Gunnar Gunnarsson fæddist í Reykjavík 20. ágúst 1963. Hann lést 29. apríl 2017.

Foreldrar hans voru Gunnar Guðmundsson, f. 19. nóvember 1920, d. 1. nóvember 1990, og Jóhanna Gunnarsdóttir, f. 23. ágúst 1921, d. 12. janúar 1985. Bræður hans samfeðra eru Jóhann Gunnarsson, f. 1945, d. 2010, Guðmundur Gunnarsson, f. 1948, og Sverrir Grímur Gunnarsson, f. 1977. Gunnar kvæntist 18. júlí 1992 Chandriku Gopalpur Chandrashekar, f. 3. desember 1963 á Indlandi. Foreldrar hennar eru Chandrashekar Gopalpur Kalegowda, f. 27. febrúar 1917, d. 20. september 2003, og Sharada Bommanakeri Mallegowda, f. 16. ágúst 1931. Börn þeirra eru Ísarr Nikulás Gunnarsson, f. 18. október 1993, og Jóhanna Preethi Gunnarsdóttir, f. 26. desember 1994.

Gunnar ólst upp í Hlíðunum. Hann útskrifaðist úr Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1985. Hann lauk BS gráðu í viðskiptafræðum árið 1989 og síðan meistaraprófi við University of South Carolina árið 1993. Gunnar stofnaði ásamt vinum sínum Jón Bakan 1988. Hann stofnaði og rak ásamt eiginkonu sinni Austur-Indíafjelagið árið 1994 og Austurlandahraðlestina árið 2003, auk þess sem hann stundaði viðskipti erlendis. Gunnar var meðlimur hjólreiðafélagsins Fáka.

Útför Gunnars fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 11. maí 2017, klukkan 15.

Til foldar er fallinn æskuvinur minn, Gunnar Gunnarsson.
Við kynntumst á fornum slóðum í Hlíðunum þar sem við slitum barnsskónum og urðum óaðskiljanlegir á menntaskólaárunum í MH og höfum verið æ síðan.  Gleði táningsáranna og öll skemmtilegheitin í kring um skólann varð okkur veganesti inn í lífið en á þeim árum myndaðist vinahópur,  okkar bræðra sem aldrei skugga hefur fallið á.  Við fórum eftir menntaskóla allir í sitthvora áttina en fagnaðarfundir okkar innanlands sem utan urðu okkur öllum alltaf kærir.

Tónlistaráhugi fylgdi okkur og bókmenntaáhugi okkar varð alger á tímabili og eftir Sigtún á Suðulandsbraut, í klakaböndum yfir í Hollywood og aftur gengum við inn í Hlíðar, annað hvort inn í Hörgshlíð eða Engihlíð, í okkar foreldrahús.  Horfðum á Skonrokksþætti Þorgeirs og síðar Eddu sem við söfnuðum, líklega fyrsta kynslóð tónlistarmyndbanda en við vorum búnir að safna á spólur, helling.  Hófst svo lesturinn:  Laxness, Camus, Óli, Hemingway, Jóhann, Steinn, Dagur, Þórbergur og fornsögurnar.  Þetta lásum við hver fyrir annan svo forráðamenn okkar sem við mættum fullum skilningi af, blöskraði ekki.  Þá voru tímar magnara, háreistra bassahátalara og plötuspilara með nálum, sem skiptu miklu máli og gátu orðið sérstök umræða í smástund.  Ljóðalestur tók við græjunum, svo ekki yrði kvartað og allir nutum við þess enda nóg til lestrar á okkar heimilum.  Við strákarnir vorum alltaf velkomnir heima hjá hver öðrum. Erum enn og svo leið tíminn.   Eiginkonur okkar bundust vinaböndum, börnin komu hvert á fætur öðru og úr varð stórfjölskylda og oft glatt á hjalla.  Lífið er hverfult og skin og skúrir urðu í okkar lífi eins og gengur og gerist á bestu bæjum en þær djúpu rætur sem vinskapurinn hafði skotið varð okkur ávallt gagnkvæmur stuðningur ef á móti blés.  Gunni bað mig um að fara með sér í ökuferð um Strandir, sumarið 2011, í leit að reka.  Hann hafði fengið hugmynd um að láta smíða húsgögn úr íslenskum reka, frábær hugmynd en bændur við strendurnar allar austur á land sögðu okkur að lítið væri um reka við Íslandsstrendur nú á dögum.  Einkavæðingin í Sovétríkjunum hefði gert það að verkum að sögunarmyllurnar þar eystra væru farnar að spara.  Þetta var ógleymanleg ferð um landið okkar, hittum æskuvin okkar Kristján á Vestfjörðum, Einar æskuvinur okkar slóst í för þegar við renndum í gegnum Akureyri, hittum margt skemmtilegt fólk en bændurnir á Ströndum voru okkur minnisstæðastir enda ræddum við oft síðar okkar einstöku viðkynni við þá og þeirra fólk.
Því miður var þetta síðasta ferð okkar stráka, afar eftirminnileg.  Gunnar heygði baráttu við krabbamein sem að lokum sigraði góðan dreng og felldi.  Manni verður hugsað til allra þeirra vandamála sem mannskepnan kallar yfir sig með orðum sínum og athöfnum sem verða hjóm eitt þegar maður horfir á vin sinn veikjast af alvarlegum sjúkdómi og deyja langt fyrir aldur fram.  Það verður manni hugvekja um hversu lífið er dýrmætt, fjöregg sem verður að gæta, því ekkert í heimi hér er sjálfsagt, á einni nóttu getur allt breyst.  Fornt orðatiltæki segir frá manni sem langaði í allt mögulegt þegar hann var ungur og hraustur en aðeins eitt eftir að hann missti heilsuna.  Gunnar var æðrulaus í veikindum sínum og í stað þess að sýna vinum sínum biturleika vegna örlaga sinna sýndi hann okkur sínar bestu hliðar á þessum erfiða tíma í lífi sínu og fjölskyldu hans.  Samkennd, tryggð og ást flæddu þá frá hjarta þessa góða drengs.  Hann setti sjálfan sig ekki í fyrsta sæti heldur fjölskyldu sína og vini en það sýndi mér og sannaði hvílíkt gull af manni hann var.
Gunnar kynntist eiginkonu sinni Chandriku á háskólaárum þeirra í Bandaríkjunum og þurftu þau að berjast fyrir ást sinni því íslenskur maður hentaði ekki indverskri konu að mati tengdafjölskyldu Gunnars.  Þau gáfu sig ekki enda Chandrika staðföst kona sem stendur á sínu þó andstreymi mæti.  Að lokum var ráðahagurinn samþykktur, brúðkaup haldið með pomp og pragt bæði hér heima á Íslandi og á Indlandi.  Gunnar skapaði sér fljótt sess í hjarta tengdaforeldra sinna sem eftir það voru mjög ánægð með tengdason sinn.  Þau hjónin unnu mikið saman við kaupsýslu og veitingarekstur og hafa um árabil rekið afar góð veitingahús og blómum bætt í flóru matargerðarlistar hér á landi.  Chandrika var manni sínum stoð og stytta í veikindum hans, svo traust að vakið hefur aðdáun allra sem til þekkja.  Þrautgóðir á raunastund eru orð notuð um íslenska sjómenn en orðin má einnig nota um fólk sem bregst ekki sínum á raunastund og er frú Chandrika þar fremst meðal jafningja í mínum augum.  Ég horfi á eftir mínum kæra og nána vini með miklum söknuði, söknuði sem mun mér aldrei hverfa.  Loksins þegar blessuð börnin eru orðin sjálfum sér nóg og sér fyrir endann á baslinu kveður maðurinn með ljáinn dyra.  Þetta ætti að vekja okkur enn og aftur til umhugsunar að ekkert er sjálfsagt og tíminn sem við tiplum tám okkar ofar foldu er dýrmætur, tími sem við eigum að njóta vinskapar við alla menn.  Gunni var vinur vina sinna, tryggðartröll, alla sína ævi og fyrir það er skuld mín rík.
Frá mínum dýpstu hjartarótum votta ég Chandriku, Ísarri og Jóhönnu alla mína samúð þegar eiginmaðurinn, faðirinn og vinurinn Gunnar Gunnarsson kveður okkur í hinsta sinn.

Þorsteinn Kristmannsson.

Það er erfitt að kveðja góðan vin og félaga. Það er enn erfiðara að hugsa til eiginkonu og barna sem sem núna verða að sjá framtíðina án hans. Þetta er sérstaklega erfitt þar sem jafn góður maður og hann Gunnar Gunnarsson var. Hans er sárt saknað.

Við Gunnar urðum miklir mátar fljótlega eftir að hann kom eftir Verslunarskólapróf yfir til okkar í MH. Þar voru fyrir fjölmörg okkar sem bjuggum í Hlíðunum og Hvassaleitinu og í raun var hann einungis að koma heim.

Auðvitað vissi ég hver Gunni Gunn var, það vissu allir í Hlíðunum. Við vorum áður í Hlíðarskóla ekki á sama ári, því ég er 1. desember maður en hann í febrúar hinum megin við áramótin. Ég komst að því  eftir komu hans í MH hver hann er, hvern innri mann hann bar, sem var  sterkur og ljúfur persónuleiki. Við urðum vinir. Ég í Grænuhlíð hann í Hörgshlíð og þannig kynntumst við fjölskyldum hvors annars. Báðir lifðum við í heimi einstæðra mæðra og báðir fengum það frelsi sem þarf til að læra hver maður er, gera okkar mistök en halda alltaf á.

Ég fluttist til Flateyrar eftir nám í Háskólanum, þar sem ég hafði verið öll sumur og öll jól, hann fór til Bandaríkjanna. Þegar hann flutti heim var ég fluttur til Úganda. En alltaf þegar við hittumst föðmuðumst við að hans hætti. Þétt faðmlag með kossum.  Hendur á vanga hvors annars. Það sem maður fékk var hlýja og styrkur. Svo var brosað mikið og hlegið. Maður er mans gaman og Gunnar var alltaf sá sem dró að sér aðra með sinni hlýju.

Báðir giftumst við erlendum konum. Báðar að sjálfsögðu frábærar því hvorugur okkar var eðlilegur. Gunnar var einstakur og giftist einstakri konu sem hans var von og vísa. Chandrika kom til Íslands og hafði lítið fyrir því að gleðja alla vini Gunna og á sama tíma gleðjast yfir því hver hún er. Harðdugleg, hjartarhlý,  já alvöru kvenskörungur sem hefur enga þörf fyrir óræðni.  Allir vinir Gunnars gerðu Chandriku að sínum vini því að það var svo auðvelt og gott. Þau voru samstígandi heild sem öfund var að.

Við eignuðumst börn á svipuðum tíma og við stjórnuðum okkar eigin fyrirtækjum.  Ég kom örlítið að sumum af hans verkefnum en ánægðastur var ég með að hann réði samstarfsmann minn frá Flateyri, að minni áeggjan, til að sjá um þeirra bókhald þegar Austur-Índíafjelagið tók sín fyrstu spor og er þar enn.

Það var alltaf auðséð hvað það var sem hann var stoltastur af og það var hans fjölskylda. Börnin, Jóhanna og Ísarr sem nú þurfa nú að ganga í spor föður síns og hans ástkæra eiginkona sem var hans lífsförunautur .

Framtíð þeirra Jóhönnu og Ísarrs er björt því þau eru vel gerð, hlý og sterk eins og faðir þeirra heitinn og móðir.

Já það er erfitt að kveðja góðan vin. Í raun er ég með þessum fáu orðum að ekki að kveðja Gunnar. Hann fer hvergi því sú notalega minning sem ég ber um þann einstaka mann mun lifa með mér það sem eftir er.  En það er gríðarlegur söknuður í mínu hjarta sem og ég veit allra sem honum kynntust.

Ég og Lesley og dætur mínar, Katherine og Jóhanna þökkum kynnin af Gunnari Gunnarsyni og vottum Chandriku, Jóhönnu og Ísarri okkar dýpstu samúð. Hann var einstaklega góður maður.

Takk fyrir allt kæri Vinur. Það voru forréttindi að eiga þig að sem vin.

Kristján Erlingsson, Uganda.