaráð Cambridge, sem er það næststærsta í Massachusetts-ríki á eftir Viðskiptaráði Boston, útnefndi Carberry's meðal fjögurra bestu nýju fyrirtækjanna í Cambridge.

"Þetta kom mér algerlega í opna skjöldu," sagði Tim Turner, sem sér um fjármál bakarísins, um viðurkenningu viðskiptaráðsins. "Við vorum í hópi með fyrirtækjum, sem höfðu starfað lengur, eða allt að tvö ár."

Í lok október var besta nýja bakaríið valið í hófi, sem viðskiptaráðið hélt, og Ágúst, sem allajafna hnoðar deig og bakar frá miðnætti framundir hádegi, fékk eitt af fáum tækifærum til að fara í sparifötin. Hann líkti hófinu, þar sem besta fyrirtækið, besti fjölmiðillinn og fleiri fyrirtæki voru heiðruð, við vasaútgáfu af afhendingu Óskarsverðlaunanna.

Matsölustaðurinn House of Blues reyndist hlutskarpastur í flokki nýrra fyrirtækja. Að baki honum standa gamanleikarinn Dan Aykroyd og sömu aðilar og reka Hard Rock Café. Hin fyrirtækin tvö voru California Dinner Kitchen, sem er hluti af veitingastaðakeðju, sem nær um öll Bandaríkin, og kráin og brugghúsið John Harvard, sem rekið er af tveimur viðskiptafræðingum úr Harvard Business School.

Fyrirtæki urðu að uppfylla ákveðin skilyrði til að vera valin og sagði Tim að mikilvægt hefði verið að þremenningarnir sköpuðu atvinnu í Cambridge og legðu sitt af mörkum til samfélagsins meðal annars með því að gefa heimilislausum og sjúklingum brauðið, sem gengur af í lok hvers dags.

Carberry's er miðja vegu á milli tveggja þekktustu háskólanna á Boston-svæðinu, Harvard og Massachusetts Institute of Technology, og myndi ekki teljast í fínasta hverfi borgarinnar. Þar er hins vegar mikið af skrifstofum og einnig eru stúdentarnir góðir viðskiptavinir.

"Við völdum Boston af því að hún er evrópskasta borgin í Bandaríkjunum," sagði Ágúst og bætti við að Matt hefði búið hér fyrir fjórum árum. "Þetta er skemmtileg borg og mikið af ungu fólki. Staðsetningin réðist af því að fermetrarnir voru dýrari annars staðar."

Ágúst og Matt höfðu unnið saman í Washington við að reka bakarí og opna búðir, sem versluðu með brauð, en fyrirtækið var í eigu annarra og þeir vildu verða eigin herrar. Þar við bættist Tim, sem er með próf í viðskiptafræði.

"Stefnan var að virkja þá strauma, sem umfjöllun um heilsumál hefur komið af stað," sagði Ágúst. "Við fylgjum þeirri línu, notum mikið súrdeig og bökum heilsubrauð, tólfkornabrauð og fleira, eða 48 tegundir í allt. Hér notum við engin gerviefni og það laðar að viðskipti."

KR-brauðið bíður

Í sumar bakaði Ágúst einnig heimsmeistarabrauð í tilefni af heimsmeistarakeppninni í knattspyrnu, en hann er enn ekki farinn að baka KR-brauð, þótt hann eigi ætt til; faðir hans, Gunnar Felixson, og föðurbræður, Bjarni og Hörður Felixsynir, léku með KR á gullaldarárum knattspyrnufélagsins í Vesturbænum.

"KR-brauðið verður ekki sett í ofninn fyrr en við verðum Íslandsmeistarar," sagði Ágúst og glotti.

Ekki er allt jafn heilsusamlegt í bakaríinu; það eru heldur engin gerviefni í snúðunum, kókoskúlunum og napóleonshöttunum, svo eitthvað sé talið upp af sætabrauðinu.

Hvort sem það er heilsuæðið eða sætabrauðsfíknin sem lokkar, hefur aðsókninni vart linnt frá því bakaríið var opnað. Það er "brjálað" að gera í hádeginu, sagði Ágúst og á morgnana um helgar er hvert sæti skipað. Sagði hann að daglega kæmu milli 800 og 1.000 manns í bakaríið.

Fjallað hefur verið um Carberry's í nánast öllum tímaritum og dagblöðum Boston og í hvert skipti sem bakaríið hefur komist í blöðin hefur aðsóknin tekið kipp. Stundum hefur þó skort nákvæmni í blaðaskrif. Skömmu eftir að bakaríið var opnað fylltist skyndilega allt af Írum sem heimtuðu írskt sódabrauð. Í ljós kom að skeikað hafði einum staf í blaðagrein. Blað í Cambridge hafði skrifað að bakarinn væri frá Írlandi og hugsuðu írskir útlagar sér gott til glóðarinnar að fá brauðmeti að heiman.

Það má teljast athyglisvert að bakaríið hefur aldrei verið auglýst. Markaðssetningin hefur verið fólgin í umfjöllun fjölmiðla og umtali viðskiptavina. Og að sjálfsögðu hafa einnig verið gerðir stuttermabolir með Carberry's-merkinu. Ekkert bandarískt fyrirtæki með sjálfsvirðingu getur án þeirra verið.

Milli 40 og 50 manns vinna í Carberry's og sagði Ágúst að sennilega væri um 30 full störf að ræða. Þeir hafa verið beðnir um að baka fyrir aðrar verslanir og kaffihús, en bakaríið ræður ekki við meira og þeir hyggjast að minnsta kosti ekki færa út kvíarnar fyrr en eftir eitt eða tvö ár, þegar tekist hefur að saxa á stofnkostnaðinn.

Það hefur fjölgað í bakaríinu og brauðin virðast hverfa ofan í poka viðskiptavinanna jafnóðum og þau koma út úr ofnunum. Nokkrir sitja við borð með kaffibolla og "croissant" og lesa dagblöðin. "Dunandi brunandi brimaldan grá" syngur nú Bubbi Morthens.

- Ef til vill væri Piparkökulagið betur við hæfi.

ÁGÚST Felix í bakaríinu

Hróður bakarísins berst víða og mikið um það fjallað í fjölmiðlum í Boston.