Gísli Guðni Hall
Gísli Guðni Hall
Eftir Gísla Guðna Hall: "Vinnubrögð við gerð skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um þátttöku þýsks banka í kaupum á hlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf. voru óforsvaranleg."

Meginniðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis, sem skipuð var einum manni, til þess að rannsaka þátttöku þýska bankans Hauck & Aufhäuser í kaupum á tæplega 46% hlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf. á árinu 2003, var að Ólafur Ólafsson hefði blekkt íslenska ríkið um þátttöku téðs þýsks banka. Nefndin kynnti þetta í beinni útsendingu, án þess að Ólafi hefði verið kynnt skýrslan fyrst. Allt frá því að nefndin var skipuð lá leynt og ljóst fyrir að skýrslan var gerð í þessum tilgangi, það var beinlínis tilefnið fyrir skipun nefndarinnar.

Við málsmeðferð nefndarinnar setti Ólafur fram ítrekaðar óskir um aðgang að gögnum nefndarinnar og að hann fengi andmælarétt. Nefndin hirti ekkert um þessar óskir og naut Ólafur því ekki réttlátrar málsmeðferðar.

Markmið stjórnsýslu- og réttarfarslaga er að tryggja réttaröryggi

Á árinu 1993 voru sett stjórnsýslulög hér á landi. Þau hafa að geyma almennar reglur um rannsókn og málsmeðferð í stjórnsýslunni, svo sem reglur um rétt málsaðila til aðgangs að gögnum máls, andmælarétt og rannsóknarregluna. Allt eru þetta grundvallarreglur er snerta réttaröryggi borgaranna og þær hafa innbyrðis tengsl. Aðgangur að gögnum er forsenda fyrir andmælarétti, og mál getur ekki talist nægilega upplýst samkvæmt rannsóknarreglu án þess að sjónarmið málsaðila liggi skýr fyrir.

Ekki er úr vegi að rifja upp tilurð og markmið stjórnsýslulaganna. Færðar voru í letur meginreglur, sem höfðu mótast í stjórnsýslunni án þess að vera skráðar. Í athugasemdum með frumvarpi að lögunum kemur fram að meginmarkmið þeirra sé að koma á festu í stjórnsýsluframkvæmd og treysta réttaröryggi þeirra, sem þurfa að reiða sig á stjórnvöld. Ennfremur að veita stjórnvöldum nauðsynlegt aðhald með skýrum málsmeðferðarreglum. Vönduð stjórnsýsla er til þess fallin að leiða til upplýstra og vel ígrundaðra ákvarðana. Í stjórnsýslurétti er kennt að ákveðin fylgni sé milli geðþóttaákvarðana og skeytingarleysis um vandaða málsmeðferð. Augljós brot gegn málsmeðferðarreglum eru vísbending um ómálefnalega stjórnsýslu. Vönduð stjórnsýsla skapar aftur á móti traust málsaðila til þess er fer með stjórnsýsluvald.

Við meðferð mála fyrir dómstólum gilda ennþá ítarlegri málsmeðferðarreglur, þar sem grundvallarmannréttindi sem felast í réttaröryggi eru tryggð. Þessum reglum öllum er ætlað að samrýmast 70. gr. stjórnarskrárinnar. Þar segir að öllum beri réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur eða um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óhlutdrægum dómstóli. Hið sama kemur fram í 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, en þar segir að þegar kveða skal á um réttindi og skyldur manns, eða um sök sem hann er borinn um refsivert brot, skal hann eiga rétt til réttlátrar og opinberrar málsmeðferðar innan hæfilegs tíma fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli.

Sett lög um rannsóknarnefndir

Árið 2011 voru sett lög um rannsóknarnefndir, nr. 68/2011, sem fela í sér heimild Alþingis til að setja á fót rannsóknarnefnd til að rannsaka tiltekin mál. Í 10. gr. laganna er ákvæði með fyrirsögninni Réttarstaða einstaklinga fyrir rannsóknarnefnd. Ef verkefni rannsóknarnefndar er að „gefa álit sitt á því, hvort til staðar kunni að vera lögfræðileg atriði sem gætu varpað ljósi á hvort tilefni sé til þess að þar til bær stjórnvöld kanni grundvöll ábyrgðar einstaklinga eða lögaðila“ á sá, sem til rannsóknar er, rétt á aðstoðarmanni, sbr. 1. mgr. 10. gr., hann skal eiga aðgang að gögnum málsins, sbr. 2. mgr. 10. gr. og andmælarétt, sem í 3. mgr. 10. gr. er útfærður þannig að þeim, sem til rannsóknar er, „skuli, innan hæfilegs frests, gert kleift að tjá sig um þá málavexti og lagatúlkun sem rannsóknarnefnd íhugar að fjalla um í skýrslu sinni“ . Ef verkefni nefndarinnar er skilgreint öðruvísi, nánar tiltekið að það sé eingöngu að „afla upplýsinga og gera grein fyrir málsatvikum í máli“, eiga þessi réttindaákvæði ekki við samkvæmt orðum sínum og ef gagnályktað er frá þeim. Lögin segja ekkert um réttarstöðuna í því tilviki.

Í frumvarpi með lögunum um rannsóknarnefndir er fjallað um réttaröryggissjónarmið, og að rannsóknarnefnd megi ekki fela dómsvald.

Niðurstaða

Í tilvikinu sem hér er til umfjöllunar var réttaröryggi Ólafs ekki tryggt með nokkrum hætti, þrátt fyrir að hagsmunir hans af því hvernig um hann yrði skrifað hafi verið augljósir. Svona málsmeðferð verður ekki lýst öðruvísi en sem pólitískum skrípaleik, sem skrifa verður bæði á ófullkomna lagasetningu og afstöðu þess sem fór með rannsóknarvaldið í umrætt sinn.

Höfundur er hæstaréttarlögmaður og setti fram ítrekuð erindi f.h. Ólafs Ólafssonar til rannsóknarnefndar Alþingis meðan skýrslugerðin stóð yfir. ggh@law.is