Í Svíþjóð þurfa öldurhús að sækja um sérstakt dansleyfi. Ef leyfið vantar og bargestir bresta í dans á eigandi knæpunnar von á sektum.

Í Svíþjóð þurfa öldurhús að sækja um sérstakt dansleyfi. Ef leyfið vantar og bargestir bresta í dans á eigandi knæpunnar von á sektum.

Átti að vera löngu búið að nema þetta eldgamla dansbann úr gildi, en virðist hafa fallið milli þilja hjá sænska þinginu. Að sögn fréttavefjarins TheLocal.se gerðist það síðast í sumar að bareigandi komst í kast við lögin eftir að gestir tóku upp á því að dilla sér í leyfisleysi.

Öllu alvarlegri fréttir bárust frá Sádi-Arabíu í vikunni um að lögreglan hefði handtekið pattaralegan fjórtán ára gutta sem tók upp á því að dansa macarena-dansinn fyrir framan bíla sem biðu á rauðu ljósi. Auðvitað tók vinur hans sprellið upp á myndband og setti á netið. Í Sádi-Arabíu gilda strangar reglur um dans og macarenan ekki vel séð.

Þessar fréttir minna á hversu varasamt það er að reyna að stýra hegðun fólks með boðum og bönnum. Ef stjórnvöld byrja að banna er ómögulegt að segja til um hvar þau láta staðar numið. Einn daginn bönnum við eitthvað sem þykir sjálfsagt og skynsamlegt að banna og þann næsta erum við farin að handtaka uppátækjasama krakka fyrir að skekja á sér mjaðmirnar.

Verst hvað það er freistandi að banna. Sérstaklega þegar bannið snertir ekki mann sjálfan.

Það myndi ekki bitna á mér ef Alþingi ákvæði strax á morgun að gera dans ólöglegan á Íslandi. Ég hef ekki gaman af að dansa, sérstaklega ekki þegar aðrir sjá til, og þegar ég reyni að hreyfa mig í takt við tónlist þykir það hvorki þokkafult né listrænt.

Og alltaf má réttlæta bannið. Hvað um þá sem fara of geyst á dansgólfinu og togna í baki? Hvað um slagsmálin á dansstöðunum? Hvað um diskóið? Hvað um börnin?

Það býr lítill Sádi innra með okkur Íslendingum. Við erum nefnilega svo gjörn á að vilja banna stórt og smátt. Í dag vilja t.d. margir gera rafrettur útlægar. Aðrir ráða ekki við þá tilhugsun að matvöruverslanir fái að selja bjór og vín. Ekki má leyfa fólki að selja blíðu sína, og sáralítil stemning er fyrir því að lögleiða hassið.

En næst þegar einhver leggur til að banna (yfirleitt af góðum og einlægum ásetningi) ættum við að hugleiða hvort það er ekki óhætt að leyfa fólki að gera eins og því sýnist, svo fremi að ekki sé gengið á ríkari rétt annarra.

Við ættum líka að líta í eigin barm og skoða hvað það er sem við gerum öll, jafnvel oft í viku, sem er kolólöglegt úti í heimi. Ef ríkið bannar eitthvað í dag, hvað er þá langt í að það banni eitthvað sem skiptir okkur máli?

Dæmin sanna að bannfýsninni eru engin takmörk sett. Sum lönd banna dans, önnur vín, enn önnur tyggjó, og Kinder-egg. Hefurðu gaman af Dire Straits? Ekkert „Money for Nothing“ fyrir þig í kanadísku útvarpi, því lagið þykir móðga samkynhneigða.

Eins og sést verður lífið fljótt afskaplega leiðinlegt þegar við byrjum að banna. ai@mbl.is

Ásgeir Ingvarsson