Kaffitár býður m.a. upp á „pop-up“ kaffihús. „HAF stúdíó hannaði fyrir okkur færanlegt kaffihús sem hefur allt það sem kaffibarþjónninn þarf til að galdra fram ljúffengan kaffibolla,“ segir Sólrún.
Kaffitár býður m.a. upp á „pop-up“ kaffihús. „HAF stúdíó hannaði fyrir okkur færanlegt kaffihús sem hefur allt það sem kaffibarþjónninn þarf til að galdra fram ljúffengan kaffibolla,“ segir Sólrún. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kaffikrókurinn er staðurinn þar sem starfsfólk miðlar upplýsingum og styrkir tengslin. Þegar velja á kaffi í vélarnar má prufa að halda kosningu á meðal starfsfólksins eftir að hafa leyft því að smakka nokkrar tegundir.

Gott kaffi getur gert kraftaverk, bæði fyrir starfsandann og afköst. Ljúfur sopinn hressir, veitir fólki smá orkuskot og er afsökun til að taka sér örlítið hlé frá amstri dagsins. „Einn viðskiptavinur okkar sagði mér að það að skipta úr góðu kaffi yfir í vont hefði svipuð áhrif á starfsandann og að lækka laun starfsmannanna um 10%,“ segir Sólrún Björk Guðmundsdóttir, sölu- og markaðsstjóri Kaffitárs.

Ekki þarf að kynna Kaffitár fyrir lesendum, en auk þess að reka vinsæl kaffihús býður fyrirtækið upp á kaffilausnir fyrir fyrirtæki og stofnanir. Hjá Kaffitári má leigja eða kaupa kaffivélar af öllum stærðum og gerðum og fá dýrindis kaffi sem fullnægir hörðustu kröfum um bragðgæði. Kaffitár er með umboð fyrir vélar frá framleiðendum í heimsklassa og 85% af öllu kaffi sem fyrirtækið flytur inn koma frá kaffibændum sem stjórnendur Kaffitárs þekkja persónulega og heimsækja með reglulegu millibili.

Auk þess að leigja stakar kaffivélar má taka á leigu færanlegt kaffihús með kaffibarþjóni:

„Sú þjónusta nýtur vaxandi vinsælda hjá okkur og panta fyrirtæki þá „pop-up“-kaffihús við sérstök tilefni. HAF stúdíó hannaði fyrir okkur færanlegt kaffihús sem hefur allt það sem kaffibarþjónninn þarf til að galdra fram ljúffengan kaffibolla og hittir oft í mark t.d. þegar fyrirtæki halda sérstaka viðburði og kynningar eða vilja gera vel við starfsmenn sína.“

Nefnir Sólrún sem dæmi að pop-up-kaffihúsið hafi lífgað upp á frumsýningar á nýjum bílum hjá bílaumboðunum og glatt gesti á ýmsum ráðstefnum. „Má sem dæmi nefna að á síðustu sjávarútvegssýningu vorum við fengin til að opna kaffihús á sýningarbás fyrirtækis og gátu þá gestir og gangandi fengið ljúffengt kaffi á meðan þeir fræddust um vörur fyrirtækisins.“

Keppni um að gera besta bollann

Sníða þarf kaffilausnirnar að hverjum vinnustað og segir Sólrún að á meðan á einum stað geti hentað best að leigja fullkomna vél sem býr til flókna kaffidrykki í hvelli geti átt betur við annars staðar að hella upp á með gamla laginu. „Sum fyrirtæki velja að nota espressóvélar eins og við höfum á kaffihúsunum og verður þá oft til mikil stemning á milli starfsmannanna sem jafnvel keppa sín á milli um hver getur búið til besta kaffibollann,“ segir Sólrún og bætir við að margir eigi espressóvél í eldhúsinu heima og kunni því réttu handtökin. „Við höldum líka námskeið fyrir starfsmennina svo þeir kunni að nota vélarnar rétt og fái sem mest út úr kaffinu.“

Ekki má gleyma tefólkinu og selur Kaffitár lífrænt te í pokum frá Numi. Kunna stafsmenn líka vel að meta að hafa sírópsflösku við kaffivélina til að bragðbæta drykkina sína, en að sögn Sólrúnar er mest beðið um karamellu- og súkkulaðisíróp. „Við rekum einnig bakaríið Kruðerí þar sem við framleiðum ljúffengt bakkelsi til að narta í með kaffinu og algengt að vinnustaðir panti sérstakan Kruðerís-fundarbakka.“

Til að ræða málin

Segir Sólrún að vinnustaðir verði að passa vel upp á að kaffið sé gott enda eigi kaffikrókurinn að vera notalegur griðastaður og drykkurinn í bollanum þarf að næra bæði líkama og sál. Ef kaffið er ekki gott hverfur mikilvægur hlekkur á milli starfsmanna. „Það er yfir kaffibollanum sem starfsfólkið hittist og spjallar og skiptist á fréttum og skoðunum með óformlegum hætti. Hefur líka mikið að segja um upplifun viðskiptavina hvort tekið er á móti þeim með bragðgóðu kaffi í fallegum bolla og gefur þeim ákveðna vísbendingu um vinnubrögð fyrirtækis ef rétt hefur verið hugsað um þetta smáatriði.“

ai@mbl.is