Kórea er kölluð land morgunkyrrðarinnar. En þar hefur vopnagnýr oft verið algengari. Japanir lögðu landið undir sig 1910 og gerðu að nýlendu. Reyndu þeir að halda niðri tungu þjóðarinnar og rótgróinni menningu.

Kórea er kölluð land morgunkyrrðarinnar. En þar hefur vopnagnýr oft verið algengari. Japanir lögðu landið undir sig 1910 og gerðu að nýlendu. Reyndu þeir að halda niðri tungu þjóðarinnar og rótgróinni menningu. Eftir seinni heimsstyrjöld hernam Stalín Norður-Kóreu og setti þar til valda liðsforingja úr Rauða hernum af kóreskum ættum, Kim Il-sung. Bandaríkjamenn hernámu suðurhlutann. Með samþykki Stalíns og Maós réðst Kim Il-sung á suðurhlutann 1950. Blóðugt stríð hófst, sem hefði eflaust lokið með fullum sigri Bandaríkjamanna og suður-kóreska hersins, hefðu Kínverjar ekki sent fjölmennt herlið á vígstöðvarnar, og tók þá við þrátefli. Vopnahlé var gert 1953. Stundum hermir veruleikinn eftir listinni: Virðast valdsmenn í Norður-Kóreu gera sitt besta til þess, að mannlíf þar líkist því, sem Orwell lýsir í skáldsögunni Nítján hundruð áttatíu og fjögur .

Það var fróðlegt að sækja ráðstefnu Mont Pèlerin-samtakanna í Suður-Kóreu í maí 2017 og heyra innlenda ráðstefnugesti roskna rifja upp, hversu örsnauðir þeir voru undantekningarlaust í lok Kóreustríðsins, en í því féll ein og hálf milljón manna og 40% iðnaðar í landinu voru lögð í rústir. Framfarir í Suður-Kóreu hafa verið svo stórstígar síðan, sérstaklega eftir 1961, að gengur kraftaverki næst. Árið 1950 voru lífskjör hin sömu í báðum hlutum Kóreu, en nú eru þau 20 sinnum betri í suðurhlutanum. Árið 1950 var landsframleiðsla á mann aðeins 1% af því, sem er að meðaltali í OECD-löndum, árið 1970 var hún komin upp í 14% og árið 2016 í 85%. Fyrstu árin eftir stríð voru Suður-Kóreumenn háðir aðstoð Bandaríkjamanna, en þegar leið að því 1961, að hún minnkaði, gripu þeir til þess ráðs að efla útflutningsatvinnuvegi með öllum ráðum, þar á meðal skattaívilnunum og lánsfjárfyrirgreiðslu. Vanræktu þeir þó ekki landbúnað, en jörðum var skipt upp milli bænda strax eftir stríð. Leiða má rök að því, að hinn öri hagvöxtur í landinu hafi verið þrátt fyrir ríkisafskipti, en ekki vegna þeirra. Ein skýringin er samleitni þjóðarinnar, sjálfsagi og samstaða, önnur, að Kóreumenn urðu að beygja sig undir aga hins alþjóðlega markaðar til að vera samkeppnisfærir. Nú er hagkerfi Suður-Kóreu hið ellefta stærsta í heimi.

Í norðurhlutanum bíða kommúnistar hins vegar færis að láta illt af sér leiða. Þar féllu hundruð þúsunda í hungursneyð árin 1994-1998, og önnur hundruð þúsunda draga fram lífið í þrælakistum Kim-ættarinnar. Kórea er eins og tilraunastofa sjálfrar sögunnar um kommúnisma og kapítalisma.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is