Kvikmyndaframleiðandinn Sigurjón Sighvatsson finnur alveg fyrir því að hann er að eldast. Hann reynir að stilla ferðalögum í hóf.
Kvikmyndaframleiðandinn Sigurjón Sighvatsson finnur alveg fyrir því að hann er að eldast. Hann reynir að stilla ferðalögum í hóf. — Morgunblaðið/Eggert
Sigurjón Sighvatsson kvikmyndaframleiðandi hefur stundað hugleiðslu í tæpa þrjá áratugi og segir að hún sé honum í dag jafn lífsnauðsynleg og að bursta tennurnar og fara í sturtu. Sigurjón veit að heilsan skiptir miklu máli, sérstaklega þar sem hann er ekkert að yngjast.

Marta María

martamaria@mbl.is Þegar við ræðum hugleiðsluna segir Sigurjón að eiginkona hans, Sigríður Þórisdóttir, sé mikill áhrifavaldur þegar kemur að hugleiðslunni því hún byrjaði að hugleiða 1978, töluvert áður en hann fékk áhuga. Það var svo leikstjórinn David Lynch, sem er Íslendingum að góðu kunnur, sem leiddi Sigurjón inn á hugleiðslubrautina.

„Það tók mig mjög langan tíma að byrja í hugleiðslunni. Sigga konan mín er búin að hugleiða í tæplega 40 ár en ég var alltaf of „bissí“ til þess,“ segir hann og hlær.

„Hún byrjaði að hugleiða 1978 þegar Íslenska íhugunarfélagið var stofnað en það var ekki fyrr en 1990 sem ég fór að hugleiða þegar ég var að vinna með David Lynch. Hann hvatti mig áfram en á þessum tíma hafði ég strítt við síþreytu og varð að finna ráð til að koma mér upp úr rúminu,“ segir Sigurjón og bætir við:

„Hugleiðslan veitir manni fyrst og fremst ótrúlega slökun og er þar af leiðandi líklega ein besta leiðin til að minnka stress. Eins og margbúið er að sanna er stress líklega mesti skaðvaldur ónæmiskerfisins. Um leið og það veikist er skrattinn laus og alls kyns kvillar eiga auðveldara með að ná tökum á manni,“ segir hann.

Eftir að Sigurjón kynntist hugleiðslunni fór hann að hugleiða reglulega og hefur gert allar götur síðan. „Í dag eru komin 27 ár.“

Þegar Sigurjón er spurður hvernig hann hugleiði og hvað hann noti mikinn tíma til þess segir hann það misjafnt.

„Í dag hugleiði ég á hverjum degi alla vega einu sinni á dag. Og svo þegar aðrir álagspunktar bætast við reyni ég að balansera það með viðbótarhugleiðslu,“ segir hann.

„Ég hugleiði til dæmis í hverri einustu flugferð. Þegar maður er kominn í ákveðna æfingu í hugleiðslunni er hægt að hugleiða hvar sem er. Ég þarf ekki frið og ró til þess. Þegar ég flýg frá Los Angeles til Íslands til dæmis hugleiði ég tvisvar til þrisvar á leiðinni,“ segir Sigurjón.

Sumir kvarta undan því að þeir sofni alltaf í hugleiðslu. Sigurjón segir að það sé ekkert að því. Það megi alveg sofa. „Ef þú sofnar í hugleiðslu er líkaminn að segja þér að hann sé þreyttur. Þá er ekkert að því að sofa. Það skiptir bara máli að kunna að komast út úr hugleiðslunni án þess að hrökkva upp,“ segir hann.

Árið 2009 endurlífguðu Sigurjón og David Lynch Íslenska íhugunarfélagið því þá langaði að gera eitthvað gott fyrir Ísland.

„Ég sagði við Lynch að Ísland væri mjög andlegt land og hann væri að missa af miklu að hafa ekki komið hingað. Hann sagðist þá geta komið eftir fimm daga og við rigguðum upp fundi í Háskólabíói. Á fundinn komu yfir 1.000 manns og var þetta vel kynnt í fjölmiðlum. Lynch hefur víða skírskotun sem listamaður og hugsuður. Þar að auki er hann með sína góðgerðarstofnun, David Lynch Foundation, sem gaf peninga til þess að við gætum farið af stað með krafti. Við leigðum húsnæði við Þórunnartún og fengum kennara til að kenna hugleiðslu. Þetta var næstum því frítt til að byrja með,“ segir Sigurjón.

Sigurjón segir að frá því Íslenska íhugunarfélagið var stofnað hafi um 2.000 manns lært að hugleiða, þar af 1.500 manns síðustu sjö ár. Aðspurður hvers vegna þetta hafi orðið svona vinsælt segir Sigurjón ástæðurnar margar.

„Það var margt sem spilaði inn í eins og til dæmis atvinnuleysi sem gerði það að verkum að fólk hafði meiri tíma. Og fólk sá að það er ekki allt fengið með efnislegum gæðum. Það streymdi að fólk og við vorum á tímabili með sex kennara. Það er svo sem ekkert skrýtið því það verður mikil breyting í huga fólks þegar það fer að hugleiða,“ segir hann. Í dag rekur Sigurjón Íslenska íhugunarfélagið ásamt fjölskyldu sinni. Hann segir að þetta sé hugsjónastarf.

Sigurjón er í góðu formi, bæði andlega og líkamlega. Þegar ég spyr hann út í líkamsrækt segir hann að það sé mikilvægt að hreyfa sig.

„Ég hef ekki verið nægilega duglegur að synda upp á síðkastið, það er sundlaug í garðinum hjá okkur í Los Angeles, en það stendur til bóta. Ég hef stundað jóga og svo passa ég upp á að gera alltaf morgunteygjurnar mínar. Og labba tíu þúsund skrefin daglega.“

Sigurjón segir að það hafi oft reynst honum erfitt að finna jafnvægi þegar vinnan er annars vegar. „Ég hef alltaf unnið mikið og hef þurft að finna jafnvægi því kannski hefur vinnan verið mitt dóp. Það er ekkert að því að vinna ef það er skemmtilegt og þú nærð að sameina það einhverju öðru,“ segir hann.

Finnur þú fyrir því að þú ert að eldast?

„Já, ég reyni að ferðast minna því það er álag að vera á miklum ferðalögum. Og ég hef einnig reynt að minnka vinnuna því ég vil vinna minna. Svo hef ég reynt að passa vel upp á mig. Ég hef borðað heilsusamlegan mat og ef ég dett í það að borða franskar kartöflur eða eitthvað slíkt er ég fljótur að snúa til baka. Lífið þarf að vera í jafnvægi,“ segir hann.