Eyjaferja Samsett mynd af Skúfeyjarferjunni Sildberanum, sem öslar að hafnargarðinum, gerir örstuttan stans og öslar áleiðis til baka nær jafnharðan. Ferjur eru helsti samgöngumátinn milli eyjanna 18 en nokkrar þeirra eru nú tengdar með jarðgöngum auk þess sem þyrluflug er til afskektra staða. Í bókarlok veltir Þorgrímur fyrir sér stöðu Færeyja í dag.
Eyjaferja Samsett mynd af Skúfeyjarferjunni Sildberanum, sem öslar að hafnargarðinum, gerir örstuttan stans og öslar áleiðis til baka nær jafnharðan. Ferjur eru helsti samgöngumátinn milli eyjanna 18 en nokkrar þeirra eru nú tengdar með jarðgöngum auk þess sem þyrluflug er til afskektra staða. Í bókarlok veltir Þorgrímur fyrir sér stöðu Færeyja í dag. — Ljósmynd/Þorgrímur Gestsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.

Viðtal

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

„Nú stiklaði ég vítt og breitt um Færeyjar með Færeyingasögu í annarri hendinni og myndavélina í hinni,“ segir Þorgrímur Gestsson, rithöfundur og blaðamaður, þegar hann er spurður út í nýja og fallega bók sína í stóru broti, Færeyjar út úr þokunni en hún hefur undirtitilinn: Frá fornsagnaslóðum til okkar tíma . Þetta er þriðja fræðandi og ríkulega myndskreytta bókin sem hann skrifar og byggir á fornum sögum og eigin ferðum um söguslóðir. Þær fyrri eru Ferð um fornar sögur (2003), þar sem Þorgrímur leiddi lesendur um sögusvið fornsagna í Noregi og hefur bókin verið þýdd á norsku, og Í kjölfar jarla og konunga (2014) þar sem umfjöllunarefnið eru sögustaðir á Orkneyjum og Hjaltlandi.

„Þessi bók er á sömu nótum og hinar tvær,“ segir hann. „Í Noregi flakkaði ég um með Heimskringlu í hendinni og á Orkneyjum var ég með Orkneyinga sögu og aðrar Íslendingasögur sem gerast þar á eyjunum að einhverju leyti – nú var það Færeyingasaga. Og ég tók mikið af myndum á viðkomustöðunum enda gjöfult að taka myndir í Færeyjum, birtuskilyrðin eru svo margbreytileg.“

Varð að segja söguna alla

Fyrir þá sem hafa áhuga á þessum nágrannalöndum okkar og hinum fornu sögum eru fyrri bækur Þorgríms mikill ánægjulestur; við erum leidd frá einum áhugaverða staðnum til annars og fjallað um þá og tengslin við sögurnar á ástríðufullan og upplýsandi hátt. Þorgrímur segir að fyrri hluti nýju bókarinnar sé byggður upp eins og hinar tvær.

„Þar fjalla ég um Færeyinga sögu en talið er að hún hafi verið skrifuð á Íslandi skömmu eftir 1200, rek söguþráðinn og fer á alla helstu staðina sem koma við sögu, segi frá og sýni myndir.“

Helstu kempur Færeyingasögu eru Þrándur í Götu á Austurey og Sigmundur Brestisson í Skúfey og hverfist frásögnin mikið um átök þeirra og erjur og blandast fleiri inn í þá sögu alla, eins og Hafgrímur í Hovi á Suðurey og Bjarni í Svíney.

„Færeyinga saga er tiltölulega stutt og á yfirborðinu er söguþráðurinn einfaldur,“ segir Þorgrímur. „Þegar ég var kominn að enda sögunnar fékk ég á tilfinninguna að ég væri ekki með nema hálfa bók í höndunum og gerði mér grein fyrir því að ég yrði að fara nánar út í alla þá sögu, hvað gerst hefur í Færeyjum síðan, og hvernig tekist hefur verið á um eyjarnar.“ Þorgrímur hafði þá flakkað um eyjarnar í þremur góðum ferðum og safnað efni en lagðist í enn meiri lestur og tók að kynna sér konunga og jarla sem komu í kjölfar Magnúsar góða, sem var konungur í Noregi og Færeyjum við lok Færeyinga sögu.

Kemur okkur mikið við

„Ég lagðist í Sverris sögu konungs – sem ólst upp í Kirkjubæ í Færeyjum – og Hákonar sögu,“ segir hann. „Og svo gat ég nýtt mér netið miklu meira en við skrifin á fyrri bókunum, þar fann ég heilmikið af upplýsandi efni sem nýttist vel, til að mynda var gagnlegt að geta haft allar konungaraðirnar til hliðsjónar þegar ég var að átta mig á þeirri valdabaráttu sem einkenndi Norðurlöndin öldum saman.“

Þessi saga er umfjöllunarefni seinni hluta bókarinnar og lýkur henni með viðtölum við nokkra samtímamenn, þar sem Þorgrímur spyr þá um Færeyjapólitík nútímans.

„Danir komu snemma inn í valdabaráttuna í Noregi. Einn viðmælenda minna, stjórnmálafræðingurinn Zakarias Wang, hefur til að mynda fjallað mikið um ríkjasamninginn milli Dana og Norðmanna, Bergenstraktaten 1450, sem endaði með því að Danir slógu eign sinni á Noreg eins og hann lagði sig. Norðmenn misstu eiginlega allan mátt eftir að svartidauði grasseraði í landinu en eftir það voru eilífar krísur í landinu og allir aðalsmenn sem eitthvað máttu sín flúðu land. Aðallinn eiginlega hvarf og hefur ekki myndast síðan í Noregi.“

Þorgrímur kemur víða við í söguupprifjuninni í bókinni og segir að margt hafi komið sér á óvart, til að mynda nokkuð sem hann lærði aldrei um í skóla, að Færeyjar og Ísland hafi í raun verið hluti af Noregi alveg fram til 1814. „Þetta er allt saman óskaplega áhugavert, eins og þegar gerðir voru friðarsamningar í Kiel fyrir jólin 1813, þá voru Svíar komnir í bandalag með Rússum og með tilstyrk Rússa hótuðu þeir Dönum og sögðu: Ef við fáum ekki Noreg þá ráðumst við inn í Danmörku, og Danir gáfu eftir.

Íslenskir sagnfræðingar telja að þá hafi á síðustu stundu komið orðsending frá Georgi Bretakonungi um að Danir ættu þó endilega að halda Atlantshafseyjunum; Napóleonsstríðin höfðu opnað fyrir verslunarlínu milli Bretlands, Færeyja og Íslands og Bretar sáu að það hentaði þeim vel að halda henni opinni; þeir voru farnir að sættast við Dani og þótti betra að þeir réðu eyjunum en Svíar. Þess vegna lentum við ekki undir stjórn Svía. Mér fannst ég verða að koma þessu Norðurlandasamhengi öllu til skila, það kemur okkur svo mikið við...“

Sveitin austan við Austfirði

Saga Færeyja er ekki bara viðamikil heldur líka heillandi. Eins og Þorgrímur er ég áhugamaður um sögu eyjanna og við hófum í raun þetta samtal okkar um borð í Norrænu í sumar, þegar hann hafði lokið bókinni og var á leið til Danmerkur en ég til Færeyja að ljósmynda í nýja danska útgáfu Færeyinga sögu. Þorgrími þótti mikilvægt að enda bókina á því að ræða við ýmsa málsmetandi menn í Færeyjum.

„Sem blaðamanni fannst mér það mikilvægt,“ segir hann. „Ég er hins vegar ekki sagnfræðingur þótt ég hafi verið að daðra við þá fræðigrein,“ bætir hann við og brosir.

„Það er sérstakt að vera staddur í öðru landi en finnast maður samt eiginlega vera heima. Eftir 450 km siglingu frá Austfjörðum er ekki eins og maður sé kominn til útlanda heldur í næstu sveit fyrir austan Austfirði!“

Færeyinga saga gerist í einum átta af eyjunum átján og Þorgrímur segist hafa komið út í allar eyjarnar sem koma við sögu, nema Stóra og Litla Dímun en þangað er erfitt að komast nema yfir hásumarið. „En sagan er bráðskemmtileg – hún er eiginlega krimmi,“ segir hann. Og inn í hana blandast margt, eins og kristnitakan sem Sigmundur Brestisson leiðir, en enn í dag má hitta fólk í Færeyjum sem er ósátt við það hvernig hann beitti Þránd í Götu brögðum í viðskiptum þeirra.

„Fólk hefur skoðun á þessum mönnum og sagan lifir á eyjunum,“ segir Þorgímur og bætir við að nær allir sem hann hitti hafi verið fólk með góða söguvitund. „Það var enginn vandi að finna staðina í sögunni eða fólk sem gat vísað mér á þá. Færeyinga saga er lesin í barnaskólum og engum hleypt upp á fullorðinsaldur án þess að vera vel að sér í henni. Og sögustaðirnir eru þarna, til dæmis var merkilegt að koma í Norður-Götu, þar sem Þrándur bjó; í kjallara hússins sem stendur þar sem bær Þrándar er talinn hafa staðið er stór steinn á miðju gólfi og aðrir tveir fyrir utan húsið – Tróndarsteinar – og eru raktir till húss Þrándar í Götu. Þar er þetta áþreifanlega samband við fortíðina.“

Er ekki hættur

Færeyingasaga er hér á landi meðal minnst þekktu Íslendingasagnanna og Þorgímur segir það synd og skömm. „Það er ekki langt síðan hún kom út í Fornritaútgáfunni, sem er fræðileg útgáfa, en það þyrfti að gera hana aðgengilegri fyrir námsmenn og almenning,“ segir hann. Og honum finnst líka að Íslendingar mættu heimsækja Færeyjar í miklu meira mæli en þeir gera, Færeyingar séu svo einstaklega góðir heim að sækja og eyjarnar heillandi.

Nú eru 17 ár síðan Þorgrímur hóf ferðalögin milli sögustaða í nágrannalöndum og eyjum austur og suðaustur af Íslandi en vinnuna við þessa nýju bók hóf hann fyrir sjö árum. Tímamót urðu síðan í lífi hans í sumar. „Ég varð sjötugur og lagði í tilefni af því upp í langan leiðangur um Noreg á mínum 18 ára gamla bíl, kannski til að sanna fyrir sjálfum mér að það væri enginn aldur – hvorki á bíln um né mér! – og fór að hluta til sömu leiðina og sumarið 2001,“ segir hann og brosir. „Samkvæmt lagabókstafnum liggur í þessum aldri að maður skuli afskrifaður, enginn má þá vinna fasta vinnu lengur, nema hjá sjálfum sér. En ég er ekki hættur og hugsa meðal annars um að fjórða bókin þyrfti að fjalla um sögustaði á Grænlandi og Vínland, L'ance aux Meadows á Nýfundnalandi. En það yrði gríðarlega dýrt ferðalag, meðal annars er óhemju kostnaðarsamt að ferðast innanlands í Grænlandi. Til að geta gert það yrði ég að fá styrk til verksins – ætli ég yrði ekki að stofna félag um það!

En ég þyrfti að bæta þeirri bók við, til að ná fyllilega utan um þennan sagnaheim.“